Á haustvikum hefur verið nokkur umræðu um íslenskukennslu fyrir fólk af erlendum uppruna, m.a. í tengslum við þá kjarasamninga sem framundan eru og hvort verkalýðshreyfingin eigi t.d. að beita sér sterklega fyrir íslenskunámi á vinnutíma. Ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu, en vil benda á að það hljóti að vera sameiginlegir hagsmunir bæði launafólks og stjórnvalda að gera vel í þessum málum.
Það sem mig langar að koma á framfæri eru þær aðstæður sem fræðsluaðilar sem bjóða upp áíslenskukennslu fyrir útlendinga búa við.
Nú hef ég í rúman áratug rekið og kennt við lítinn tungumálaskóla, þar sem uppistaðan er íslenskukennsla fyrir útlendinga. Starfsemin hefur farið vaxandi með auknum fjölda innflytjenda til landsins og fyrirséð að enn frekari aukning verði þar á, þar sem spáð er að innflytjendur verði helmingur launafólks á Íslandi innan nokkurra áratuga.
Ríkið styður við löggilta fræðsluaðila á hverju ári með styrkjum í gegnum Rannís, sem gerir þeim kleift að bjóða námskeiðin ódýrari en ella. Meirihluti kostnaðarins fellur þó á nemendur, sem síðan geta margir hverjir sótt að einhverjum hluta til starfsmenntasjóðs síns stéttarfélags. Atvinnulaust fólk, flóttafólk og hælisleitendur geta síðan fengið styrk til íslenskunáms frá Vinnumálastofnun eða sveitarfélögum. Þrátt fyrir sívaxandi hóp sem hingað flytur til að mæta þörfum okkar fyrir aukið vinnuafl, er í framlögðum fjárlögum vegna 2023 er gert ráð fyrir um fjórðungs niðurskurði ríkisins til þess framlags sem fer í gegnum Rannís.
Árið 2017 fékk skólinn okkar, Múltikúlti íslenska, styrk í gegnum þetta kerfi til að halda 30 námskeið fyrir 300 nemendur, sem reyndist nokkuð nálægt þeim fjölda sem sótti námskeið það árið (talan miðast við fjölda nemenda með kennitölu sem lýkur námskeiði með viðunandi mætingu). Fimm árum síðar, á árinu 2022, fáum við í árlegri úthlutun styrk til að halda 33 námskeið fyrir 363 nemendur. Til að setja hlutina í samhengi þá eru nú, þegar þessi orð eru skrifuð, 337 nemendur á íslenskunámskeiðum hjá okkur á samtals 24 námskeiðum sem standa yfir í 7 vikur. Heildartala ársins fer vel yfir 1.000 nemendur sem ljúka námskeiðum með fullnægjandi hætti og fjöldi námskeiða rúmlega 90. Þess ber þó að geta að síðasta vetur var umtalsverð aukaúthlutun, vegna sérstakra aðstæðna, sem kom að hluta til inn á þetta ár og lagaði hlutina umtalsvert. En ekki verður séð að forsendur þeirrar aukaúthlutunar verði áfram til staðar, svo það eina sem sjáanlegt er framundan er regluleg úthlutun Rannís sem, eins og áður er nefnt, gert er ráð fyrir að skerðist um fjórðung í krónum talið, og enn meira að teknu tilliti til verðbólgu. Þessi úthlutun sem við hljótum þýðir þá að stuðningur stjórnvalda við hvern og einn nemanda verður enn minni, en í okkar tilviki hefur hann nú þegar lækkað niður í um einn þriðja á hvern nemanda síðan 2017 (heildarstuðningur deilt með fjölda nemenda).
Aukning ferðamanna til Íslands kallar á eflingu innviða eins og gatnakerfis og aðstöðu við ferðamannastaði. Auknar tekjur sem falla til vegna þessara sömu ferðamanna gera það kleift og rúmlega það. Á sama hátt þýðir koma erlends vinnuafls auknar tekjur og aukna velmegun á Íslandi og skýtur því skökku við að verið sé að skera niður styrki til íslenskukennslu til þessa hóps á sama tíma. Þegar hlutur ríkisins dregst saman verður því ekki mætt með öðru en að hækka verðið til þeirra. Innviðir í ferðaþjónustu eru í raun fjárfesting, sem skilar sér bættri upplifun ferðamanna og þar af leiðandi fjölgun þeirra með tímanum. Að sama skapi er stuðningur við íslenskunám innflytjenda fjárfesting, sem skilar sér í auknum lífsgæðum þess fólks sem hingað flyst og eykur líkur á að það festi hér rætur, sem skilar sér margfalt til baka í skattgreiðslum inn í framtíðina.
Í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við, eins og á Norðurlöndum, er gert mun meira til þess að kenna innflytjendum mál heimamanna og mjög víða þeim að kostnaðarlausu. Ég á ekki von á því að það gerist hér í bráð, stjórnvöld munu ekki stökkva til og bjóðast til að borga það sem starfsmenntasjóðir stéttarfélaga eru að greiða í dag fyrir íslenskunám. En þau mættu í það minnsta taka sig taki og auka stuðninginn, a.m.k. í hlutfalli við þann aukna fjölda sem hingað sækir.
Höfundur er framkvæmdastjóri og kennir hjá Múltikúlti íslensku.