„Eftir kosningar tekur við framsóknarstjórn eða verðtryggingarstjórn“. Þetta var boðskapur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til þjóðarinnar þann 22. apríl 2013. Það er einfalt að afnema verðtryggingu sagði Framsóknarflokkurinn fyrir síðustu kosningar, þó lítið hafi verið um efndir eftir kosningar. Á stjórnarárum Sigmundar Davíðs hefur verðtryggingin fest sig enn frekar í sessi, ekkert hefur verið gert til að draga úr mikilvægi hennar fyrir heimili landsins. Beiðni mín um sérstaka umræðu um verðtryggingu við forsætisráðherra hefur legið inni í þinginu frá því í febrúar en forsætisráðherra virðist ekki vilja ræða þetta stóra hugðarefni sitt!
Íslenska leiðin
Ríkisstjórnin vill ekki í ESB enda sé „íslenska leiðin“ best allra. Helstu einkenni íslensku leiðarinnar eru sveiflur í gengi, verðbólguskot og deilur á vinnumarkaði í kjölfarið. Efnahagslægðum fylgja því lægri laun, verðbólga, hærri vextir og hækkandi verðtryggð lán. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson heldur eflaust að þetta heyri nú sögunni til, enda taki nú við tími varanlegs stöðugleika og hagvaxtar. Efnahagsmálin bera þvert á móti öll merki þenslu sem ríkisstjórnin muni ekki ráða við.
Fólk tekur verðtryggð lán í dag, enda verðbólga lág og greiðslubyrðin þægilegri en á óverðtryggðum lánum. Þó að fólk taki verðtryggð lán, má efast um að það sé í raun viljugt til að taka afleiðingunum af sveiflukenndu hagkerfi. Ungt fólk í dag horfir á foreldra sína, marga ágætlega stæða, fá leiðréttingu lána sinna. Óraunhæft er að ætla að þetta sama unga fólk geri ekki kröfu um leiðréttingu þegar næsta gengislækkun hækkar lánin þeirra.
Rað-leiðrétting
Hugsum okkur nýja ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, sem hann nýverið myndaði með Sjálfstæðisflokki þversum og Flokki kurteisra. Bjarni er að vonum glaður með hina nýju ríkisstjórn, þó skuggi gegnisfalls og verðbólguskots hvíli yfir henni. Bjarni hvetur þjóðina til að horfa fram á veginn og leysa úr vandamálunum. Það sé íslenska leiðin, leið sjálfstæðisstefnunnar. Ekki eru allir sammála þeirri nálgun. Flokkur Sannra Íslendinga mótmælir harðlega og telur vitlaust gefið. Almenningur, salt jarðar, hafi trúað leiðtogum sínum og tekið verðtryggð lán í góðri trú. Nú hafi því orðið forsendubrestur og leiðrétting nauðsynleg.
Er líklegt að Bjarni Benediktsson bíði fram að næstu kosningum og nýjum loforðum um leiðréttingu? Sér hann ekki fyrir sér kosningabaráttu þar sem formaður Sannra Íslendinga lofar öllu fögru með sinni dimmu röddu? Og eru ekki fyrirmyndin og fordæmin borðleggjandi? Er ekki líklegast að leiðréttingin verður að rað-leiðréttingu? „Eftiráleiðrétting“ verðbólgu gæti orðið varanlegur hluti „íslensku leiðarinnar“ í efnahagsmálum.
Kerfisvandi
Verðtryggingin er hluti af kerfisvanda íslensks hagkerfis. Gengissveiflur og verðbólga leiddu til víðtækrar verðtryggingar lífeyrissjóða, innlána í bönkum og fasteignalána. Verðtrygging þekkist ekki í nágrannalöndum okkar með sama hætti, enda stöðugleiki meiri.
Ef marka má verk ríkisstjórnarinnar hingað til og málefnaskrá þingsins næsta vetur má ljóst vera að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs er verðtryggingarríkisstjórn. Framsóknarflokkurinn lofaði meiru en hann þorir að standa við, enda alls ekki einfalt að afnema verðtryggingu og viðhalda íslensku leiðinni í efnahagsmálum. Við búum við tvöfalt kerfi: útflutningsatvinnuvegir á borð við sjávarútveg una glaðir við krónuna á meðan almenningi er boðið upp á verðtryggða krónu. Fyrir Hrun reyndu margir að losa sig úr þessari klemmu með lánum í erlendum gjaldmiðlum. Þeir sem hafa tekjur í erlendum gjaldmiðlum, vilja auðvitað taka lán í erlendum gjaldmiðlum líka. Þegar létt verður á fjármagshöftum má búast við að almennt launafólk, t.d. í ferðaþjónustu og sjávarútvegi, fari fram á það sama.
Hið tvöfalda kerfi krónu og verðtryggðar krónu er bæði ranglátt og ósjálfbært til lengdar. Vilji Framsóknarmenn viðhalda „íslensku leiðinni“ í efnhagsmálum verður að gera það án verðtryggingar, svo mikið er víst.
Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar.