Síðast liðinn vetur var sýnd í sjónvarpinu þáttaserían Verbúðin sem naut gríðarlegra vinsælda. Þættirnir fjölluðu um lífið í sjávarplássi á níunda áratug síðustu aldar og hvaða breytingar kvótakerfið hafði á lífið í sjávarplássi. Í þáttunum var sýnd með ágætum hætti tilurð kvótakerfisins í sjávarútvegi og það sem síðar kom, framsal kvótaheimilda milli útgerða. Þættirnir sýndu vel hvernig sveitarfélög fóru illa út úr kvótaviðskiptum, þ.e. þegar kvótinn var seldur úr byggðarlaginu.
Talið er að verðmæti úthlutaðra aflaheimilda sé um 1.200 milljarðar. Útgerðarfyrirtæki greiða mjög lágar fjárhæðir fyrir afnot að auðlindum hafsins eða tæpa fimm milljarða árið 2020 (0,4% af verðmæti aflaheimilda), sem er svo lítið að afnotagjaldið dugar ekki fyrir rekstri Fiskistofu, Hafrannsóknarstofu og Landhelgisgæslu svo dæmi séu nefnd. Fyrrverandi ríkisskattstjóri telur eðlilegt að útgerðafyrirtæki greiði á bilinu 40-60 milljarða á ári í gjald fyrir afnot af auðlindinni eða á bilinu 3,3% til 5% af verðmæti aflaheimilda. Á undanförnum árum hafa útgerðarfyrirtækin grætt gríðarlegar fjárhæðir og greitt eigendum sínum gríðarlegar fjárhæðir í arð.
Í ljósi ofangreindra staðreynda hvet ég þingflokka Flokks fólksins, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar að leggja fram frumvarp um breytingu á stjórnarskrá sem setji inn sett auðlindaákvæði stjórnarskrá sem er tillaga stjórnlagaráðs um náttúruauðlindir (34. gr.):
Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námuréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.
Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.
Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“
Þessi breyting væri í fullu samræmi við þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fram fór í október 2012, þar sem um 83% svöruðu eftirfarandi spurningu játandi: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“
Verði frumvarpið samþykkt þarf að rjúfa þing og boða til alþingiskosninga, þar sem nýtt þing þarf til að kjósa um nýjar breytingar á stjórnarskránni. Það er mín skoðun að við verðum að leyfa almenningi að kjósa um auðlindaákvæði stjórnarskrá. Í því felst lýðræði.
Höfundur er heilsuhagfræðingur.