Fyrsta fórnarlamb hvers stríðs er ekki sannleikurinn heldur friðurinn. Annað fórnarlamb hvers stríðs er heldur ekki sannleikurinn, heldur friðarsinninn. Á nokkrum klukkutímum eftir innrás Rússlands í Úkraínu, þúsund mílur frá átökunum, tókst íslensku þjóðinni að fórna skynseminni á altari ofstækistvíhyggjunnar: „Ef þú ert ekki með okkur þá ertu á móti okkur,“ Bush í nóvember 2001. Í praxís, ef þú samþykkir ekki það sem við segjum þá ertu í liði með okkar verstu óvinum. Gagnrýni á stefnu Vesturlanda jafngildir stuðningi við fasistann Pútín – næst er sannleikurinn skotinn í höfuðið.
Þjóðin gerði Facebook að herútkalli eins og í COVID. Fjölmargir á örfáum dögum búnir að missa það líkt og í æsilegum tölvuleik. Uppteknir við að skjóta í allar áttir, hrópa á vopn, dásama hetjur og mála óvininn í sem allra dekkstu litum, jafnvel sem nýjan Hitler. Skynsöm greining aðstæðna, forsenda allra ákvarðana, ekki inni á radar.
Má ræða pólitískt raunsæi? Nei, þá fyrst tapaði fólk vitglórunni. Friðarsamninga? Nei, berjast til síðasta manns! Eftirgjöf lands til að bjarga mannslífum? Nei, aldrei! Pútínsvikarinn þinn!
Sérstaklega var það ein kenning sem tryllti lýðinn. Kenningin um dálitla ábyrgð Vesturlanda á stríðsástandinu í Úkraínu sem í fyrstu var eignuð róttækum vinstri mönnum en kom tragíkómískt í ljós að var úr plottheila illræmdasta NATÓ-herfræðings síðustu aldar og kennd við hann: Henry Kissinger kenningin um Úkraínu. Kynnt á magnaðan hátt í heimsfrægum spádómi prófessors Mearsheimer frá 2015 um það hvað myndi gerast ef Bandaríkin héldu áfram stefnu sinni í Úkraínu með pólitískum afskiptum og útþenslu NATÓ: Úkraína yrði lögð í rúst.
Rökfræði afleiðinga vs rökfræði prinsippanna
Raunsæisstjórnmála-heimspekin aðgreinir tvo hluti. Annars vegar rökfræði afleiðinganna (nytjasiðfræði) og hins vegar rökfræði prinsippanna (reglusiðfræði).
Eftir rökfræði prinsippanna greinir fólk atburði og túlkar texta siðferðilega út frá eigin aðstæðum með hliðsjón af tiltölulega einföldum reglum, þó reglurnar séu yfirleitt beygðar að eigin hagsmunum og sveigjast eftir áróðursafli valdsins. Meirihluti hins vestræna heims túlkar því innrás Rússlands sem brot á grundvallarprinsippinu um að ekkert ríki megi ráðast á annað og hvetur til aðgerða út frá því, stutt af ótal öðrum prinsippum. Slíkri prinsipphugsun fylgir gjarnan sá vandi hughyggjunnar (e. idealism) að hugsa málin ekki nægilega vel út frá lífi almennings og lífshagsmunum. Frumprinsippið ætti þannig að vera líf fólks og lífsafkoma en verður í blindri prinsipphugsjón þjóðernishyggjunnar: Yfirráð lands og gæsla landamæra. Dregin er lína í sandinn og hún varin út í eitt. Jafnvel þangað til öllu er eytt. Það ætti því ekki að koma fólki á óvart að bæði fyrri og síðari heimsstyrjöldin, Víetnamstríðið og Íraksstríðið tengdust sterkt prinsipprökfræðinni.
Í rökfræði afleiðinganna horfa greinendur, um fram allt annað, á afleiðingar atburða; ágóðann í ljósi fórnarkostnaðarins. Það er aðferð vísindanna og leikjafræðinnar þar sem markmiðin eru ekki gefin upp fyrir fram heldur valin eftir á þegar líklegar afleiðingar liggja fyrir. Þessi rökfræði kann oft að hljóma köld en ef rétt er á haldið og verndun lífs og lífsskilyrða sett sem aðalmarkmið ætti sú rökfræði að hafa mikla stjórnviskulega yfirburði umfram prinsipprökfræðina í stríðsátökum á tímum atómbombunnar, þrátt fyrir að hugsjónarmennskan og reglusiðfræðin standi oft sterkar í hefðbundnum innanlandsstjórnmálum.
Mearsheimer, í sínum fræga fyrirlestri, veitti óbeint svar við þeim upphrópunum sem áttu eftir að kaffæra íslenska samfélagsmiðla: Úkraína er sjálfstæð þjóð, hún má alveg ganga í NATÓ ef hún vill! Þetta er frjálst ríki! Það er ekki NATÓ að kenna þó Rússar ráðist á Úkraínu! Og svo framvegis. Augljóst var að hann leit á sambærilegar pælingar sem hugsunarvillu afglapa og skilningssljórra stjórnmálamanna sem fara alltaf halloka fyrir real-pólitískum refum „China will eat our lunch,“ sagði hann.
Herfræðina má skýra svona: Á kjarnorkuöld er lífsspursmál fyrir þjóðir að stjórnmálamenn skilji og horfist í augu við það sem óvinaríki eru líkleg til að gera en hitt; það sem þjóðríki eiga og mega gera er fyrir lögfræðinga, heimspekinga og kjána.
Hin eina og sanna hagsmunagæsla fyrir Úkraínu?
Það má halda því fram að rökfræði afleiðinganna, líkt og rök Mearsheimers, séu hinn eina sanna hagsmunagæsla fyrir Úkraínu en að skoðanir þeirra sem einblína á prinsipp og fullkomið réttlæti séu ábyrgðarlaus glópska. Allt nokkuð augljóst ef Úkraína verður lögð í rúst, eins og nú við blasir, en einnig og ekki síður ef til kjarnorkustríðs kemur eins og margir hafa benti á að væri vel mögulegt. Ef það gerist þá er ljóst að á-má-og-hefur-rétt-á afglaparnir hafa ásamt Pútín steypt okkur öllum í glötun.
Þó er ekki algjörlega óskiljanlegt að sumir hafi móðgast, orðalagið skiptir öllu máli. Það er t.d. engan veginn réttlátt að segja að Vesturlönd beri ábyrgð á sjálfri innrásinni. Valdaelíta Pútíns ber yfirburða ábyrgð auðvitað. Fátt er hins vegar hættulegra lífi fólks og mannkyns eins og að gera stjórnmálamenn fyrir fram ábyrgðarlausa á verkum sínum í stríðsástandi. Leiðtogar Vesturlanda höfðu val og hafa val. Þeir geta afstigmagnað ástandið, dregið úr hernaðaruppbyggingu, slakað á heimsvaldastefnu og þrýst á friðarsamninga – líka á þá samninga sem eru ófullkomið réttlæti og eftirgjöf lands til lengri eða styttri tíma.
Röddin sem er deydd, tungan sem er skorin
Um fram allt þarf rödd afleiðinganna og friðsamlegra leiða að heyrast. Heiður hernaðarhyggjunnar í ofstæki stríðsins drekkir orðum skynseminnar í blóði. Þá verða hugsjónamennirnir, hinir siðferðilega fullkomnu, auðveldlega hinir fullkomlega siðlausu. Rödd prinsippanna í hugsjónablindu ofstæki ber sjaldan virðingu fyrir mannslífum.
Sjálfur trúi ég á raunsæið, áhrifin á hið smáa. Reynslu barnanna í sprengda fjölbýlishúsinu og lífslöngun þeirra í heimi sem þau fá litlu um ráðið. Ég trú því að syrgjandi augu barnanna séu friðarsyrgjandi augu en ekki ákall um prinsipp og því síður um vopn.
Höfundur er félagsfræðingur.