Sveitarfélög greiða að jafnaði 40% lægra tímakaup til sérfræðinga en fyrirtæki á almennum vinnumarkaði. Þetta er niðurstaða greiningar sem BHM lét vinna á launum háskólamenntaðra sérfræðinga síðastliðið haust.
Hvað þýða þessar hlutfallstölur svo í krónum? Á árinu 2020 voru regluleg heildarlaun fullvinnandi sérfræðinga á almennum markaði 956 þúsund krónur á mánuði samanborið við 824 þúsund hjá ríkinu og 620 þúsund hjá sveitarfélögum. Þetta þýðir að starfsfólk sveitarfélaga fær í lok hvers mánaða ríflega 300 þúsund krónum minna en starfsfólk sem vinnur í sambærilegu starfi á almenna vinnumarkaðnum. Þar hallar sérstaklega á konur, en 83% sérfræðinga hjá sveitarfélögum eru konur.
Ég hef fundið fyrir þessu vanmati á störfum á eigin skinni. Ég starfaði lengi sem menningarstarfsmaður á opinbera markaðnum, á Borgarbókasafninu, Bókasafni Garðabæjar og á Gljúfrasteini. Ég þekki því vel hvað mikilvægt starf getur skilað litlu í budduna. Þau okkar sem vinna á opinbera vinnumarkaðnum eiga skilið að fá borgað í samræmi við menntun okkar, ábyrgð og reynslu.
Leiðréttum kerfislægan launamun
Nú standa yfir tvö langvarandi samstarfsverkefni heildarsamtaka launafólks og stjórnvalda sem, ef vel tekst til, eiga að stuðla að miklum og varanlegum kjarahækkunum fyrir félagsfólk Fræðagarðs, sérstaklega konur og starfsfólk sveitarfélaga.
Árið 2016 sömdu ríki, sveitarfélög og heildarsamtök launafólks um að kjör launafólks á opinberum og almennum vinnumarkaði yrðu jöfnuð eins og kostur er. Markmiðið var að tryggja að ekki yrði kerfislægur launamunur milli markaða til frambúðar. Og árið 2021 tók til starfa aðgerðarhópur um endurmat á virði kvennastarfa.
Undirrituð er í framboði til formanns Fræðagarðs. Konur eru 70% af félagsfólki Fræðagarðs og rúm 60% félagsfólks Fræðagarðs starfar á opinbera vinnumarkaðnum. Þær aðgerðir sem þessir tveir hópar lofa eiga að skila sér í kjarabótum fyrir þorra félagsfólks okkar. Launasetning stórra hópa innan okkar stéttarfélags, t.d. safnafólks og starfsfólks í fræðslu-, íþrótta- og tómstundastarfsemi, er óviðunandi.
BHM tekur þátt í báðum þessum verkefnum. Fræðagarður þarf að taka virkan þátt í þessu starfi, bæði inn á við en einnig með því á tala hátt og skýrt út á við til að tryggja að unnið verði hratt og faglega að málinu.
Kjarajafnrétti á framtíðarvinnumarkaði
Stórt verkefni Fræðagarðs í lengd og bráð er að vinna að því að tryggja stöðu launafólks á vinnumarkaði sem tekur örum breytingum. Mörg okkar hafa reynslu af hark-hagkerfinu (the gig economy) og þekkja vel hvernig réttindi á vinnumarkaði skerðast í þeim aðstæðum. Sjálf starfaði ég sem verktaki hjá RÚV við þáttargerð.
Mikilvægt er að við sem störfum innan verkalýðshreyfingarinnar tryggjum það að menntun sé metin til launa og að verðmætamat starfa endurspegli mikilvægt framlag þess til samfélagsins. Stéttarfélög geta og eiga að leggja áherslu á að koma í veg fyrir að vinnustaðir útvisti störfum og tryggja réttindi verkefnaráðins launafólks.
Öflug forysta Fræðagarðs í kjarabaráttunni
Fræðagarður er stærsta aðildarfélag BHM og hefur alla burði til að vera leiðandi málsvari fyrir bættum kjörum háskólamenntaðra sérfræðinga. Ég býð mig til forystu því að ég tel að Fræðagarður eigi að vera kröftugur málsvari fyrir bættum kjörum félagsfólks okkar í samfélagsumræðunni, í samstarfi við systurfélög okkar í BHM og annarra samtaka launafólks, gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum. Ég hef áratuga reynslu af réttindabaráttu sem framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands og ég er reiðubúin að leiða það starf.
Við eigum að mæta sterk og öflug við samningaborðið í komandi kjaraviðræðum og krefjast launakjara sem endurspegla menntun okkar, ábyrgð og reynslu. Við eigum að taka virkan þátt í undirbúningi aðgerða til að leiðrétta kerfisbundið launamisrétti. Við þurfum að vera öflugur málsvari út á við fyrir bættum kjörum og leiðréttingu á launamisrétti og við getum leitt þá baráttu. Eins og er, þá heyrist alls ekki nægilega vel í Fræðagarði þegar kemur að kjörum okkar félagsfólks.
Ég býð mig fram til forystu Fræðagarðs því ég brenn fyrir baráttu launafólks og jafnrétti á vinnumarkaði. Okkar bíða mörg tækifæri til að efla félagið enn frekar til að bæta kjör, vinnuumhverfi og réttindi félagsfólks.
Höfundur er bókmenntafræðingur og í framboði til formanns Fræðagarðs.