Tuttugasta og áttunda júlí síðastliðinn voru 100 ár liðin frá því fyrri heimstyrjöldin hófst. Fáir atburðir hafa haft viðlíka áhrif á heimssöguna. Heimsveldi féllu og ný komu til sögunnar og sjálfstæð ríki urðu til, þar á meðal Ísland sem varð fullvalda árið 1918. Í upphafi styrjaldarinnar sumarið 1914 vonuðu stórveldin að hægt væri að hindra útbreiðslu hennar. Svo varð ekki. Austurrísk-ungverska keisaradæmið lýsti stríði á hendur Serbíu 28. júlí 1914. Þýskaland sagði Rússlandi stríð á hendur 1. ágúst, Frakklandi 3. ágúst og réðist á Belgíu degi síðar. Innrás Þjóðverja í Belgíu nægði Bretum til þess að lýsa stríði á hendur Þjóðverjum 4. ágúst. Austurrísk-ungverska keisaradæmið lýsti stríði á hendur Rússlandi 6. ágúst og Frakkar og Bretar lýstu stríði á hendur keisaradæminu sex dögum síðar. Á þessum tíma var Evrópa orðin fjölmennari en nokkru sinni og samfélögin betur skipulögð. Efnahagur ríkja hafði styrkst og félagslegar og pólitískar breytingar sem styrktu stöðu þjóðríkjanna og ríkisvaldsins höfðu átt sér stað. Tækniframfarir í landbúnaði urðu til þess að færri stunduðu landbúnaðarstörf og því voru fleiri ungir menn tiltækir til herþjónustu. Evrópuríkin bjuggust við að átökum lyki fyrir jól 1914, en raunin varð allt önnur. Erfitt varð fyrir deiluaðila að hafa stjórn á atburðarásinni. Sífellt meiri kostnaður hafði áhrif á pólitísk markmið átakanna, sem urðu æ óljósari eftir því sem stríðið drógst á langinn og hernaðaráætlanir breyttust. Að fjórum árum liðnum lágu milljónir manna í valnum.
Fyrri heimstyrjöldin var fyrsta nútímastyrjöldin. Vopnin voru langdrægari, nákvæmari og banvænni en áður. Til sögunnar komu skriðdrekar, flugvélar og kafbátar og efnavopnum var beitt í fyrst skipti. Vísndamenn, verkfræðingar og vélfræðingar urðu jafn mikilvægir og hermenn, samfara framförum í tækni og vísindum. Þessi þróun hefur orðið viðvarandi. Í seinni heimsstyrjöldinni var almenningur í skotlínunni sem aldrei fyrr. Loftárásir voru gerðar á borgir og gyðingar sendir í útrýmingarbúðir. Tölvur og eldflaugar urðu til og kjarnorkuvopn þvinguðu Japan til uppgjafar. Í dag, aðeins nokkrum kynslóðum síðar, á tímum flýilda, tölvuárása, stýriflauga og annarra hátæknivopna, á tímum þar sem fámennir hópar vopnaðra vígamanna hafa yfir töluverðri hernaðargetu að ráða, er almenningur í skotlínunni ekki síður en á síðustu öld. Nú falla færri hermenn en almennir borgarar í stríðsátökum þó mannréttindi eigi að heita tryggðari en fyrir 100 árum.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_31/39[/embed]
Í fyrri heimstyrjöldinni var rúmlega þriðjungur fórnarlambanna almennir borgarar, eða um fimm milljónir manna. Átta milljónir hermanna féllu á vígvellinum. Í seinni heimsstyrjöldinni létust nálega 27 milljónir almennra borgara og þessi gríðarlegi munur endurspeglar greinilega þær tæknibreytingar sem urðu á sviði hernaðar á millistríðsárunum. Fjórar til fimm milljónir manna flúðu heimili sín fyrstu árin eftir fyrri heimsstyrjöldina en næstum 40 milljónir manna flúðu eða var vísað úr landi á árum milli 1945 og 1950. Þar af flúðu um það bil 170 þúsund Palestínuarabar á árunum 1946 til 1948. Til samaburðar má nefna að 4.800 hermenn Bandaríkjanna og bandamanna þeirra féllu í Írak frá 2003 til 2014 og næstum 33 þúsund særðust. Talið er að 35 þúsund íranskir hermenn og uppreisnarmenn hafi fallið, en samkvæmt sumum rannsóknum hafa um 500 þúsund almennir íranskir borgarar látist á einn eða annan hátt vegna átakanna. Í seinni heimsstyrjöldinni er áætlað mannfall Þjóðverja um 6,8 milljónir, þar af féllu 3,6 milljónir almennra borgara. Á tuttugustu öldinni hafa upp undir 120 milljónir manna (talan er óáreiðanleg) orðið fyrir barðinu á þjóðernishreinsunum, eins og þær eru skilgreindar í dag.
Tölur sem þessar segja okkur hins vegar ekki mikið um þær hörmungar, sársauka og þjáningar sem milljónir manna upplifðu og upplifa enn í dag vegna stríðsátaka. Nú sjáum við átökin í beinni útsendingu fyrir tilstilli fjölmiðla og samfélagsmiðla. Það færir okkur vissulega nær vígvellinum en ekki endilega nær sannleikanum. Átök og þjóðernishreinsanir í Kambodíu, Rúanda og fyrrum Júgóslavíu seint á síðustu öld og átökin í Mið-Austurlöndum nú sýna að rétt eins og fyrir 100 árum, við upphaf fyrri heimstyrjaldar, eru afleiðingar stríðsátaka óútreiknanlegar.
Í eðli sínu eru stríðsátök óræð (irrational), í þeim skilningi að um leið og þau hefjast og vopnin fara að tala tekur við lögmál sem er óútreiknanlegt, óháð allri skynsemi, skipulagningu, áætlunum og væntingum. Enginn sá fyrir hörmungar, skotgrafahernað og mannfall fyrri heimsstyrjaldar fyrir sléttum 100 árum. Á sama hátt tók hið óræða völdin þegar Hitler réðst á Sovétríkin 1941, þegar Japanir réðust á Perluhöfn í desember 1942, þegar Lyndon B. Johnson og Robert McNamara tóku ákvörðun um að stigmagna stríðið í Víetnam í júlí 1965 og þegar George W. Bush og hinir nýíhaldssömu (neoconservative) ráðgjafar hans í varnar- og utanríkismálum tóku ákvörðun um að ráðast á Írak árið 2003.
Þessi stóru stríðsátök brutust út vegna ólíkra ástæðna og markmiða sem helguðust af þeim áróðri eða rökum sem beitt var til þess að réttlæta þau. Þó eiga stríð eins og fyrri og seinni heimsstyrjöld, Kóreustríðið, Víetnamstríðið, stríðið gegn hryðjuverkum, átökin í Írak, Afganistan, Sýrlandi og nú síðast Palestínu og Úkraínu eitt og annað sameiginlegt. Það er mögulegt að nefna að minnsta kosti fjögur atriði sem einkenna stríð, uppruna þeirra og ástæður:
- Stríð eru líkleg þar sem öfgakennd þjóðernishyggja, múgsefjun og stjórnleysi ráða ríkjum.
- Stríð eru líkleg þar sem herstjórn, trúarbragðahópar, eða pólitísk samtök með öfgafulla stefnu komast til valda, hvort sem það gerist með lögmætum eða ólögmættum hætti.
- Stríð eru oftast drifin áfram af árásarhneigð, örvæntingu, vonleysi, firringu og ofsóknum í garð minnihlutahópa.
- Stríð eru oft afleiðing misheppnaðs erindreksturs ríkisstjórna eða manna á vegum þeirra.
Allt þetta má heimfæra upp á orsakir fyrri heimsstyrjaldarinnar. Þær voru pólitískar og snérust um landsvæði og efnahagsleg átök milli stórveldanna í Evrópu áratugina fyrir styrjöldina en líka um aukna hernaðarhyggju, heimsvaldastefnu, kynþátta- og þjóðernishyggju. Upphaf stríðsins lá þó í ákvörðunum sem teknar voru af stjórnmálamönnum og hershöfðingjum eftir morðið á Franz Ferdinand, ríkisarfa austurrísk-ungverska keisaradæmisins í Sarajevo 28. júní 1914, en þær leiddu til diplómatískrar kreppu í Evrópu. Segja má að fyrri heimsstyrjöldin hafi gert það að verkum að frekari ófriður braust út á liðinni öld, þeirri öld sem ýmist er nefnd öld öfga eða öld stríðsátaka.