Ungir sjálfstæðismenn komu með sterkt útspil í dag, þegar þeir sendu frá sér lista yfir um 80 breytingartillögur á ályktunardrögum sem málefndanefndir flokksins höfðu útbúið í aðdraganda landsfundar sem fram fer um helgina. Í tilkynningu frá þeim sagði að fjöldinn endurspeglaði umfang „þeirra breytinga sem ungir sjálfstæðismenn telja nauðsynlegar til þess að Sjálfstæðisflokkurinn verði aftur að raunhæfum valkosti fyrir ungt fólk“.
Það er ekki að ástæðulausu sem ungu Sjálfstæðismennirnir óttast að flokkurinn sinn sé að gera sig ókjósanlegan hjá ungu fólki. Í könnun sem MMR gerði í lok maí kom í ljósi að einungis 12,5 prósent fólks á aldrinum 18 til 29 ára studdi flokkinn. Þorri fylgis Sjálfstæðisflokksins, sem er reyndar í sögulegum lægðum (21,4 prósent heildarfylgi samkvæmt nýjustu skoðanakönnun) kemur frá fólki yfir fimmtugu.
Tillögur ungliðanna eru töluvert á skjön við þau ályktunardrög sem lögð höfðu verið fram, og eru nokkuð íhaldssöm. Þar er meðal annars lagt til að sýslumenn taki alfarið yfir hjónavígslur, að Ríkisútvarpið verði lagt niður, að kosningaaldur verði lækkaður og lögð sérstök áhersla á málefni trans- og intersexfólks. Í tillögunum er lika skörp gagnrýni á athafnir nokkurra ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Ungliðarnir leggjast meðal annars gegn nýrri Stjórnstöð ferðamála, sem Ragnheiður Elín Árnadóttir ber ábyrgð á, og vilja að hætt verði við þau áform að framhaldsskólanám verði aðeins í boði fyrir þá sem eru yngri en 25 ára, sem Illugi Gunnarsson innleiddi.
Róttækasta tillagan er hins vegar sú að ungir Sjálfstæðismenn telja að framtíðarlausn í gjaldmiðlamálum felist í öðrum gjaldmiðli en krónunni. Því hefur ræða Bjarna Benediktsson, formanns Sjálfstæðisflokksins, við upphaf landsfundar nær örugglega valdið ungliðunum vonbrigðum. Þar talaði Bjarni, sem eitt sinn vildi taka upp evru, gegn því að Ísland kasti gjaldmiðli sínum.
Fátt í ræðunni benti raunar til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé að mæta áhyggjum ungliða sinna á nokkurn hátt. Þess í stað virðist forysta flokksins ætla að sækja fordæmi úr ranni Framsóknarflokksins til að reyna að hífa upp fylgið í aðdraganda næstu kosninga: að gefa kjósendum peninga.
Bjarni tilkynnti nefnilega að hann væri áfram um að gefa þjóðinni fimm prósent hlut í Íslandsbanka, sem brátt verður í eigu ríkissjóðs. Það svínvirkaði enda hjá Framsóknarflokknum að lofa peningagjöfum í aðdraganda síðustu kosninga, þar sem flokkurinn vann stórsigur.