Fjörur og grunnsævi við Ísland hafa mikið náttúruverndargildi en ekki síður útivistargildi vegna auðugs lífríkis. Þörungar eru ríkjandi gróður í fjörum, en háplöntur finnast þar líka og við efstu flóðmörk er t.d. sjávarfitjungur áberandi og neðar úti á leirunni vex marhálmur. Ýmsir hryggleysingjar, líkt og burstaormar, krabbadýr, kuðungar og skeldýr, eru einkennisdýr fjörunnar. Margar tegundir fugla nýta sér þessa matarkistu, hún er lífsnauðsynlegur viðkomustaður margra þeirra á langferðum vor og haust og nokkrar tegundir hafa þar vetursetu.
Fjörur í Reykjavík – grátlega lítið er eftir óraskað!
Á síðustu áratugum hefur nær öllum fjörum við norðurströnd Reykjavíkur innan Elliðaáa verið spillt með uppfyllingum. Aðeins er eftir um 0,9 km langur bútur í Laugarnesi. Þessar fjörur spönnuðu varlega áætlað um það bil 12 km og því eru núna aðeins um 8% eftir óraskað! Hér er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að slík eyðilegging gerist ekki í einu skrefi, heldur í mörgum litlum skrefum, hvert og eitt skref vegur lítið en uppsafnað er eyðileggingin algjör.
Annað gildir um ströndina að sunnanverðu. Í Skerjafirði spannaði fjaran um 5,6 km innan marka Reykjavíkur, frá Fossvogsbotni í Sörlaskjól. Stærsti hluti þessarar fjöru eða 86% er enn nær óraskaður. Sjóvarnargarðar eru þó víða við efstu flóðmörk en sjálf fjaran hefur sloppið. Einu uppfyllingarnar eru við suðurenda flugvallarins og baðstaðinn í Nauthólsvík og þar hafa um 0,8 km af fjöru horfið undir.
Skerjafjörðurinn er alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði
Skerjafjörður, grunnsævi og fjörur, er flokkaður sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði og því ræður m.a. fjöldi þeirra grágæsa, margæsa, æðarfugla, sílamáfa og sendlinga sem þar búa eða fara um vor og haust.
Sem dæmi um mikilvægi þessa svæðis þá koma þar við á fartíma meir en 1% af heimsstofni margæsa af undirtegundinni Branta bernicla hrota. Nánar má fræðast um verndargildi Skerjafjarðar hér.
Útivist og náttúruupplifun
Aðgengi að fjörum Reykjavíkur í Skerjafirði er auðvelt, göngu- og hjólastígur liggur rétt ofan fjörumarka. Hér hefur borgin staðið vel að verki og það ber að lofa. Þetta er sannanlega vinsælt útivistarsvæði og hundruð eða þúsundir borgara fara um stíginn í viku hverri og njóta. Þessi leið rétt ofan fjörunnar er einn af gluggum íbúanna að ríki móður náttúru og árstíðabundnum sveiflum hennar. Hljómþýður söngur hávellunnar úti á firðinum einkennir veturinn, vorið er í nánd þegar fyrstu tjaldapörin byrja að kalla og ólmast í náttmyrkrinu, og það er sumar þegar kollurnar úr æðarvarpinu á Álftanesi eru mættar með ungahópana.
Í september þegar heiðlóurnar koma, nú hvítar á kviðinn og horfnar svörtu sokkabuxurnar sem prýddu þær um vorið, þá vitum við að haustið með sínum hreggvindum er á næsta leyti. Hverfulleiki lífsins getur jafnvel birst okkur í mynd snaggaralegs fálka sem slær niður hettumáf yfir leirunni eða sílamáfs sem hrifsar til sín æðarunga af grunninu. Það eru þessi hrif, þessi margradda kór sem við meðvitað eða ómeðvitað skynjum af stígnum, sem er svo mikilvægur fyrir okkur og gerir hversdaginn bærilegri.
Óveður í aðsigi!
Fyrirfram myndi maður búast við að ábyrg stjórnvöld tryggðu að náttúrugæðum, líkt og hér hefur verið lýst fyrir Skerjafjörð, væri ekki raskað við framkvæmdir. Því miður virðist sú ekki vera raunin. Hugmyndir eru um íbúðabyggð á óbyggðu svæði á milli flugbrautar og núverandi byggðar í Skerjafirði þar sem heita Grófir. Greinarhöfundar fetta í sjálfu sér ekki fingur út í þær hugmyndir sem slíkar, heldur útfærsluna. Undir formerkjum þess sem kallað er „hagkvæmni stærðarinnar“ þá nægir ekki það land sem býðst ofan flóðmarka heldur skal haldið út á grunnið með byggðina. Það á að fylla upp í alla víkina neðan Grófa! Samtals eru þetta um 0,75 km af fjöru sem eiga að fara undir fyllinguna eða um 13% af heildarlengd fjörunnar frá Fossvogsbotni í Sörlaskjól. Þetta, að viðbættu því sem þegar hefur verið spillt með uppfyllingum í tengslum við flugvöllinn og baðstaðinn í Nauthólsvík á sínum tíma, nemur samtals 28% af upphaflegu fjörunni. Munum að eyðilegging fjörunnar við norðurströnd Reykjavíkur gerðist í mörgum litlum skrefum.
Grófavíkin – hvað er svona merkilegt við hana?
Víkin neðan við Grófirnar, víkin sem á fylla upp, er rík af fuglum og sérstök í samanburði við aðrar fjörur Reykjavíkurmegin í Skerjafirði. Á leirurnar í víkinni sækja fuglar árið um kring. Þetta er eini staðurinn í Reykjavík þar sem margæsir sjást að staðaldri um fartímann, eini staðurinn þar sem heiðlóur hópa sig á haustin og víkin er líka helsta athvarf þeirra tjalda, tildra, stelka og sendlinga sem hafa vetursetu á þessu svæði og þannig má lengi telja. Göngustígurinn vinsæli liggur rétt við víkina, ekkert hindrar sýn til fjörunnar og óvíða annars staðar á þessari leið allri með sjónum er jafngott færi á að gaumgæfa athafnir okkar fiðruðu vina. Þannig hefur víkin neðan við Grófirnar mikla sérstöðu miðað við nálæg svæði.
Lífríkishönnun
Borgaryfirvöld gera sér grein fyrir því að gangi tillögur um uppfyllingar eftir verður dýrmæt fjara eyðilögð og því eru mótvægisaðgerðir boðaðar. Það ber að virða. Mótvægisaðgerðirnar snúast um að búa til ný fjörusvæði utan við fyllinguna! Fyrst er eyðilagt, svo skal endurreist. Með fullri virðingu verður að segjast eins og er að þessar hugmyndir um „lífríkishönnun“ eru hæpnar svo ekki sé meira sagt. Við vitum hvaða verðmæti við höfum og það sem boðið er í staðinn er tálsýn.
Horft til framtíðar
Tilefni þessarar greinar eru tillögur um að eyðileggja víkina neðan við Grófirnar. Borgaryfirvöld ætla að halda sínu striki þrátt fyrir eindregin andmæli umsagnaraðila líkt og Náttúrufræðistofnunar Íslands, Hafrannsóknarstofnunar, náttúruverndarfélaga og fjölda almennra borgara. Til framtíðar litið er dagljóst að aðrar „stórhuga“ hugmyndir um uppfyllingar munu koma fram. Við höfum dæmin. Fyrir liðlega 120 árum var rætt um að fara í hafnargerð við Skildinganes og í áratugi hafa hugmyndir um flugvöll á Lönguskerjum með tilheyrandi uppfyllingum verið ræddar. Þegar íþróttafélagið KR átti aldarafmæli 1999 vildi félagið æfingasvæði á uppfyllingum í Skerjafirði í afmælisgjöf frá borginni. Sem betur fer gekk ekkert af þessu eftir en hins vegar, líkt og að ofan greinir, hefur fjörum verið spillt við stækkun flugbrautar og við uppbyggingu í Nauthólsvík. Verði siglt áfram undir þessum formerkjum þá er einsýnt að Skerjafjarðarfjaran verður spildu fyrir spildu, brotin undir manngert svæði, uns bara lítið sýnishorn er eftir af því sem áður var náttúrulegt, líkt og gerst hefur við norðurströnd Reykjavíkur. Hér þarf að draga línu í sandinn, línu sem ekki verður farið yfir. Fjörur og grunnsævi Skerjafjarðar eru verðmæti sem mikilvægt er að verja! Kópavogur og Garðabær hafa fyrir löngu samþykkt formlega vernd síns hluta Skerjafjarðar. Reykjavík hefur ekki stigið það skref.
Krafa okkar er að fallið verði frá uppfyllingum í víkinni neðan Grófanna og að Reykjavík fylgi fordæmi nágrannasveitarfélaganna og staðfesti lögformlega friðlýsingu Skerjafjarðar. Við hvetjum Reykvíkinga, hvar í flokki sem þeir standa, til að taka undir þessar kröfur og láta í sér heyra – nú er lag!
Jóhann Óli Hilmarsson er fyrrum formaður Fuglaverndar og Dr. Ólafur K. Nielsen er formaður Fuglaverndar.