Öldruð frænka mín, staðföst vinstrimanneskja til 60 ára, fullyrðir að Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, sé guðfaðir sitjandi ríkisstjórnar. Er það ekki heldur ósanngjörn fullyrðing; að sú ríkisstjórn sem virðist hafa sett misskiptingu og ósætti á oddinn, sitji í skjóli Ögmundur sem ötullega berst fyrir þeim sem minna mega sín?
Ögmundar-syndromið?
Fyrsta málið sem sitjandi ríkisstjórn lagði fram var frumvarp um lækkun veiðigjalda og hátekjuskatts. Það var eins og hún teldi ástæðulaust að fela fyrir hverja hún starfaði.
Sjálfstæðisflokkurinn virðist genginn í björg nýfrjálshyggjuafla þar sem misskiptingin er talin til náttúrulögmála, og Framsóknarflokkurinn er í herkví lýðskrumara sem ítrekað bera vanhæfni sína og fádæma skort á fagmennsku. Enda sýna kannanir að tiltrú almennings á forystusveit ríkisstjórnarinnar er nánast engin.
En Sjálfstæðisflokkurinn getur þakkað vinstriöflunum fyrir að hafa í áratugi verið yfirburðaflokkur hér á landi; það er ekki styrkur flokksins sem hefur gert hann að leiðandi afli, heldur sundrung vinstri afla. Og þar erum við komin að Ögmundi, og fullyrðingu frænku minnar.
Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna komst til valda á einum erfiðasta tíma í sögu íslenska lýðveldisins, og hún ætlaði sér svo stóra hluti að henni gat varla annað en mistekist. Vinstrimenn virðast þar að auki sáttir við að stopul valdaseta þeirra sé einungis innskot í valdasögu Sjálfstæðisflokksins, og þess vegna reyna þeir að koma of miklu til leiðar á of stuttum tíma. Þennan skilning kunna Sjálfstæðismenn að meta, enda töluðu þingmenn þess flokks gjarnan um að Jóhanna Sigurðardóttir ætti að „skila lyklunum“. Eins og hún hefði rænt völdum, tekið það sem væri með réttu þeirra. Hægri menn gátu hallað sér áhyggjulaust aftur og fylgst með því hvernig innri deilur og sólóspil einstakra þingmanna og ráðherra, reif stjórnarsamstarfið í sundur.
Þá talaði frænka mín mest og harðast um Ögmund.
Þennan greinda hæfileikamann, með hjartað á réttum stað, en hagar sér eins og þrjóskt barn sem rýkur í fýlu ef hann fær ekki sínu framgengt. Hans sannfæring ofar öllu.
Getum við kannski farið að tala um Ögmundar-syndromið?
Og að í því liggi ógæfa vinstri og jafnaðarmanna?
Bjarni Benediktsson sendir okkur jólakort í þakklætisskyni
Stundum fær maður á tilfinninguna að vinstri – og jafnaðarmenn óttist samvinnu og þá sterku breiðfylkingu sem góð samvinna getur leitt af sér. Að þeim líði best í smáum, áhrifalitlum einingum. Með litla ábyrgð, en stór orð.
Við völd situr stjórn rúin trausti, sem svo augljóslega stendur vörð um auðmagnið á kostnað mikils meirihluta þjóðarinnar. Sem svíkur loforð og fer fram með valdníðslu í skjóli meirihluta síns. Ríkisstjórn ofsa, ríkisstjórn auðmagns og misréttar. Þegar þannig háttar ætti stjórnarandstaðan að blómstra í könnunum. Píratar gera það, en hinir hefðbundnu vinstri og miðjuflokkar vinna ekkert á. Þjóðin hefur ekki trú á þeim. Hún hefur trú á Katrínu Jakobsdóttur, en ekki flokki hennar.
Og hversvegna ætti maður að kjósa Vinstri græna, Samfylkinguna eða Bjarta Framtíð? Hvað bjóða þeir upp á nema sundrung, innri deilur? Er munurinn á Bjartri Framtíð og Samfylkingu, liggur hann í öðru en fatasniðinu?
Ef við viljum endilega tryggja áframhaldandi yfirburði Sjálfstæðisflokksins, sama hvernig hann hagar sér, þá skulum við endilega halda áfram á sömu braut. Förum að dæmi Guðmundar Steingrímssonar og stofnum nýjan flokk ef við fáum ekki að ráða öllu í lagavalinu, spilum sóló eins og Ögmundur vegna þess að skoðanir okkar eru merkilegri en skoðanir annarra. Höldum þessu áfram til streitu, breytum engu, förum sundruð fram í næstu kosningum, stofnum jafnvel nokkur sérviskuframboð til viðbótar til að dreifa kröftunum.
Er þetta ekki prýðis plan?
Bjarni Benediktsson sendir okkur jólakort í þakklætisskyni – og LÍU borgar burðargjaldið.
Riddarar í sveit Katrínar Jakobsdóttur!
Við getum annaðhvort haldið uppteknum hætti, gengið sundruð til næstu kosninga og þannig tryggt áframhaldandi misskiptingu. Eða fylkt okkur á bak við þann eina stjórnmálamann sem hefur getu og vinsældir til að leiða breiðfylkingu í anda R-listans: Katrínu Jakobsdóttur.
Katrín Jakobsdóttir getur ekki lengur leyft sér að loka sig af í því 10 prósent horni sem Vinstri grænir eru fastir í. Ef hún hefur áhuga á að hrifsa samfélagið úr járnklóm hagsmuna, nýfrjálshyggju og lýðskrumara, þá verður hún að stíga fram og sameina vinstri– og miðjumenn að baki sér. Og aðrir forystumenn eiga að víkja. Þeir eiga að taka hagsmuni þjóðar fram yfir persónulegan metnað og verða riddarar í sveit Katrínar Jakobsdóttur. Hennar tími er einfaldlega runninn upp. Hvort sem henni líkar betur eða verr.