Helgi Þór Harðarson
,,Ísland hefur ekki verið stéttskipt á sama hátt og mörg önnur lönd og það er einn af mörgum góðum kostum þess að byggja þetta land..." sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson árið 2013 í hjartnæmri þjóðhátíðarræðu á Austurvelli. Í ljósi þessa hlýtur að kvikna spurningin: Hver er þá í þessari ,,millistétt" sem verið er að bjarga með stóru skuldaniðurfellingunni?
Í orðræðu núverandi forsætisráðherra birtast ósjaldan lítt skilgreind hugtök eins og ,,heimilin" gerðu fyrir kosningar og ,,millistétt" nú. Þetta eru hugtök sem allir virðast geta tengt við sjálfa sig. Fáir líta á sjálfa sig sem lágstéttarfólk og 99 prósent Íslendinga búa á heimili. Þannig virðast sumir hafa skilið kosningaloforð Sigmundar sem svo að Framsóknarflokkur ætlaði að berjast fyrir réttlæti öllum Íslendingum til handa og af barnslegri auðtrú talið að það væri raunin.
"Eitt þarf allavega ekki að deila um; þeir sem festu kaup á dýrustu fasteignunum fá mestan pening úr ,,skuldaleiðréttingum" Ríkisstjórnarinnar."
Í ljós kom að sjálfsögðu annað og við því vöruðu margir fyrir kosningar. Bent var á að forrystumenn stjórnarflokkana væru báðir afar auðugir menn og e.t.v. ekki líklegir til að sýna skilning á greiðsluvanda almúgans. En draumur fólks um að losna undan skuldaböggum sínum varð varnaðarorðum yfirsterkari og Sigmundur og ,,heimilin" hans unnu glæstan kosningasigur og ,,millistéttinni" átti eftir að vera ríkulega launað fyrir traustið.
Dularfull millistétt
En hverjir eru í þessari dularfullu ,,millistétt"? Það má finna sterkar vísbendingar um hvernig skilgreina má stéttir íslensks samfélags með því að rýna í stefnu ríkjandi stjórnvalda og hvernig skipan Nýja Íslands hefur verið mótuð. Skuldaleiðréttingin gefur okkur mjög afgerandi mynd af því hvernig verið er að búa til, aðgreina og auka aðstöðumun milli þegna þessa lands þar sem einum hóp eru gefnir gríðarlegir fjármunir úr stórskuldugum ríkissjóð. Semsé eigendum fasteigna.
Eitt þarf allavega ekki að deila um; þeir sem festu kaup á dýrustu fasteignunum fá mestan pening úr ,,skuldaleiðréttingum" Ríkisstjórnarinnar. En féið kemur ekki frá bönkum eða vogunarsjóðum eins og rætt var um fyrir kosningar, heldur úr sameiginlegum sjóðum allra landsmanna. Þeir 80 milljarðar sem fasteignaeigendur eiga nú að fá gefins jafngilda um 230.000 krónum á hvert mannsbarn á Íslandi! Það er átjánföld sú upphæð sem notuð er í almennar húsaleigubætur í ár (til þess að fá húsaleigubætur þurfa hjón að vera með minna en 158.000 krónur á mánuði á mann!).
"Með aðgerðunum hafa 80 milljarðar verið teknir úr sameiginlegum sjóðum skattgreiðenda og gefnir ákveðnum hópi (stétt) samfélagsins, án þess að sýnt þyki að sá hópur sé neitt sérstaklega illa staddur."
Þrátt fyrir að höfuðstóll fasteignalána hafi vissulega hækkað standa þó líklega verst þeir sem tóku lán til að fjárfesta í öðru en fasteignum fyrir hrun. En eingöngu á að vernda þá sem keyptu fasteignir gegn forsendubrestinum marg umtalaða en ekki þá sem fjárfestu í menntun til dæmis eða bara einhverju allt öðru. Er forsendubrestur lántöku þessa fólks einhverju minni en þeirra sem keyptu sér fasteignir?
Í grunninn er þetta stéttskipt mismunun og lausn sem best kemur út fyrir þá sem eiga, en skulda jafnframt mest. Semsagt tekjuhæstu hóparnir. ,,Millistétt" ekki síður en stéttin þar fyrir ofan sem fær mest fyrir sinn snúð.
Þetta þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart þegar tveir hægri flokkar leggjast í eins róttækt inngrip og skuldaniðurfellingar Ríkisstjórnarinnar eru og enn síður þegar framkvæmdinni er stjórnað af Tryggva Þór Herbertssyni. Eftirfarandi er til dæmis haft eftir honum og enn kemur skýrar í ljós hverjir eru í þessari marg umræddu ,,millistétt":
„Það fólk sem situr á þingi er margt hvert vel menntað og hefur gegnt stöðum sem hafa borgað vel og lifistandardinn á því er í samræmi við það – svona eins og efri millistétt og eitthvað þvíumlíkt. Ég veit að margir kollegar mínir og þar á meðal ég – að ég hef borgað með mér síðan ég hóf störf á alþingi.“ Taka skal fram að byrjunarlaun þingmanna voru 520 þúsund á mánuði þegar ummælin falla. Flestir þó á nokkuð hærra kaupi en það.
Áttatíu milljarðar úr ríkissjóði til útvaldra
Með aðgerðunum hafa 80 milljarðar verið teknir úr sameiginlegum sjóðum skattgreiðenda og gefnir ákveðnum hópi (stétt) samfélagsins, án þess að sýnt þyki að sá hópur sé neitt sérstaklega illa staddur. En gleymum heldur ekki að þessi hópur er bæði persónulegt og pólitískt bakland langflestra þingmannana sem samþykkja þessar aðgerðir. Þessu lýsa ummæli Tryggva hér að ofan alveg fullkomlega. Hvað ætli leigjendur séu mikill hluti þingmanna til dæmis?
Þegar öllu er á botnin hvolft eru ,,heimilin" (sem talað var um fyrir kosningar að ætti að bjarga) í raun bara þeir sem eiga húsnæði og nú er komið í ljós að svokölluð ,,millistétt" er í raun líka bara þeir sem eiga húsnæði og virðast ná endum þokkalega saman.
"Fólk sem ekki á húsnæði þarf raunar að átta sig á (og sætta sig við) að það er komið í ,,lágstétt" og þar er ætlunin að halda því."
Af þessu hlýt ég því að draga þá ályktun að ég og þar með um 30% landsmanna sé af ,,lágstétt", heimili mitt sé í raun ekki ,,heimili" í skilgreiningu Sigmundar Davíðs því vissulega á ég ekkert í steinsteypunni utan um það og því ekki eitt þeirra heimila sem fær sinn forsendubrest leiðréttan.
Fólk sem ekki á húsnæði þarf raunar að átta sig á (og sætta sig við) að það er komið í ,,lágstétt" og þar er ætlunin að halda því. Allt er gert til að halda fasteignaverði háu og er þessi aðgerð vitanlega hluti af því. Á meðan fasteignaverð er að hækka græða jú allir í ,,millistétt" og uppúr!
Stétt sem skortir málsvara
Þessari nýuppgötvuðu ,,stétt" minni skortir líka tilfinnanlega sterka málsvara í íslenskri pólitík. Um 30% þjóðarinnar eru í leiguhúsnæði og þannig hluti af þessari nýju og afskiptu ,,lágstétt" og ég sakna þess að sjá pólitískt afl gera þennan hóp að sínum skjólstæðingum með afgerandi hætti, líkt og aðrir hafa gert við ,,millistéttina" og útgerðarmennina.
Vinstri flokkum á Íslandi hefur því miður ekki tekist að gæta hagsmuna þessa hóps eins og skyldi og ég held að síðustu kosningar hafi endurspeglað það að vissu leyti. Ég hefði haldið að fjöldi leigjenda ætti að vera nægur til að þar væri freistandi að seilast eftir atkvæðum. En ég man varla eftir að minnst hafi verið á leigumarkaðinn fyrir síðustu kosningar en kann þó að skjátlast.
Að sama skapi voru það skipulagsmál sem algerlega heltóku umræðuna fyrir nýliðnar borgarstjórnarkosningar og hugmyndir að úrræðum til handa leigjendum í borginni algerlega týndar í þrasi um stórframkvæmdir og einhvern flugvöll sem fæstir þurfa eða hafa efni á að nota hvort eð er.
En á meðan ríkari hluti þjóðarinnar fær umslag inn um lúguna þess efnis að skuldir þeirra lækki um milljónir, má sá fátækari láta sér nægja mánaðarleg umslög frá lögfræðingum innheimtufyrirtækjanna sem lifa góðu lífi á að krefja öreiga um allt að 600% af upphaflegum skuldum fjölskyldna í vanskilum. Ég vona allavega að leigjendur þessa lands geri sér grein fyrir hverslags kerfi er hér í mótun fyrir komandi kynslóðir og venji sig jafnframt við tilhugsunina um að vera í ,,lágstétt" því í stéttskiptu samfélagi er ekki auðvelt að skipta um stétt.
Höfundur er leigjandi og sölumaður.