Svo virðist sem ákveðin sjálfumgleði fylgi þeim sem búa á eyjum og fullvissa um að það sem á annan uppruna sé sannanlega heldur síðra og ekki af hinu góða. Þetta á við um okkur Íslendinga og ég merki þetta viðhorf hjá öðrum eyjaskeggjum sem ég hef heimsótt.
Slík sjálfumgleði einskorðast þó ekki við eyjar því greina má slíka hugsun innan hópa sem geta verið margvíslegir og misstórir. Allt upp í heilu samfélögin. Hugarfarið mætti nefna eyjahugsun og snýr að því að upphefja sjálfan sig, eigin menningu og bakgrunn og telja annað, sem í hugum manna getur verið bæði ókunnuglegt og óþekkt, ómerkilegra.
Það getur jafnvel verið álitið talsvert miklum mun óæðra og mögulega skaðlegt. Stundum getur sú mismunun gengið svo langt að upp rís krafa um útskúfun og útrýmingu þessa varasama, ógnandi ókunnuglega sem óttast er að skaði og skemmi. Það er hugsun sem vert er að linni þegar mannkynið allt stendur frammi fyrir mikilvægasta verkefni sögunnar, að tryggja áframhaldandi mannsæmandi líf á jörð.
Hinn hreini kynstofn
Löngum var því trúað að Íslendingar væru af sérstökum og hreinræktuðum kynstofni. Margir telja enn að svo sé og að þennan óvenjulega kynstofn, menningu hans, hefðir og tungumál beri að vernda frá illum ytri áhrifum.
Sú hugmyndafræði kjarnast í þeirri staðhæfingu að hinir hæfustu lifi af og því jafnvægi ætti ríkisvaldið ekki að raska með aðstoð við þá sem minna mættu sín. Jafnframt var hvíti kynstofninn álitinn bera höfuð og herðar yfir alla aðra jarðarbúa. Þessar kenningar teygðu anga sína af mismiklu afli og misalvarlegum afleiðingum inn í samfélög víða um heim. Ísland fór ekki varhluta af því.
Mannkynbótahugmyndin var mjög mikilvægur hluti kenningasafns þjóðernisjafnaðarflokkins, nasistanna sem réðu lögum og lofum í Þýskalandi á árunum 1933 til 1945. Þeir gengu lengra og fullyrtu að kynþáttur aría væri æðstur og merkastur allra og forða bæri honum frá blöndun við aðra, hreinræktun var lykilorðið.
Stefna nasista byggði meðal annars á því að hreinlega bæri að eyða þeim sem voru af öðrum uppruna og eins þeim sem ekki féllu inn í mótið sem þeir unnu með. Þeir trúðu því að inngrip í einkalíf fólks væri mikilvæg þjóðarnauðsyn, til dæmis með ófrjósemisaðgerðum. Eftir því sem á leið var gengið æ lengra í átt að hreinsun samfélagsins.
Sú skelfing og sú mannvonska sem því fylgdi er enn óþægilega í minnum höfð. Þjóðarmorð var framið á Gyðingum, dráp voru samþykkt á hópum fólks sem talið var „óæðra“ á einhvern hátt og þar af leiðandi óþarft í hinum aríska heimi. Þeim var sömuleiðis mikið kappsmál að finna hina einu sönnu og trúu Aría.
Hugarfarið varð smám saman gegnsýrt inn í þýska þjóðarsál. Adolf Hitler kanslari Þýskalands, Jósep Göbbels áróðursmálaráðherra hans og ekki síst Heinrich Himmler yfirmaður Gestapó og SS sveitanna trúðu því að á Íslandi væri að finna hámenningu germanska kynstofnsins. Sá síðastnefndi gerði út erindreka til að tæla Íslendinga til fylgilags við þýska ríkið.
Snemma á nítjándu öld tókust vinsamleg kynni með Þjóðverjum og Íslendingum, enda fylltust Þjóðverjar áhuga á menningu Norðurlandaþjóða og norrænum fræðum. Einkum beindist áhugi hugvísindamanna að Íslandi, sem þeir kölluðu Sögueyjuna. Nokkur samgangur var á milli Þýskalands og Íslands eftir valdatöku nasista og sem dæmi má nefna að Eva Braun, ástkona Hitlers, heimsótti landið.
Dr. Werner Gerlach var gerður að ræðismaður Þriðja ríkisins á Íslandi árið 1939 og gekk erinda Himmlers. Hann gerði hvað í hans valdi stóð að finna hér hinn trúa aríska kynstofn. Í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar fylgdust Þjóðverjar náið með Íslandi og Íslendingum, hernaðarlegt mikilvægi eyjunnar var auðvitað hluti af áhuganum en annað og meira bjó undir. Þeir töldu að hér byggju óvenju góð eintök af göfugum ættstofni norrænna manna, ljóshærðir, hávaxnir og sterkbyggðir.
Þótt Gerlach ræðismaður hafi verið allur að vilja gerður að þóknast yfirboðurum sínum og vonaðist til að færa þeim fréttir af hinum hreina kynstofni komst hann þó að annari niðurstöðu varðandi Íslendinga. Hann taldi að þeir væru fjarri því að vera af eins „hreinum” kynþætti og yfirmenn hans vildu trúa. Vonbrigðin voru mikil, hér var ekki að finna það mannval af kynstofni sem nasistar trúðu að væri ofar öðrum. Þeir horfðu auðvitað á heiminn og þar af leiðandi á Íslendinga með gleraugum sem lituð voru andúð, jafnvel hatri á öðrum kynþáttum, þjóðarbrotum og ýmsum þjóðfélagshópum eins og samkynhneigðum og fötluðu fólki.
Werner Gerlach skrifaði minnispunkta um að Íslendingar væru ekki af hreinum kynstofni aría heldur bara af blönduðum uppruna eins og flestir aðrir. Honum leist satt að segja illa á ástandið á landsmönnum og sagði þá meðal annars haldna þrælslund og skorti á sómakennd. Minnispunktar Gerlachs eru varðveittir á Þjóðskjalasafni Íslands en hann virðist ekkert hafa haft fyrir því að gefa yfirboðurum sínum skýrslur varðandi niðurstöður sínar um Íslendinga. Mögulegt er að það hafi ekki tekist áður en breskt herlið hernam landið í maí 1940, handtók Gerlach og flutti af landi brott.
Sagan sem okkur var kennd
Þegar ég gekk í barnaskóla var sú söguskoðun ríkjandi að norskir víkingar hefðu flúið ofríki Haralds konungs hárfagra og komið sér fyrir hér með hvað eina það sem þeir gátu flutt með sér. Forfeður okkar og -mæður voru þess vegna talin vera hreinræktaðir víkingar ættuð frá Noregi. Uppi voru kenningar um „Gullöld Íslendinga“ sem átti að hafa nokkrar aldir uns erlent vald festi hér rætur og við tók aldalangt hnignunarskeið.
Seinni tíma erfðarannsóknir hafa leitt annað í ljós um uppruna Íslendinga og vísindamenn komist að annarri niðurstöðu en kenningasmiðir fortíðarinnar. Nú er talið að um 80 prósent karla sem hingað komu á landnámsöld hafi verið norrænir en einungis um 50 prósent kvenna. Nýlegar rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar benda til þess að hlutfall Kelta á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi verið nokkuð hærra en það er nú.
Þau sem hingað komu voru semsagt líka þrælar og ambáttir sem víkingar tóku með sér þaðan sem þeir gerðu strandhögg. Þetta fólk blandaðist svo hinum hreinræktuðu Norðmönnum og úr urðu Íslendingar. Svo þarf að hafa í huga að aðeins örlítill hópur var svokallaðir víkingar, flestir voru bændur og búalið.
Heldur fátítt var fyrr á öldum að erlendir menn settust að á Íslandi, þótt þess séu auðvitað dæmi. Einhverjir Íslendingar geta til að mynda rakið ættir sínar til franskra og baskneskra sjómanna auk þess sem saga Hans Jónatans, hörundsdökks þræls úr Karíbahafi sem settist að á Íslandi snemma á nítjándu öld, komst í hámæli fyrir nokkrum árum. Hans Jónatan á nokkuð stóran ættboga á Íslandi, hann slagar í þúsund manns ef marka má erfðarannsóknir.
Nokkrar breytingar urðu á samsetningu íslensks samfélags á síðustu öld þegar Íslendingar urðu almennt víðförlari og fólk af erlendum uppruna kaus æ oftar að setjast að á landinu.
Nú er svo komið að ríflega 15% Íslendinga eru innflytjendur samkvæmt tölum Hagstofunnar. Börn hafa einnig verið ættleidd frá ýmsum svæðum jarðarinnar, sem eru alin upp við þá siði og þau gildi sem hér ríkja. Þrátt fyrir að hafa fæðst í öðru landi geta þau ekki talist vera annað en Íslendingar. Þessi börn hafa þrátt fyrir það orðið fyrir aðkasti og verða enn vegna uppruna síns.
Klofningur þjóðfélaga
Við búum í samfélagi þar sem fólk sem kemur hvaðanæva að býr og vill og kýs að kalla sig Íslendinga. Að mínu mati er það hið besta mál og ég tel að þau sem hér vilja búa eigi að vera velkomin. Ekki eru allir mér sammála og hefur óvild í garð fólks af öðrum uppruna bæði komið fram í orðræðu og í gjörðum þeirra sem telja sig vera einhvers konar verndara menningar okkar og kynþáttar. Birtingarmynd andúðarinnar, hatursins birtist meðal annars í ummælum um fólk og jafnvel líkamlegum árásum. Hvað eina er notað til niðurlægingar. Bölsótast er um litaraft, uppruna, trúarskoðanir og bara það að þau séu ekki eins og við og þar af leiðandi skuli þau fara til síns heima.
Það má líkja þessu við það hatur sem Afríku-Ameríkanar verða fyrir en forfeður þeirra flestra voru fluttir sem þrælar til Bandaríkjanna. Nú fá þau - sem eru svo sannarlega Bandaríkjamenn - að heyra að vegna hörundslitar síns séu þau ekki velkomin. Þessi hópur hefur heldur ekki fengið jöfn tækifæri á við aðra og tölfræði sýnir að kynþáttahatrið litar til dæmis viðbrögð og framkomu lögreglu sem handtekur frekar hörundsdökt fólk heldur en hvítt.
Öll munum við eftir hörðum mótmælum í Bandaríkjunum og nú síðast Black Lives Matter bylgjunni sem berst gegn harðræði og ofbeldi, hófst árið 2013 og reis hátt á síðasta ári vegna órættmæts dráps lögreglumanns á blökkumanni. Við þekkjum öll ræðu Dr. Martin Luther King Jr. þar sem hann talaði um þann draum sinn að jafnrétti skyldi vera til handa öllum. Enn er baráttunni sem hann tók þátt í og lét lífið fyrir ekki lokið.
Þessi viðhorf eru ekki einskorðuð við Bandaríkin. Fólki frá Tyrklandi var boðið að flytjast til Þýskalands til að fylla í þau störf sem Þjóðverjar gátu ekki sinnt sjálfir um miðja síðustu öld. Árin liðu og fyrr en varði var svo komið að þetta fólk hafði eignast börn sem ólust upp í Þýskalandi og taldi sig mun fremur þýsk en tyrknesk. Þau urðu þó fyrir miklu aðkasti sumra þeirra sem telja sig eiga ríkara tilkall til landsins en þetta fólk.
Flóttamannastraumur sem aldrei fyrr
Ástandið í heiminum er válegt og fólk frá átakasvæðum og frá landsvæðum sem hafa orðið fyrir barðinu á náttúruhamförum reynir hvað það getur að komast í burtu til að öðlast tækifæri til mannsæmandi lífs. Nú er talað um að uppi séu mestu fólksflutningar og umrót sögunnar.
Íslendingar hafa tekið á móti flóttamönnum sem koma hingað á vegum alþjóðastofnana. Það hefur verið gert um nokkurt skeið og nú býr hér fólk frá flestum ef ekki öllum heimshornum.
Útlendingastofnun sér um umsóknir um dvalar og atvinnuleyfi. Stofnunin er gagnrýnd reglulega fyrir harkalega meðferð á hælisleitendum. Einnig er hún gagnrýnd fyrir það að afgreiðsla þeirra mála sem til stofnunarinnar rata taki langan tíma, jafnvel fleiri mánuði.
Litróf heimsins
Hér á landi hefur þróunin verið hægari en annars staðar. Það gleður mig þegar ég geng um götur borgarinnar og sé það litróf mannlífsins sem virðist vera komið til að vera. Vitaskuld setur ferðafólk svip sinn á Reykjavík en það er þó svo að fólk af ýmsum uppruna hefur tekið sér bólfestu hér.
Það var ekki algengt fyrir nokkrum tugum ára og er ég hugsa til baka þá sé ég mikla og jákvæða breytingu. Nefna má að matarmenning okkar hefur tekið stakkaskiptum síðustu fjóra áratugina eða svo. Draga má þá ályktun að það hafi gerst vegna áhrifa frá fólki sem hingað kom, settist að og tók matarhefðir sínar með sér. Auðvitað er það einnig vegna þess að Íslendingar ferðuðust um heiminn og tóku með sér til baka nýjar uppskriftir okkur áður ókunnar hér þar sem ýsa með kartöflum og hamsatólg þótti full góður kostur sex daga vikunnar.
Hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafa iðulega verið af erlendum uppruna, fólk sem hefur einnig kennt íslenskum ungmennum á hljóðfæri og tekið ríkan þátt í tónlistarlífinu. Þetta hefur vitaskuld haft mikil og góð áhrif og ég fullyrði að þetta sé ein af ástæðum þess að íslenskt tónlistarfólk er talið vera mjög frambærilegt á heimsvísu. Auðvitað valda aðrir samverkandi þættir því en ekki má horfa framhjá þeim áhrifum sem þetta erlenda tónlistarfólk hefur haft.
Það má segja með sanni að útlendingahræðsla, íslamófóbía, þjóðernishyggja, útilokandi þjóðernishyggja, popúlismi og þjóðernispopúlismi eru allt hugtök sem má heimfæra á okkar samfélag. Þetta er allt sterk birtingarmynd eyjahugsunarinnar, þar sem allt ókunnugt og framandi hlýtur að vera hættulegt og skaðlegt.
Ýmsir hópar ástunda þetta framferði og telja sig æðri og hærra setta þeim sem hingað koma og setjast að vegna þess, ja vegna þess að þeir eru „hreinræktaðir” Íslendingar. Oft er erfitt að henda reiður á hvað þetta raunverulega þýðir, en tengist því að við vitnum oft í þjóðararf okkar sem er grunnur okkar menningar.
Margir sem ekki vilja sjá að fólk af öðrum uppruna blandist Íslendingum staðhæfa að við verðum að vernda tungumálið, okkar einstaka menningararf og svo framvegis. Minna er rætt um það að oft er hörundslitur og trúarbrögð viðkomandi einnig hluti af þeim fordómum sem koma upp á yfirborðið með reglulegu millibili.
Allt frá því að fyrsta umsókn um byggingarleyfi fyrir mosku í Reykjavík var lögð fram 1999 hefur verið deilt um hvort og hvar hana eigi að byggja. Ýmislegt hefur gengið á og nú árið 2021 er moska Félags múslíma á Íslandi ennþá aðeins á teikniborðinu, en félagið fékk lóð við Suðurlandsbraut. Því var harðlega mótmælt en íslenskir múslímar hafa löngum iðkað sína trú í húsnæði sem er ætlað fyrir skrifstofur og léttan iðnað.
Farandverkafólk í sífellt smærri heimi
Heimurinn er að breytast og það hratt. Samverkandi þættir verða til þess að fólk ferðast á milli heimshorna í leit að tækifærum, vinnu og betra lífi. Hér má til dæmis nefna það að íbúar Bangladess stóla á tekjur sem koma frá löndum sínum sem vinna erlendis og senda innkomu sína að stórum hluta heim til stuðnings og framfæris fjölskyldna sinna.
Loftslagsváin spilar inn í og þegar hungur eða aðrar ógnir steðja að reynir fólk að komast í burtu til þess að öðlast betra líf fyrir sig og sína. Löngu er orðið tímabært að slíðra sverðin og gera okkur grein fyrir því að þó að við séum upprunnin frá mismunandi svæðum jarðarinnar eigum við það einmitt sammerkt að vera íbúar þessarar plánetu. Við búum öll á sömu eyjunni.
Þegar grannt er skoðað erum við að mestum hluta eins. Húðlitur okkar ræðst að miklum hluta af því hvaðan við erum ættuð. Þannig eru þau sem eru upprunnin frá sólríkari og heitari svæðum jarðarinnar dökk á hörund og við sem búum á norðlægari slóðum erum það síður.
Trúarbrögðin sem enn hafa mikil áhrif á líf okkar flestra eru oft af svipuðum meiði og urðu til undir margskonar áhrifum. Kristni tekur mið af kennisetningum Gamla testamentisins. Í gyðingdómi er Jesú talinn með spámönnunum. Um sama Guð er að ræða og sömuleiðis í islam sem er auðvitað upprunnin frá svipuðu heimssvæði og undir sömu áhrifum.
Trúarbrögð fá lánaðar kennisetningar hvert frá öðru en þegar fólk sem aðhyllist eina kennisetningu umfram aðra telur að ofbeldi sé boðlegt til boðunar hennar er fokið í flest skjól. Ofsóknir á hendur þeim sem ekki hlíta „hinni einu sönnu trú” sem er ráðandi afl í það skiptið eru daglegt brauð enn þann dag í dag.
Kristin kirkja er langt í frá saklaus af því að voðaverk hafi verið framin í nafni hennar. Páfar hvöttu til þess að krossferðir voru farnar til landsins helga og stríð í Evrópu voru oft háð með vitund og vilja kaþólsku kirkjunnar. Kirkjustofnanir hafa stutt valdamenn sem síðar frömdu voðaverk og svo má lengi telja.
Nú eru valdataka Talibana í Afganistan ofarlega á baugi, einnig voðaverk Boko Haram í vestur- og miðhluta Afríku, hryðjuverk Al-Kaída og annara öfgahópa sem telja sig hafa valdið og vitneskjuna til að boða sína trú sem þá einu réttu. Þeir pína og drepa fólk á skelfilegan máta og alltaf eru það konur og börn sem verða verst úti.
Kaþólska kirkjan hefur loksins gengist við ýmsum voðaverkum og segist rannsaka mál ódæðismanna innan vébanda hennar. Hér er um að ræða slæma meðferð á skjólstæðingum kirkjunnar, kynferðisofbeldi og annað ofbeldi sem kostaði líf og olli mikilli þjáningu.
Burt séð frá trúarstofnunum hafa frumbyggjar í Ástralíu, Bandaríkjunum, Kanada og Nýja Sjálandi orðið fórnarlömb hræðilegra voðaverka. Ótal dæmi eru um það að frumbyggjabörn hafi verið tekin frá foreldrum þeirra alfarið gegn vilja þeirra og sett í fóstur eða inn á stofnanir eins og heimavistaskóla kaþólskra í Kanada.
Börnin sem lentu í þessum hremmingum máttu þola margt miður gott og sum þeirra létu lífið langt um aldur fram vegna slæms aðbúnaðar og meðferðar á þeim. Þetta var gert til þess að freista þess að reyna að afmá menningu frumbyggjana, tungumál þeirra og sjálfsmynd.
Í Kína eiga ofsóknir sér stað gegn Róhingja-múslímum og svo má lengi telja. Stöðva þarf öll þau óskaplegu voðaverk sem framin hafa verið af þeim sem telja sig öðrum æðri. Það gerist ekki fyrr en við, mannkynið sem heild komum okkur saman um að við erum ekki af kynþáttum eða trúarhópum fyrst og fremst heldur einfaldlega manneskjur sem allar hafa sama rétt. Við búum öll á sömu eyjunni.
Þetta þarf ekki að þýða það að fólk fái ekki að iðka trú sína í friði, tala sitt tungumál eða að njóta menningararfs síns, þvert á móti. En oflátungshætti og kúgun verður að linna.
Það sem liggur að baki þessu greinarkorni er sú hugsun að við jarðarbúar þurfum að taka saman höndum sem aldrei fyrr til að eiga möguleika á að lifa mannsæmandi lífi. Að gefa færi á því að skila bláa hnettinum, eyjunni okkar, í viðunandi horfi til þeirra sem á eftir okkur koma.
Mér hefur orðið tíðrætt um það sem ég kalla Hamfarakynslóðina, mína kynslóð sem er komin á fremsta hlunn með að klúðra málum svo kyrfilega að ekki verður aftur snúið. Litlu skiptir hvar við búum þar sem áskoranirnar eru á heimsvísu.
Þegar svo er komið er ekkert pláss fyrir kynþáttafordóma, útilokandi trúarofstæki, ofurtrú á eigið ágæti og annað það sem aðgreinir okkur í stað þess að sameina. Ef framtíðin á að vera björt er alveg tilvalið að tryggja að svo verði fyrir alla eyjaskeggja jarðarinnar sem voru og eru allskonar og verða þannig um ókomna framtíð.
Höfundurinn er kvikmyndagerðarmaður og höfundur bókarinnar The Banana Garden.