Dagurinn í dag, var dagur mikilla tíðinda í efnhagsmálum þjóðarinnar. Þó hæst beri gleðileg tíðindi um losun hafta, sem styrkja stöðuna gagnvart ríkisjóði, og almenningi öllum, um allt að 900 milljarða króna - fyrir utan að losa einstaklinga og fyrirtækja undan oki haftanna sjálfra til lengdar ltið - þá var einnig stigið lokaskrefið í áralangri þróun iðnaðarsvæðis á Bakka við Húsavík.
PCC BakkiSilicon hf. hefur ákveðið að reisa kísilver á iðnaðarsvæðinu á Bakka við Húsavík til framleiðslu á kísilmálmi og er áætluð árleg framleiðslugeta versins 32.000 tonn í fyrri áfanga en fullbyggð er áætluð afkastageta 66.000 tonn. Aflþörf versins er 53 MW í fyrri áfanga og áætlað er að 48 MW komi frá hinni nýju virkjun Landsvirkjunar að Þeistareykjum.
Framtíðarstörf eru áætluð 120, en þau verða 400 á uppbyggingartíma. Alveg óháð því, hvað fólki finnst um iðnaðaruppbyggingu eins og þessa, sem hefur verið svolítið umdeild hér á landi, þá verður að segjast eins og er, að þessi uppbygging er allt önnur og raunhæfari en þegar stefnt var að uppbyggingu álvers á svæðinu. Þá var ráðgert að álverið þyrfti allt að 600 megavött af raforku, sem áttu að fást öðru fremur úr virkjunum á Norðurlandi.
Allt bendir nú til þess að þessar hugmyndir um álverið, og gríðarlega umfangsmiklar virkjanaframkvæmdir vegna þess, hafi alla tíð verið algjörlega óraunhæfar. Uppbygging PCC útheimtir innan við einn tíunda af því sem teiknað hafði verið upp í undirbúningi fyrir álver Alcoa, og mun fleiri störf skapast á hvert megavatt af raforku. Óhætt er að segja, að þetta sé góð lending, miðað við það sem áður hafði verið áformað, og gott að endanlega sé búið svæfa þessa fráleitu virkjanadrauma sem tengdust uppbyggingu álvers á svæðinu.