Ég valdi að mennta mig í draumastarfið og verða hjúkrunarfræðingur. Ég byrjaði nám í hjúkrun árið 2005, þá 36 ára gömul, í miðjum skilnaði við barnsföður minn og maka til 18 ára. Hugsjón mín var að geta séð fyrir mér og börnum mínum tveim að námi loknu. Geta lifað með reisn, með flotta háskólamenntun í starfi sem ég hefði unun af því að sinna. Draumur minn á meðan náminu stóð, var að fá vinnu á bráðadeildinni í Fossvogi að námi loknu og rættist sá draumur við útskrift 2009.
Ég byrjaði því að vinna á bráðadeildinni á erfiðum tímum, kreppan var skollin á, ráðningarbann á LSH og því var ég, ásamt nokkrum öðrum sem fengum ekki fastráðningu fyrr en um ári eftir ráðningu, með tilheyrandi óvissuástandi varðandi örugga vinnu. Á þessum tíma geisaði svokölluð svínaflensa með miklu álagi á starfsfólk, auk þess sem undirbúningur sameiningar bráðadeildar á Hringbraut við Fossvoginn stóð yfir. Bráðadeildin í Fossvogi var undirlögð vegna breytinga á húsnæði deildarinnar sem gerði alla starfsemina erfiðari. Undanfarin ár hef ég og öflugt samstarfsfólk mitt ekki farið varhluta af því að álagið á deildina hefur verið að aukast jafnt og þétt. Þrátt fyrir álagið hef ég lagt það á mig að vinna 50-60% af vinnu minni á næturvöktum síðustu 3 ár til að hífa upp laun mín. LSH er á brúninni, starfsfólk sjúkrahússins eru orðið langþreytt á að hlaupa hraðar, á lélegu húsnæði og álagi sem er stöðugt og oft á tíðum við hættumörk.
Ég hef tekið á mig meiri ábyrgð, fleiri sjúklinga og hlaupið hraðar, en vinnuveitandi minn ríkið bregst ekki við. Hrun heilbrigðiskerfisins virðist vera óumflýjanlegt, miðað við ástand þess í dag og vegna úrræða- og hugsunarleysis ráðamanna. Ég treysti mér ekki til að vinna hraðar og vera öruggur starfsmaður, hvenær kemur að því að ég geri ég mistök vegna álags sem ekki verða tekin til baka? Verð ég þá sótt til saka, þrátt fyrir að vinnuveitandi minn, ríkið búi sjúkrahúsinu aðstæður sem ekki verður við unað?
Einungis viku fyrir merkan áfanga í kvenréttindabaráttu Íslendinga sendi ríkisstjórnin okkur hjúkrunarfræðingum kaldar kveðjur og setur lög á verkfall okkar, eftir langar samningaviðræður þar sem fulltrúar vinnuveitanda míns höfðu ekki umboð til að bjóða neitt og biðu eftir að aðilar vinnumarkaðarins höfðu lokið sínum samningum og buðu þá það sama og þeir fengu, án nokkurra leiðréttinga á kynbundnum launamun.
Verkfallsréttur minn og mannréttindi voru afnumin af vinnuveitanda mínum, ríkinu, með lögum og ég skikkuð til að taka þá launahækkun sem ríkinu þóknast að veita mér. Árið 2015 er ég með 14-25% lægri laun en annað háskólamenntað fólk sem vinnur hjá ríkinu og að þessi launamunur er líklega vegna þess að hjúkrunarfræðingar teljast til kvennastétta. Það er sanngjörn krafa að fá sömu laun og annað háskólamenntað fólk sem vinnur hjá ríkinu.
Kjaramál hjúkrunarfræðinga hafa hvílt þungt á mér síðustu vikurnar.
Nú eru rúmlega 200 hjúkrunarfræðingar búnir að segja upp stöðum sínum á LSH og margir aðrir í þeim sporum að hugleiða þá lausn mála. Hvort sem kjarasamningur verður samþykktur eða ekki, breytir það ekki þeirri stöðu að margir hjúkrunarfræðingar eru að hætta og ætla ekki að koma aftur. Hvernig áhrif mun það hafa á starfsemi LSH þar sem álagið er gríðarlegt fyrir? Ég hef verulegar áhyggjur yfir því hvernig vinnustað mínum Landspítala muni reiða af á komandi mánuðum, í kjölfar þess að svo margir fagmenntaðir eru að hverfa úr starfi sínu. Hvernig verður starfsumhverfið? Mun álagið á þá sem eftir verða óbærilegt? Hvað ætla ráðamenn að gera í málunum? Hvernig vilja þeir hafa heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga?
Bráðadeildin er minn draumavinnustaður, samstarfsfólk mitt samanstendur af metnaðafullu hugsjónafólki sem ég lít á sem vini mína og yfirmenn deildarinnar hafa reynst mér gríðarlega vel. Ég vildi koma ofangreindu á framfæri, því þetta er verulegt áhyggjuefni fyrir mig, samstarfsfólk mitt og samlanda mína.
Höfundur er hjúkrunarfræðingur á bráðadeild í Fossvogi. Bréf hennar var einnig sent á Pál Matthíasson forstjóra LSH og næsta yfirmann höfundar.