Það bar við snemma árs 1968 að tvö morð voru framin með skömmu millibili í Reykjavík, það fyrra á Þorra, hið síðara á Góu og bæði með skammbyssum. Óhug sló á þjóðina og lögreglan gaf út tilkynningu þar sem allar skammbyssur voru innkallaðar, hvar sem þær kynnu að leynast og hvernig sem til þeirra hefði verið stofnað, að viðlögðum háum sektum. Enn er í minnum byssuhaugurinn sem barst til höfuðstöðva lögreglunnar, allt frá framhlaðningum og byssustingjum til nútíma vígtóla. Skammbyssur voru lýstar óalandi og óferjandi á Íslandi, enda augljóslega ekki ætlaðar til annars en valda ógn og dauða. Eða hvert er notagildi skammbyssu? Varla gengur nokkur maður til rjúpna með skammbyssu, hvað þá hreindýra? Skammbyssa er aftur á móti kjörin ætli viðkomandi að fremja vopnað rán eða stytta náunga sínum aldur með skjótum og skilvirkum hætti.
Bannið gerði að verkum að það var einfaldlega ekki í boði á Íslandi að kála manni með skammbyssu og öðru hverju þegar byssuæði keyrir um þverbak vestur í Ameríku, er gjarnan rifjað upp þetta fordæmi Íslendinga.
Nú er svo komið að talað er um að tveir hópar glæpagengja starfi í landinu og lögreglan greinir frá þessu eins og ekkert sé og sýnir því jafnvel vissan skilning – hinn almenni borgari þurfi ekkert að óttast. Maður hefði þvert á móti haldið að áþekk yfirlýsing yrði til þess að allt þjóðfélagið yrði sett á viðbúnaðarstig og þetta mál eitt á málaskrá þingsins þar til yfir lyki.
Í ljósi nýlegra atburða er brýnt að endurnýja bann við skammbyssum með viðauka um vélbyssur og sjálfvirka riffla, að viðlögðum himinháum sektum og refsingum. Í hverri einustu flugvél og ferju sem kæmi að utan ættu flugþjónar og -freyjur að dreifa miðum þar sem erlendur farþegi væri upplýstur um bannið og viðurlögin við að brjóta það. Líkt og til skamms tíma tíðkaðist í flugvélum vestur um haf þar sem farþegi þurfti að greina frá bráðsmitandi sjúkdómum eða óæskilegum stjórnmálaskoðunum. En sportveiðimenn gætu því aðeins haft vopn undir höndum að þau væru með heimilisfang og kennitölu og þeir sjálfir með nothæft heilbrigðisvottorð.
Vettlingatök að ekki sé talað um skilning sem yfirvöld sýni byssumönnum er ávísun á skálmöld í þeim Kardimommubæ sem Ísland hefur verið og hlýtur jafnan að vera þegar kemur að löggæslumálum. Með banni við skotvopnum yrði glæpagengjum gert óhægara um vik að starfa hér og hinn almenni borgari gæti farið allra sinna ferða án þess að eiga von á skotárás úr launsátri.
Höfundur er rithöfundur.