Þannig er fyrsta línan í öllum þremur versum pílagrímasálmsins sem við syngjum í kirkjunni.
Við erum fólk í förum.
Ef ferðin er erfið og löng,
við setjumst við læki og lindar
og leitum þín, Guð, í söng.
Ekki veit ég hvort þau sem dregin voru út úr húsi aðfaranótt fimmtudagsins leituðu Guðs í aðstæðum sínum en það gera þau mörg sem leitað hafa skjóls hér á landi. Mörg þeirra leita í samfélag alþjóðlega safnaðarins í Breiðholtskirkju þar sem þjóðkirkjan hefur tvo presta og nokkra sjálfboðaliða í þjónustu. Þar kemur saman hin biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja eins og í öðrum söfnuðum landsins.
Því miður er það svo að fólk er á flótta í heiminum. Samkvæmt tölum frá flóttamannastofnun SÞ er talið að um 103 milljónir manna hafi neyðst til að yfirgefa heimkynni sín. 5,3 milljónir séu á vergangi í landi sínu, 4,9 milljónir séu hælisleitendur, 32,5 milljónir flóttamenn og 5,3 milljónir sé fólk sem þarfnast alþjóðlegrar verndar. Á bak við þessar tölur eru einstaklingar á öllum aldri, börn og fullorðnir, fólk sem þráir frið, hamingju og allt það besta sem lífið hefur upp á að bjóða.
Hver er ábyrgð okkar gagnvart fólki sem hér leitar hælis? Hún er sú sama og gagnvart náunga okkar almennt. Ef fólk þarf hjálp og skjól eigum við að bregðast við þannig að viðkomandi haldi sinni reisn og geti haldið lífi sínu áfram sem sjálfstæður einstaklingur.
Það eru lög í landinu. Í grunninn eru þau byggð á kristnum gildum. Atburðir þeir sem áttu sér stað þegar hælisleitendur eru leiddir út um miðja nótt eru ekki byggðir þeirri miskunn og mildi sem ég vil hafa að leiðarljósi í mannlegum samskiptum. Þeir eru byggðir á lögum landsins. Lögin standa ekki í óumbreytanlegum texta. Þau eru sett á Alþingi Íslendinga sem getur breytt þeim. Megi þingheimi auðnast að breyta þeim þannig að fólk sé ekki flutt um nótt til annars lands þar sem þess bíður ekki betra líf og alls ekki líf sem tryggir skjól og veitir þann frið í sál og sinni.
Ég styð að vel sé tekið á móti flóttafólki og hælisleitendum en ég vil ekki að fólki sem hingað er komið sé vísað úr landi. Það á líka að koma vel fram við þau sem fyrir eru. Ef ætlunin með þessari brottvísun er að fæla aðra frá því að beiðast hér hælis þá er þetta ekki gott ráð til að draga úr þeim fjölda sem hingað leitar. Það hlýtur að vera hægt að gera betur. Það á að gera betur.
Höfundur er biskup Íslands.