Stjórnstöð ferðamála verður sett á laggirnar samkvæmt samkomulagi sem kynnt var í gær, en Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök ferðaþjónustunnar og ríkisstjórnin hafa gert það með sér. Stjórnstöðin mun starfa til ársins 2020 en þá er gert ráð fyrir að gjaldeyristekjur Íslands af ferðaþjónustu geti numið allt að 620 milljörðum.
Á þessu ári er gert ráð fyrir að gjaldeyristekjurnar verði um 350 milljarðar af ferðaþjónustu, og heildargjaldeyristekjur þjóðarbússins um 1.140 milljarðar.
Þetta eru stórar og miklar tölur sem breyta íslenska hagkerfinu verulega, það er ef það mun ganga eftir að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu muni verða 620 milljarðar króna á ári eftir einungis fimm ár. Sé horft til vaxtar ferðaþjónustunnar að undanförnu, þá er það ekki óvarlega áætlað, en nú þegar hafa komið um milljón ferðamenn til landsins á árinu og gert ráð fyrir að þeir verði rúmlega 1,2 milljónir, eða um tuttugu prósent fleiri en í fyrra.
Nú er sá sem þetta ritar ekki hagfræðingur. En eitthvað segir manni, að þessi mikla innflæðisaukning á fjármagni í litla íslenska hagkerfið, geti orsakað ris á gengi krónunnar og hún styrkst verulega frá því sem nú er. Við hvaða gengi á almennt að miða þegar kemur að því að meta framtíðartekjurnar? Það er mikið gleðiefni, hversu mikill kraftur er í ferðaþjónstunni, en það má ekki gleyma því, að eftir hrunið varð Ísland næstum helmingi ódýrari áfangastaður mælt í erlendri mynt en það var fyrir. Ef krónan styrkist mikið, þá getur það dregið úr vinsældum landsins. Gengið hlýtur því að vera mikill áhættuþáttur í þessum miklu vaxtaráformum.
Hörður Þórhallsson, framkvæmdastjóri nýrrar stjórnstöðvar ferðamála, mun vonandi leggjast yfir þessa stöðu sem upp er komin, og reyna að finna út hvernig helstu áhættuþættir liggja í ferðaþjónustunni, þegar kemur að gengi krónunnar. Spor sögunnar hræða þegar kemur að því að ganga hratt um gleðinnar dyr, og halda að hér sé allt best í heimi.