Nýleg skýrsla starfshóps um stöðu og horfur í orkumálum svarar því miður ekki ákalli um hlutlæga greiningu og mat á stöðu og áskorunum í orkumálum Íslendinga. Vonir voru bundnar við að skýrsluhöfundar létu gera sjálfstæðar greiningar um forsendur og ólíkar leiðir til að framkvæma orkuskiptin, sem allt samfélagið kallar nú eftir. Þess í stað er skýrslan að verulegu leyti kokkuð upp úr málflutningi orkufyrirtækjanna og samtaka þeirra, sem undanfarin misseri hafa boðað orkuskort nema raforkuframleiðsla verði aukin til muna. Velsæld Íslendinga er sögð vera í húfi ef við fáum ekki meira rafmagn. Skýrslan er einhliða og úrelt fortíðarsýn á möguleika Íslands.
Forsendur úr smiðju orkugeirans
Markmið og tilgangur skýrslu starfshópsins var að draga fram staðreyndir og koma þeim á framfæri til upplýsinga fyrir stjórnvöld, hagaðila og almenning. Brýn þörf er fyrir efni sem stuðlar að upplýstri umræðu og ákvarðanatöku – en því miður tókst það ekki í þessari atrennu. Vissulega koma fram gagnlegar upplýsingar í skýrslunni. En trúverðugleika þeirra og ályktanir sem dregnar eru má draga í efa þar sem upplýsingarnar voru hvorki sannreyndar né vægi og raunhæfni þeirra metin. Þá láðist að setja orkuöflun í almennt hagrænt og samfélagslegt samhengi.
Allt það sem vantar í skýrsluna
Megin niðurstöður skýrslunnar eru gildishlaðnar. Skýrsluhöfundar líta frekari hagvöxt og ágenga auðlindanýtingu sem nauðsynlega forsendu fyrir velsæld. Grænu tækifærin í hagkerfinu eru sögð byggjast á frekari orkuöflun. Starfshópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að ef Ísland vill vera virkur þátttakandi í grænu byltingunni þurfi að auka raforkuframleiðslu sem nemur 90 til 140 MW á ári á næstu tveimur áratugum. Þetta samsvara um 5% af uppsettu af afli í dag í árlega aukningu. Að öðrum kosti, segir í skýrslunni, þurfi að slá af og horfa inn á við. Að sjálfsögðu er þetta ekki rétt. Algjörlega virðist litið fram hjá tækifærum sem felast í að efla þekkingarsamfélagið sem nýtir hugvit til lausnar á margvíslegum viðfangsefnum með verðmætasköpun að leiðarljósi. Hvergi er minnst á að nýta óspillta náttúru og víðerni bæði til atvinnustarfsemi og upplifunar.
Má bjóða þjóðinni virkjanamannvirki um allar trissur?
Sú niðurstaða skýrslunnar að liðlega tvöfalda þurfi raforkuframleiðslu í landinu á næstu 18 árum til að uppfylla þarfir samfélagsins, vekur miklar áhyggjur. Ef sú sviðmynd gengi eftir yrði rafmagnsframleiðsla á mann u.þ.b. fjórfalt meiri á Íslandi en í Noregi. Reisa þyrfti fjölmörg virkjanamannvirki sem hefðu aflgetu sem nemur um fjórum Kárahnjúkvirkjunum. Slík þróun mun óhjákvæmilega hafa afar neikvæð áhrif á náttúru og víðerni. Hvernig á að afla vinnuafls til slíkra stórframkvæmda kemur ekki fram, hvað þá til annarra innviða og þjónustu sem koma þarf á til að raungera þessi stórkallalegu áform.
Nei – orkuöryggi er ekki í húfi
Í skýrslunni er fullyrt að orkuöryggi kalli á aukna raforkuframleiðslu. Í dag fara um 18% af framleiddri raforku til almennra nota, um 5% er sóað og um 78% fara til stóriðju og annarra stórnotenda. Það er því augljóslega mikið svigrúm til að bæta orkuöryggi til almennra nota án frekari virkjana. Ekki má heldur gleyma þeirri orkusóun sem felst í að framleiða samfélagsskemmandi rafmynt. Þar er orka sem auðveldlega má nýta til að efla orkuöryggi eða annarra gagnlegri nota.
Forgangsröðum í þágu þjóðar og náttúrunnar
Í skýrslunni er fullyrt að aukið framboð raforku sé forsenda orkuskipta. Við búum í samfélagi sem sameiginlega á Landsvirkjun, fyrirtækið sem aflar lang stærsta hluta raforkunnar. Í stjórn þess fyrirtækis situr fólkið sem á að gæta hagsmuna eigenda fyrirtækisins, okkar landsmanna. Má ekki gera þá kröfu til Landsvirkjunar okkar allra að hún setji orkuskipti á Íslandi í forgang? Orkuskiptin eru mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar og eðlilegt að fyrirtæki í eigu landsmanna setji orkuskipti í algjöran forgang.
Auðvitað eru ljósir punktar í skýrslunni. Kallað er eftir samræmingu á atvinnustefnu, loftslagsstefnu og orkustefnu. Lýst er eftir betri nýtingu á verðmætum sem glatast í dag, svokallaðs glatvarma og varmaorku sem losnar í varmaorkuverum. Jafnframt er Alþingi er hvatt til að ljúka við gerð rammaáætlunar 3. En þessi mikilvægu atriði falla í skugga stórkallalegra sviðsmynda um liðlega tvöföldun orkuöflunar.
Hvað kosta náttúruspjöllin í raun?
Í skýrslunni er umfjöllun um stærsta og vandasamasta álitamál sem tengist frekari orkuvinnslu á Íslandi takmörkuð; eyðileggingu Íslenskar náttúru og víðerna. Ekki er heldur gerð tilraun til að leggja fjárhagslegt mat á þau verðmæti sem þannig myndu tapast. Náttúra landsins og víðerni eru undirstaða stærstu útflutningsgreinar okkar, en eru einnig gríðarlega verðmæt til útivistar, bættrar lýðheilsu og aukinna lífsgæða. Náttúra Íslands er verðmæt í sjálfri sér og vönduð náttúruvernd er einnig loftslagsaðgerð þar sem hún stuðlar að bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi.
Engin sátt þar sem orkugeirinn einn leiðir för
Skýrslan tilgreinir að sátt verði að ríkja um orkuver. Það getur aldrei orðið ef ekki er hægt að treysta vinnubrögðunum og orkugeirinn fær að stjórna umræðunni, ákvarðanatöku og lagasetningu. Skýrslan er skýrt dæmi um ofurítök orkugeirans í þessu mikilvæga hagsmunamáli þjóðarinnar. Hið sama gildir um nýlegar breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum og tafir á afgreiðslu rammaáætlunar.
Í skýrslunni er því haldið fram að leyfisveitingar fyrir orkumannvirki taki of langan tíma. Ástæðan er auðvitað sú að það tekur tíma að vanda til verka, t.d. framkvæma nauðsynlegar rannsóknir. Í skýrslunni er aftur á móti ekki fjallað um þann vanda sem felst í því að stjórnvöld taka ekki mark á niðurstöðu faglegs mats á áhrifum einstakra framkvæmda á náttúru og umhverfi. Því miður virðast fjárhagslegir hagsmunir orkugeirans að mestu ráða för við ákvarðanatöku á Íslandi.
Botnlaus eftirspurn kallar á forgangsröðun
Það verður alltaf mikil eftirspurn eftir ódýrri orku – eftirspurn sem ómögulegt er að mæta. Loftslagsvandinn er fyrst og fremst orkukrísa því í dag notar heimsbyggðin miklu meiri orku en hægt er að framleiða á sjálfbæran hátt.
Við þurfum því að gera þær kröfur á íslenskt atvinnulíf að það dragi úr orkunotkun og setji fram skýra stefnu um forgangsröðun orkunnar til almennings og til orkuskiptanna. Markmiðið má alls ekki vera að belgja út orkugeirann, heldur fyrst og fremst að vinna að lausn loftslagsvandans með orkuskiptum hér á landi.
Það er ekki bara ein leið að markmiðinu
Landvernd mun á næstu vikum beita sér fyrir úttekt til að draga upp aðra raunhæfa mynd en þá meginsýn sem birtist í skýrslunni. Af hverju? Jú – þjóðinni stendur annað og betra til boða en að auka raforkuframleiðslu um allt að 124% með öllum þeim spjöllum á íslenskri náttúru sem óhjákvæmilega fylgja. Í úttektinni verður kynntur valkostur þar sem loftslagsvernd, orkuskipti og náttúrvernd haldast í hendur. Þar verður endalaus vöxtur ekki megin markmið heldur viðleitnin til að tryggja sjálfbæra þróun og velsæld til lengri tíma litið. Þar verður verndun íslenskrar náttúru að leiðarljósi, fyrir okkur sjálf og fyrir komandi kynslóðir Íslendinga.
Eyðilegging náttúru landsins til orkuöflunar er ekki eini möguleikinn í boði. Sem betur fer höfum við val.
Höfundur er formaður Landverndar.