Það er þriðjudagur. Klukkan er rúmlega 11. Ég var að koma inn úr dyrunum, þrífallinn á klaka bólgnum gangstéttum, en óbrotinn. Ég opna fyrir Ríkisútvarpið. Það er verið að tala um lítilmagnann, útigangsfólk, og um afdrep fyrir fólk með geðraskanir, Vin. Og ég skammast mín fyrir yfirvöld, stjórnmálin.
Eini sinni var Sósíalistaflokkur. Svo dró úr sósíalismanum hjá mörgum og til varð Alþýðuflokkur, kratískur flokkur. Hann var bæði með og móti sjálfum sér og stefnu sinni. Þegar hann var að verða að engu var honum rennt inn í aðra flokka af margri sort. Kokteillinn fékk heitið Samfylking. Fyrirsvarsmenn hennar töluðu fallega til alþýðu manna og á augabragði varð hún annar stærsti flokkur landsins. Svo fóru þeir að stjórna og sýna hvað í þeim býr og bjó. Eftir það hallaði undan fæti og það fækkaði í fylkingunni. Í síðustu þingkosningum varð hún örflokkur á þingi. Í nýliðnum sveitarstjórnarkosningunum tapaði hún tveimur borgarfulltrúum í Reykjavík, en þó svo digur enn í borginni að hún er þar í meirihluta, með öðrum að vísu, en í meirihluta eigi að síður og hefur verið á annan áratug.
Á meðan jafnréttis ræðurnar hljómuðu á þingi og prentuðu orð ný-krata bárust um land allt í blöðum og á netinu sátu Samfylkingarmenn við stjórnborðið í Reykjavík að brugga ráð til að rétta af hallann á rekstri borgarinnar. Og þeir fundu ráð, Kratarnir. Sín ráð. Niðurskurð. Þeir ætla að bæta hag borgarinnar með því að reka heimilislausa fólkið úr sambýlum og út á gaddinn um miðjan dag. Þetta eru líka flækingar úr nágranna bæjunum og við, Reykvíkingar, eigum auðvitað ekki að bera ábyrgð á þeim. En þegar að var gáð dugði þetta eitt ekki til að rétta af efnahagsreikninginn. Það þurfti meira til. Og lausnin lá við dyr borgarráðs; lokum Vin. Þetta er flott húsnæði, vel mublerað, og þarna er bara fólk með geðraskanir að hittast yfir hádaginn. Það hlýtur að vera hægt að hola því niður annars staðar; til dæmis á bóka- og listasöfnum borgarinnar. Samþykkt; út með förumenn, róna og geðsjúklinga. Þetta fólk bjargar sér; það er vant því. Spörum aurinn.
Vonandi má framanritað vera áminning til okkar allra og hvatning til þess að fylgjast með orðum og gjörðum loforða gaukanna; mismuninum milli orðs og æðis. Ummynduninni.
Höfundur er rithöfundur.