Hvernig er umferðareyjan sem þú býrð á? „Ég bý ekkert á umferðareyju,“ er sjálfsagt það fyrsta sem skýtur upp í kollinn á þér lesandi góður. Staðreyndin er hins vegar sú að ef þú býrð í þéttbýli eru mjög miklar líkur á því að þú búir einmitt á umferðareyju. Prufaðu að ganga út um dyrnar á húsinu þínu og veltu fyrir þér hversu langt þú getur gengið í höfuðáttirnar fjórar án þess að rekast á þunga umferðargötu, eru það 50 m, 200 m, 500 m?
Þegar þú ert búinn að átta þig á stærð umferðareyjunnar þinnar þá er næsta æfing sú að velta fyrir sér hvernig götur afmarka eyjuna þína og liggja innan hennar. Eru það rólegar húsagötur, þyngri umferðargötur eða jafnvel hraðbrautir? Hvernig hafa þessar götur mótað líf þitt? Er auðvelt fyrir þig að komast yfir þær, treystirðu þér til að senda barnið þitt eitt yfir þessar götur? Hefur einhver látið lífið á þessum götum?
Þriðja og síðasta æfingin er svo að velta fyrir sér hvaða þjónusta er í boði á umferðareyjunni þinni? Kemstu í vinnu án þess að þvera þunga umferðargötu? Kemst barnið þitt í skólann án þess að fara yfir slíka götu? Er matvörubúð á eyjunni þinni? En strætóstoppistöð, heilsugæsla, íþróttaaðstaða eða afþreying? Ertu með aðgengi að náttúru?
Samsetning umferðareyjunnar þinnar, úrval þjónustu sem er í boði og hversu miklar hindranir nálægar götur eru, er það sem skipulagsgerð snýst um. Skipulag mótar líf þitt og hegðun og er yfir og allt um kring í lífi þínu sama hvort þér líkar það betur eða verr.
Skipulagsgerð er þverfagleg og krefst aðkomu margra fagaðila til að vel takist til, það þarf til dæmis að ákveða gerðir og stærðir húsa, hvaða hús eru íbúðarhúsnæði og hvaða hús eru atvinnuhúsnæði, hvar er pláss fyrir skóla, leiksvæði og náttúru? Hvernig kemst skólpið í burtu, hvaðan færðu heitt vatn, kalt vatn, rafmagn og internet? Hvað gerist með regnvatnið, er því veitt ofan í rör og út til hafs eða er það tekið upp í gróðri og beðum innan hverfis?
Það er samt fátt í skipulagi sem hefur meiri áhrif á þig dagsdaglega heldur en samgöngur. Samgöngur gera okkur nefnilega kleift að ferðast á milli staða og eiga samskipti og viðskipti við umheiminn í kringum okkur. Samgöngur eiga það hins vegar til að slasa okkur og jafnvel drepa okkur. Þær eiga það einnig til að taka mikið pláss og vera mikill tímaþjófur, eins og við flest þekkjum. Það fer hins vegar mikið eftir samgöngutækjum og skipulagi hversu plássfrekar, tímafrekar og hættulegar samgöngur eru.
Langbesta samgöngutæki allra tíma fyrir þéttbýli eru fæturnir okkar sem gera okkur kleift að ganga og hjóla. Fætur menga ekki, eru ekki háværir, taka afskaplega lítið pláss og með því að hreyfa þá reglulega höldum við okkur heilbrigðum. Helsti galli fótanna er hins vegar að þeir koma okkur eingöngu takmarkaða vegalengd á hverjum degi. Gott skipulag tekur tillit til þessa og staðsetur verslun, atvinnu og þjónustu nálægt íbúðarhverfum til þess að fólk geti gengið eða hjólað á milli staða. Að sama skapi er miður gott skipulag sem staðsetur verslanir, þjónustu og atvinnu langt frá íbúðarhverfum og rænir okkur þannig möguleikanum á að nota fæturna.
Á eftir fótunum kemur næstbesta samgöngutæki fyrir þéttbýli - almenningssamgöngur. Góðar almenningssamgöngur eru hryggjarstykkið í öllu vel skipulögðu þéttbýli. Almenningssamgöngur eru í raun framlenging á fótunum á okkur, þær halda okkur heilbrigðum og taka tiltölulega lítið pláss. Almenningssamgöngum fylgir þó meiri hávaðamengun og loftmengun en af fótunum okkar, en það er þó tiltölulega lítil mengun miðað við fólksfjöldann sem almenningssamgöngur geta flutt. Gott leiðarkerfi almenningssamgangna er forgangsatriði þega kemur að góðu borgarskipulagi. Utan um það er byggð, stígar og götur skipulagt til þess að auðvelda fólki að komast leiðar sinnar þegar fæturnir geta ekki borið mann alla leið. Miður gott skipulag byrjar hins vegar á að skipuleggja götur og byggð og reynir síðan í lokin að þræða almenningssamgöngur kræklóttar leiðir í gegnum hverfin, sem skilar sér í slökum almenningssamgöngum sem nýtast fólki illa.
Sísta samgöngutæki fyrir þéttbýli er einkabíllinn. Einkabíllinn er plássfrekur með eindæmum, hann þarf ekki aðeins breiðar og fyrirferðamiklar götur, heldur mikið geymslupláss í formi bílastæða. Honum fylgir loftmengun og hávaðamengun ásamt því að hann ýtir undir kyrrsetulíf og lélega lýðheilsu. Gott skipulag í þéttbýli er þar sem einkabíllinn er í aukahlutverki, götur eru nettar og aksturshraði fer helst ekki yfir 30 km/klst. Miður gott skipulag setur hraða einkabílaumferð í hásæti og miðar allt daglegt líf út frá notkun einkabílsins.
Því miður hefur skipulag síðustu áratuga á Íslandi verið mjög bílmiðað í þéttbýli. Við höfum kyngt því þegjandi og hljóðalaust að nær helmingur af öllu skipulögðu landsvæði höfuðborgarsvæðisins sé helgað einkabílnum. Við skipuleggjum blokkir sem taka upp 500 fm landsvæði og hikum ekki við að bæta við öðrum 500 fm í formi malbikaðra bílastæða. Við leggjum götur út um alla króka og kima því við teljum sjálfsögð mannréttindi að geta keyrt á 50 km hraða allt að því inn í stofu til fólks og fyrirtækja.
Einkabíllinn er líka mjög dýru verði keyptur, við eyðum milljörðum á milljarða ofan á hverju ári í að leggja götur og endurmalbika ásamt því að moka snjó og sópa. Að ótöldum milljörðunum sem fara í smurningu, dekk og viðgerðir.
Það dýrasta af öllu eru þó mannslífin, um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Einkabíllinn er orsakavaldur í langflestum þessara dauðsfalla. Þetta samsvarar því að um 20 Boeing 737 farþegaflugvélar myndu hrapa á hverjum einasta degi allan ársins hring! Það eru 7.300 flugvélar á ári! Til þess að setja þá tölu í eitthvað samhengi þá er heildarfjöldi af flutninga- og farþegaflugvélum í heiminum um 24.000 talsins.
Gott skipulag getur komið í veg fyrir flest þessara slysa.
Höfundur er samgönguverkfræðingur og sviðsstjóri hjá VSB verkfræðistofu.
Þessi pistill er hluti greinaraðar í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá formlegu upphafi skipulagsgerðar hér á landi með setningu laga um skipulag kauptúna og sjávarþorpa árið 1921.