Fyrir örríki eins og Ísland er nauðsynlegt að byggja upp sterk alþjóðleg tengsl. Við eigum alla okkar velferð undir viðskiptum við þau lönd sem vilja kaupa þær vörur sem við framleiðum.
Ísland er hins vegar einstaklega lúnkið við að taka allskyns ákvarðanir, og senda út allskyns skilaboð, sem eru þess eðlis að eyðileggja fyrir slíkum samskiptum.
Í fyrra var gerðu til dæmis allir aðrir sem veiða makríl í Atlantshafi samkomulag um þær veiðar án aðkomu og vitundar Íslands. Fyrr á þessu ári birtist minnisblað frá John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna til Baracks Obama forseta landsins, sem er dagsett 23. janúar 2015, þar sem segir beinleiðis að bandarískir ráðamenn forðist samskipti við Ísland ef þeir geta komist hjá því. Ástæðan er andstaða þeirra við hvalveiðar Íslendinga, sem virðast fyrst og síðast vera leyfðar hérlendis til að svala þörf og vilja eins manns til að veiða risavaxinn sjávarspendýr.
Mest eigum við þó undir góðum samskiptum við Evrópu, enda fer 80 prósent af útfluttum vörum okkar til landa sem tilheyra Evrópska Efnahagssvæðinu (EES). Hringl Íslendinga með umsókn að Evrópusambandinu (ESB) hefur örugglega ekki hjálpað til við að bæta þau samskipti.
Sú ákvörðun utanríkisráðherra að senda bréf til ESB sem átti að marka endalok umsóknar Íslands, án þess að Alþingi eða þjóðin yrði spurð um álit á því, hefur dregið dilk á eftir sér. Talsmenn ESB hafa ítrekað látið hafa eftir sér misvísandi ummæli um gildi slíkra bréfasendinga og stjórnarandstaðan hefur sent ný bréf til Brussel til að segja að ríkisstjórnin hafi ekki umboð til að slíta viðræðum án aðkomu þings.
Nýjasti fasinn í þessum farsa er sá að Ísland er nú skráð sem umsóknarríki á heimasíðu ESB en hefur verið fjarlægt af lista yfir þau á heimasíðu framkvæmdastjórar ESB, æðsta framkvæmdavalds sambandsins. Það virðist ríkja fullkomin óvissa um hvernig beri að túlka bréfasendingar Íslendinga og enginn virðist ætla að stíga fram og taka af allan vafa.
Í bakherberginu eru flestir sammála um að ef Íslendingar geta ekki komið skýrum skilaboðum sem allir skilja á sama hátt til Evrópusambandsins, síns mikilvægasta viðskiptafélaga, um hvort Ísland vilji vera umsóknaraðili að sambandinu eða ekki sé ástandið í íslenskri utanríkispólitík ekki beysið. Raunar sé það hlægilegt.