Eitt stærsta átaka- og deilumál síðustu ára – jafnvel síðustu áratuga – er hver skuli í raun fara með eignarhald á stærstu auðlindum þessarar þjóðar. Eignarhaldið á sjávarútvegsauðlindinni var fært íslensku þjóðinni í lögum um stjórn fiskveiða. Það var gert að tilhlutan Alþýðuflokksins, sem þá sat í ríkisstjórn, og sá sem þetta ritar átti þess kost ásamt ráðherra flokksins að rita þann lagatexta. Lagatexta sambærilegs efnis er hins vegar nauðsynlegt að festa í stjórnarskrá til þess að tryggja að sá lagatexti sé einatt virtur ásamt með því að komið sé í veg fyrir að aðrir en þjóðin geti kastað sínu eignarhaldi á þessa og aðrar sameiginlegar auðlindir. Það ber að gera með því að lögleiða að úthlutanir á aflaheimildum verði ávallt tímabundnar og að sanngjarnt gjald fyrir auðlindanýtingu verði ávallt tekið og aðferðin til þess er að sjálfsögðu sú, að sama regla veði látin gilda um greiðslur veiðigjalda og sú regla sem sett hefur verið um verð þeirra afurða, sem nýtingin færir þeim, sem nýta – þ.e. með markaðsverði. Alþýðuflokkurinn, sem beitti sér fyrir og fékk því framgengt, að fiskveiðiauðlindin var með almennri lagasetningu úrskurðuð þjóðarauðlind, beitti sér einnig ávallt fyrir þeim öðrum atriðum, sem hér voru nefnd en öðlaðist aldrei aðstöðu til þess að fá þeim framgengt enda allir aðrir stjórnmálaflokkar á hans tíma – Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Alþýðubandalag – andvígir því.
Þjóðin segir sína skoðun
Samfara þessum breytingum, sem orðið hafa á hinum pólitíska vettvangi, hafa orðið miklar breytingar á afstöðu þjóðarinnar. Það kom fyrst fram í tillögum Stjórnarskrárnefndar, sem kosin var af þjóðinni til þess að semja nýja stjórnarskrá. Hún skilaði tillögum sem endurómuðu stefnu Alþýðuflokksins í auðlindamálunum – og skilaði þeim tillögum einhuga. Þjóðin fékk svo sjálf að ganga til atkvæða m.a. um þann þátt tillagnanna, sem vörðuðu þjóðarauðlindina – og mikill meirihluti kjósenda samþykkti þær í atkvæðagreiðslu. Þau úrslit þjóðarinnar höfðu engin áhrif á ráðandi stefnu þeirra þingflokka, sem þar voru þjóðinni gersamlega andvígir. Sami þjóðarvilji hefur komið fram í ítrekuðum skoðanakönnunum um hvaða stefnu þjóðin segist vilja styðja í þessu mikilvæga máli. Milli 60 og 85% þjóðarinnar hefur skv. þeim skoðanakönnunum ávallt stutt þessa gömlu stefnu Alþýðuflokksins og stefnu Stjórnarskrárnefndar, sem þjóðin sjálf hafði lýst samþykki við, en ráðandi öfl á Alþingi ávallt verið á móti.
Tvær þjóðir?
Nú er eðlilegt að spurt sé: Er það önnur þjóð, sem gengur til Alþingiskosninga en sú, sem studdi tillögur Stjórnarskrárnefndar og hefur ítrekað þann vilja sinn í hverri skoðanakönnuninni á fætur annari? Nei, auðvitað er svo ekki. Þetta er ein og sama þjóðin. Sama þjóðin sem enn og aftur gengur að kjörborðinu, hefur þar kosið til Alþingis fulltrúa sem eru andvígir því, sem hún sjálf hefur kosið með og ítrekað enn og aftur lýst sem einhverju mikilvægasta þjóðþrifamáli sem þessi sama þjóð þarf að fást við. Er þetta virkilega svo? Já, svona hefur þetta ítrekað gerst. Þjóðarviljinn samkvæmt úrslitum kosninga hefur ítrekað leitt í ljós niðurstöðu, sem er andstæð þjóðarviljanum, eins og hann hefur birst í atkvæðagreiðslu þjóðarinnar um tillögur Stjórnarskrárnefndar og ítrekað í öllum skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið um sama mál ár eftir ár. Mun þetta verða svo áfram? Að í næstu kosningum séu leiddir til áhrifa aðilar, sem eru andstæðir vilja þjóðarinnar í einhverju mikilvægasta máli, sem þjóðin hefur þurft að fást við, hefur lýst fylgi sínu við í kosningum og ítrekað skoðun sína á ár eftir ár?
Þjóð í mótsögn við sjálfa sig
Á þetta að vera viðvarandi ástand? Að þjóðin standi í stöðugri mótsögn við sjálfa sig? Kjósi í Alþingiskosningum það, sem hún segist sjálf ekki vilja. Kjósi gegn sjálfri sér eins og hún hefur sjálf kosið í atkvæðagreiðslu um efnisatriði máls, og ítrekað lýst sinni skoðun á í skoðanakönnunum allra fjölmiðla í mörg ár. Auðvitað er íslenska þjóðin marktæk. En af hverju tekur hún þá ekki mark á sjálfri sér? Aftur – og ítrekað? Við kjörborðið?!?
Höfundur er fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins.