Það vakti nokkra athygli þegar Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor og umsjónarmaður, ákvað að birta niðurstöður sínar vegna rannsóknarverkefnis um erlenda áhrifaþætti íslenska bankahrunsins sem hann vinnur fyrir fjármálaráðuneytið, í Morgunblaðinu í morgun. Verkefnið er nefnilega unnið fyrir tíu milljónir króna af skattfé og fyrir ráðuneyti, og því viðeigandi að niðurstöðurnar birtist fyrst í greinargerð eða skýrslu sem skilað sé til þess.
Niðurstöðurnar koma þó ekki mikið á óvart. Þær eru í grófum dráttum þessar: Vinstri stjórnin sem ýtti Davíð Oddssyni út úr Seðlabankanum sá til þess að 210 milljarðar króna töpuðust vegna þvingaðra flýtisala á erlendum eignum fallinna íslenskra banka, mistök Seðlabankans undir stjórn Más Guðmundssonar gerðu það að verkum að ríkið tapaði allt að 60 milljörðum króna að óþörfu með sölu á FIH-bankanum og verðmatið á Arion banka og Íslandsbanka var 307 milljörðum krónum of lágt þegar þeir voru seldir til kröfuhafa að undirlagi vinstri stjórnarinnar árið 2009.
Í bakherberginu er tekið er undir þá kröfu Hannesar að þessa þætti eigi alla að rannsaka, helst af óháðum sérfræðingum sem hafa enga pólitíska hagsmuni af niðurstöðu slíkrar rannsóknar. Það er algjörlega nauðsynlegt að allt sé uppi á borðum varðandi endurskipulagningu íslensks efnahagslífs og að hægt verði að fyrirbyggja að sömu mistök verði endurtekin.
Í bakherberginu er tekið er undir þá kröfu Hannesar að þessa þætti eigi alla að rannsaka, helst af óháðum sérfræðingum sem hafa enga pólitíska hagsmuni af niðurstöðu slíkrar rannsóknar. Það er algjörlega nauðsynlegt að allt sé uppi á borðum varðandi endurskipulagningu íslensks efnahagslífs og að hægt verði að fyrirbyggja að sömu mistök verði endurtekin.
Þar vakti hins vegar mesta athygli sú söguskýring Hannesar að veiting 500 milljóna evra neyðarláns til Kaupþings 6. október 2008, með veði í FIH-bankanum, hafi í raun verið frábær.
Í grein Hannesar í Morgunblaðinu segir: „Að tilhlutan Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra tók Seðlabankinn allsherjarveð í danska bankanum, svo að veðið átti að geta gengið upp í frekari kröfur seðlabankans á Kaupþing[...]Á öndverðu ári 2009 var Davíð Oddsson hrakinn úr stöðu seðlabankastjóra, en Már Guðmundsson skipaður eftir skamma hríð í hans stað. Már hafði fyrir hönd Seðlabankans umsjón með sölu FIH banka haustið 2010 og sagði þá opinberlega, að hún væri „hagstæð“. Svo virðist sem Már hafi ekki séð fyrir, hvað hinir nýju eigendur hlytu að gera, strax og þeir eignuðust bankann. Þeir léku á hann.“
Í kjölfarið fylgir löng upptalning á aðgerðum sem Már og Vinstri stjórnin hefði átt að grípa til svo að FIH hefði skilað gríðarlegum hagnaði fyrir Ísland og Íslendinga, væntanlega aðgerðir sem Davíð hefði gripið til ef hann hefði haldið um stýrið. Merkilegt er að söguskýringar Hannesar eru að öllu leyti samhljóma þeim sem Davíð sjálfur setti fram í Reykjavíkurbréfi sem hann skrifaði í Morgunblaðið 21. janúar síðastliðinn. Þar sagði Davíð að Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra hefði tekið ákvörðunina um lánveitinguna, dönsk stjórnvöld hefðu fullyrt að veðið væri gott og vinstri stjórnin sem bar Davíð út úr Seðlabankanum með valdi hafi síðan klúðrað því að vinna almennilega úr veðinu með þeim afleiðingum að tap skattgreiðenda varð eins og það varð.
Og svo bætti hann við: „Bankinn FIH er enn starfandi og lausleg skoðun á eigin fé bendir til að hann sé enn mun meira virði en veðskuldin var. Þeir sem eiga bankann nú virðast því mega vera mjög ánægðir með viðskipti sín við Seðlabanka Íslands.“ Allt alveg eins og hjá Hannesi.
Skýring Seðlabankans á sölu FIH hefur reyndar alltaf verið sú að hefði bankinn ekki selt á þeim tíma sem hann gerði hefðu dönsk stjórnvöld skrifað niður allt hlutafé hans í september 2010 og að danska fjármálaeftirlitið myndi í kjölfarið taka bankann yfir. Endurheimtir Seðlabankans vegna neyðarlánsins hefðu þá orðið núll.
En báðir vinirnir, Hannes og Davíð, blása á þetta og komast að þeirri niðurstöðu að tap vegna neyðarlánsins sé öllum sem að málinu komu að kenna nema Davíð.
En báðir vinirnir, Hannes og Davíð, blása á þetta og komast að þeirri niðurstöðu að tap vegna neyðarlánsins sé öllum sem að málinu komu að kenna nema Davíð. Hann hafi í raun gert allt rétt þegar hann lánaði Kaupþingi tugi milljarða króna sem bankinn hefur síðar verið sakaður um að hafa eytt í að kaupa fullt af verðlausum skuldabréfum á yfirverði af starfsmönnum og vildarviðskiptavini sínum. Í raun hefur það ætið verið niðurstaða þeirra félaga að ekkert sem gerðist í aðdraganda hrunsins hafi verið fyrrum forsætisráðherranum og seðlabankastjóranum að kenna.
Bakherbergisfólk hefur að þessu tilefni rifjað upp skopmynd sem Halldór Baldursson, einn besti blaðamaður landsins, teiknaði í Morgunblaðið 28. september 2009 og hægt er að sjá efst á þessari grein. Myndin var teiknuð nokkrum dögum eftir að Davíð hafði verið ráðinn ritstjóri, og aðvaranir um að nú yrði sagan skrifuð í gegnum fjölmiðilinn með hætti sem hentaði hans hugmynd um eigin arfleið höfðu verið bornar á torg. Í ljósi samhljóma niðurstöðu Hannesar, sem greitt var fyrir með skattfé, og söguskýringum Davíðs, sem greitt er fyrir með kvótaauð, eru margir sammála um að þær aðvaranir séu nú að raungerast.