Hvernig á að auka völd almennings? Hvernig á að taka völdin af spilltum sérhagsmunahópum sem ráða svo miklu í samfélaginu að stjórnmálamenn og fjölmiðlar dansa í takt við þeirra vilja? Hvaða afl getur breytt þessum veruleika? Svarið er verkalýðshreyfingin. Og nú skal ég rökstyðja það.
Engin hreyfing í landinu er eins fjölmenn, rík, vel skipulögð og með viðlíka fjölda starfsmanna og verkalýðshreyfingin. Hún er málsvari allra þeirra sem eru á vinnumarkaði, eftirlaunafólks sem var á vinnumarkaði og öryrkja sem hafa dottið út af vinnumarkaði vegna álags og veikinda. Þetta er meginþorri landsmanna.
Samkvæmt Hagstofunni er áætlað að um 209.000 manns á aldrinum 16–74 ára hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði í janúar 2020. Og þá er eftir að telja með öryrkja utan vinnumarkaðar og eftirlaunafólk eldra en 74 ára. Þvílíkur fjöldi. Þetta ætti að vera valdamesta hreyfing á landinu. En svo er aldeilis ekki. Það eru sérhagsmunir auðugs fólks, stórfyrirtækja og fjármagnseigenda sem ganga fyrir og svo hressilega að meira að segja Seðlabankastjóri, prófessorar í hagfræði við Háskóla Íslands ásamt þorra landsmanna sem hafa verulegar áhyggjur af ástandinu.
Til að breyta þessu þarf að auka verulega vald verkalýðshreyfingarinnar. Forsendurnar sem vald hennar byggir á eru eldgömul og úrelt lög um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938. Það viðgengst að verkalýðshreyfingin er ekki höfð með í ráðum þegar teknar eru mikilvægar efnahagslegar ákvarðanir sem varða kjör launafólks. Þrátt fyrir að verkalýðshreyfingin sé fulltrúi meginþorra þjóðarinnar hefur hún verið of þrælslunduð gagnvart Samtökum atvinnurekenda og stjórnvöldum. Vísir að endurreisn hefur þó farið fram með beittari áherslum, en ennþá er staða verkalýðshreyfingarinnar alltof veik. Það er algjörlega óviðunandi. Eins og staðan er núna geta hinar vinnandi stéttir lítið gert á milli kjarasamninga, eru fangar í friðarskyldu, sem gengur út á að launafólk geti nánast ekkert aðhafst þó aðstæður á vinnumarkaði og í þjóðfélaginu kalli á aðgerðir. Verkföll eru bönnuð og vinnustöðvanir. Verkalýðshreyfingin fer með bænaskjöl til stjórnvalda og stjórnmálaflokka án þess að þeir þurfi að hlusta eða fara nokkuð að vilja hreyfingarinnar. Dæmi um það er nýlegt plagg sem Alþýðusamband Íslands hefur birt og er ákall til frambjóðenda til Alþingis í þingkosningunum í haust þess efnis að byggja samfélagið upp með sjálfbærni, jöfnuð og jafnrétti að leiðarljósi. Engin trygging er fyrir því að hlustað verði á það ákall.
Sósíalistar hafa myndað með sér stéttahóp til að fjalla um stöðu hinna vinnandi stétta. Að mati hópsins nýtir verkalýðshreyfingin alls ekki nægilega vel mátt sinn og megin til að sækja sér þau völd sem duga til að bæta hag launafólks, öryrkja og eftirlaunafólks. Eins og fyrr segir er verkalýðshreyfingin á Íslandi fjárhagslega vel stæð fjöldahreyfing launafólks með sterkt skipulag og hæft starfsfólk og hefur þær bjargir sem þarf til að tryggja völd sín á þann hátt að engin lög séu sett, engin frumvörp samþykkt eða reglugerðir eða neitt það ákveðið sem varðar líf og afkomu hinna vinnandi stétta án þess að verkalýðshreyfingin móti þær ákvarðanir. Engin önnur fjöldahreyfing á Íslandi býr yfir sterkari björgum en verkalýðshreyfingin.
Verkalýðshreyfingin þarf að sækja sér þau völd sem hún ætti að hafa ef rétt væri gefið á Íslandi. Þannig myndu völdin færast frá spilltum sérhagsmunahópum til almennings. Aukin völd til almennings og aukin lýðræðisvæðing er algjör grundvöllur fyrir því að hægt sé að ná því markmiði að allir geti lifað mannsæmandi og góðu lífi á Íslandi.
Höfundur er atvinnulífsfræðingur og félagi í Sósíalistaflokki Íslands.