Það er brennuvargur laus í Evrópu, sem staðið hefur fyrir stríði í Úkraínu frá því á vordögum 2014. Þá hófst það sem ég vil kalla ,,fyrra Úkraínustríðið“, þegar aðskilnaðarsinnar í austur-Úkraínu, með aðstoð Rússa sögðu sig úr lögum við Úkraínska ríkið í kjölfar stjórnarbyltingar sem kallast Euromaidan.
Þá reis úkraínskur almenningur upp gegn ríkjandi valdhafa, Viktor Janúkóvits, sem var leppur Rússa, og steypti honum af stóli. Úkraínumenn vildu nálgast Evrópu og horfa til vesturs, en ekki austurs. Janúkóvits flúði til Rússlands með fúlgur fjár að því að talið er.
Á sama tíma hrifsaði Vladimír Pútín, forseti Rússlands, til sín Krímskaga með ólöglegum hætti, sem hann sagði að hefði alltaf tilheyra Rússlandi og ætti því að vera þar. Sem er rangt, því Krímskagi tilheyrði Úkraínu frá 1954, en var vissulega lengi hluti af rússneska heimsveldinu, sem ekki er til lengur. Aðgerð þessi er skýrt brot á alþjóðalögum. Í þessu fyrra stríði létust um 14.000 manns.
Það sem svo kalla mætti ,,seinna Úkraínustríðið“ hófst svo þann 24. febrúar síðastliðinn þegar Vladimír Pútín skipaði her sínum (sem var búinn að vera á ,,heræfingu“ mánuðum saman við landamæri ríkjanna), að gera allsherjarinnrás í Úkraínu.
Innrásin er byggð á ranghugmyndum á borð við að ,,af-nasistavæða“ Úkraínu og koma í veg fyrir ,,þjóðarmorð“ á Rússum í austurhluta landsins (Donbass). Hvorugt stenst skoðun, og t.d. er forseti Úkraínu, Vladimír Zelenskí, af gyðingaættum!
Nasistar stjórna ekki Úkraínu, bara svo það sé á hreinu og ekkert þjóðarmorð hefur verið framið á Rússum. Reyndar mætti snúa þessu við, því rússneski herinn hefur gert sig sekan um hrikalega stríðsglæpi í nokkrum borgum Úkraínu, t.d. Bucha. Almennir borgarar hafa verið drepnir af mikilli grimmd og aðgerðirnar jaðra við þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyni.
Innrásin og skipulögð skemmdarverk Pútíns á Úkraínu eiga sér meðal annar rætur í þeirri staðreynd að Pútín þolir ekki þá tilhugsun að Úkraína verði vestrænt lýðræðisríki og að þar hafi fólk rétt til þess að hugsa frítt og njóta mannréttinda, sem og borgaralegra réttinda. Nokkuð sem er búið að bæla skipulega niður undir stjórn Pútíns í Rússlandi, frá árinu 2000, enda landið orðið eitt mesta alræðisríki á jörðinni.
Pútin hefur sagt NATO ógna Rússlandi, en aðildarríkjum þess fjölgaði eftir hrun Sovétríkjanna árið 1991. Þá völdu mörg lönd sem voru á áhrifasvæði Rússa að ganga bæði í ESB og NATO. Þau eru frjáls og fullvalda og ráða hvernig þau haga sínum málum. Úkraína vill það líka, en það þolir Pútín ekki. Pútín vill því ráða hlutum sem hann hefur í raun ekkert með að gera.
Hvernig þessu stríði í Úkraínu lýkur og hvenær er erfitt að segja til um. Það er hins vegar skylda Vesturlanda að styðja landið í baráttu sinni gegn yfirgangi, ofbeldi og glæpum Rússa gegn úkraínsku þjóðinni. Því það eru ill öfl við völd í Moskvu, öfl sem byggja á þjóðernishatri og vanvirðingu fyrir frelsi og mannréttindum.
Þeirri skoðun er gjarnan haldið að okkur hér á Vesturlöndum að Rússland sé svo flókið og að við getum ekki skilið rússneska sögu og samfélag. En þetta er frekar einfalt; undanfarin 3-400 ár hefur ofbeldi og botnlaus vanvirðing gagnvart mannslífum verið rauður þráður í rússnesku samfélagi. Keisararnir kúguðu bæði innanlands og utan, almenningur svalt. Eftir byltingu kommúnista 1917 hélt kúgunin og ofbeldið áfram; Stalín lét drepa milljónir og henda öðrum eins fjölda í Gúlag (þrælkunarbúðir). Meðal annars í Úkraínu, þar sem hungursneyð var notuð sem vopn. Rússar drápu líka einir Bandamanna sína eigin menn í baráttunni við nasista í seinni heimsstyrjöld, ekki einu sinni nasistar gerðu það (,,Not a step back“- stefnan).
Innrás í Ungverjaland 1956, Tékkóslóvakíu 1968 og Afganistan 1979. Eftir upplausn Sovétríkjanna hélt þetta svo áfram undir Boris Jeltsín í Téténíu (1994-6 og 2000-2009, þá undir Pútín) og nú gegnumsýrir ofbeldið rússneskt samfélag undir stjórn Pútins; innrás í Georgíu 2008, Úkraína 2014 (aðstoð við aðskilnaðarsinna) og svo aftur núna, rússneski herinn í heild sinni og með aðstoð Hvíta-Rússlands og kúgarans þar, Alexander Lúkasjénkó. Nýleg lög leyfa einnig rússneskum mönnum að berja nánast eiginkonur sínar til dauða, ákveðnar tegundir heimilisofbeldis voru afglæpavæddar. Ofbeldið er því í raun lögleitt og hefur ákveðið lögmæti.
Niðurstaðan er: Leiðtogi Rússlands er ofbeldismaður sem verður að stoppa, hann er stórhættulegur fyrir alla heimsbyggðina, því hann hefur jafnvel gefið til kynna að hann sé tilbúinn að beita kjarnorkuvopnum. Það er brjálæði, sem og öll þessi ömurlega herferð hins grama Pútíns gegn Úkraínu.
Höfundur er MA í stjórnmálum A-Evrópu frá Uppsalaháskólanum í Svíþjóð.