Allt lítur út fyrir að íslensk stjórnvöld ætli að ráðast í skref í átt að losun fjármagnshafta, og er því eðlilega fagnað víðast hvar. Sú staða að vera með samfélag rígneglt í ströngum höftum í á sjöunda ár er enda óþolandi.
Samhliða gerð áætlunar um þau skref sem eiga að stuðla að losun hafta eru íslensk stjórnvöld farin að huga að afleiðingum þeirra. Það sést til að mynda vel í riti um stefnu í lánamálum ríkisins fyrir árin 2015-2018 sem gerð var opinber í byrjun þessa mánaðar. Þar er meðal annars fjallað um verðbólguáhættu, sú áhætta að verðbólga hækki verðtryggðar skuldir ríkissjóðs ef hún eykst, en um síðustu áramót voru einungis um 18 prósent af skuldum ríkissjóðs verðtryggðar.
Í ritinu segir að vægi verðtryggðra skulda í heildarlánasafni sé „markvisst haft lítið því hætta er á aukinni verðbólgu ef krónan veikist við afnám gjaldeyrishafta. Mikilvægt er þó að hafa í huga að ríkissjóður á margar verðtryggðar eignir, svo sem lán sem veitt eru Lánasjóði íslenskra námsmanna, sem dregur nokkuð úr verðbólguáhættu.“
Ríkið er semsagt markvisst að halda verðtryggðum skuldum í lágmarki vegna hættu á veikingu krónunnar við afnám hafta, en á þó líka ýmsar verðtryggðar eignir sem vinna gegn þeirri áhættu. Verðbætur vegna verðbólgu þeirra eigna lenda á öðrum, til að mynda greiðendum lána hjá Lánasjóði íslenskra lánsmanna, öðru nafni almenningi.
Í bakherbergjunum hafa menn verið hugsi yfir þessari strategíu ríkisins, þótt hún sé vissulega vitræn. Íslenskur almenningur er nefnilega með um 1.500 milljarða króna í verðtryggðum skuldum á bakinu. Þær munu hækka ef verðbólga eykst við losun hafta.
En það er auðvitað komið fordæmi fyrir því að greiða skaðabætur fyrir verðbólguskot með Leiðréttingunni. Er stefna ríkisstjórnarinnar mögulega sú að ráðast í annan umgang hennar þegar höft hafa verið losuð?