Nú stendur yfir ráðstefna í Glasgow um mikilvægasta málefni okkar tíma, á COP26 er verið að ræða hvernig á að bregðast við loftslagsbreytingum. Þessi ráðstefna kemur á ákveðnum tímamótum; heimsbyggðin er hægt og bítandi að færast út úr skugga COVID19, það liggur fyrir ný samantekt á loftslagsvísindum í mjög yfirgripsmikilli skýrslu frá milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC), og þetta er jafnframt sá vettvangur þar sem aðilar að Parísarsáttmálanum leggja fram skuldbindingar um samdrátt á útblæstri til næstu 5 ára. Daglega berast myndir frá Glasgow af jakkafataklæddum stjórnmálamönnum, hástemmdum þjóðarleiðtogum, og göfuglyndum milljarðamæringum sem lofa öllu fögru, og baráttureifum ungmennum og umhverfisverndarsinnum sem gagnrýna þau kurteislega. En er einhver von um að ráðstefnan skili því sem til þarf? Eða er þetta bara grænþvottar þjóðhátíð eins og Greta Thunberg orðaði það.
Baráttan gegn loftslagsbreytingum hefur verið að tapast í 30 ár og gott betur. Frá því byrjað var að ræða um vandann og alþjóðleg samvinna hófst um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hafa þær samt aukist í veldisvexti. Enn hefur ekki tekist að fletja út þá kúrfu, hvað þá að snúa henni við. Kyoto bókunin sem var í rauninni sterkara samkomulag en Parísarsáttmálinn, var stórfenglega misheppnað ferli þar sem útblástur á heimsvísu dróst ekki neitt saman á tímabilinu sem bókunin náði yfir. Útblásturstölur stóðu ekki einu sinni í stað á tímabilinu heldur héldu þær áfram að aukast ár eftir ár. Reyndar hefur útblástur á gróðurhúsalofttegundum aldrei dregist saman nema þegar eitthvað verður til þess að hægist á hagkerfum heimsins. Þegar fjármálakreppan skall á 2008 varð samdráttur í útblæstri á heimsvísu, og nú síðast í COVID19 heimsfaraldrinum.
Það liggur fyrir að þessi áratugur, frá 2020 til 2030, er lykil tímabil í baráttunni gegn hamfarahlýnun. Það hefur verið dregið svo lengi að grípa til haldbærra aðgerða að nú eru í raun engir góðir eða auðveldir kostir í stöðunni. Við verðum að skera niður útblástur um 50% á næstu 8 árum ef vel á að vera. Það er ekki hægt að ná því markmiði með því að krafsa í yfirborðið. Það þarf að grafa niður að rótum vandans, það þarf að róttækar aðgerðir og þær verða ekki endilega sársaukalausar.
Gróðavænlegar aðgerðir eða samdráttur?
Það er ekki líklegt að slíkar aðgerðir verði ræddar í Glasgow. Þvert á móti er líklegt að þar verði allt gert til að ramma vandamálið þannig inn að athyglinni sé beint frá grundvallarþáttum á borð við kapítalisma, hagvöxt og frjálsa markaði. Of lengi hefur stjórnmálastéttin og auðvaldið sem hún þjónar fengið að móta og ramma inn umræðuna og nú er svo komið að jafnvel umhverfisverndarsamtök geta ekki tjáð sig um málefnið án þess að orðræðan falli innan þess ramma. Einu aðgerðirnar sem eru ræddar eru þær sem hægt er að græða á. Það er talin fullkomlega eðlileg krafa að aðgerðir í loftslagsmálum séu gróðavænlegar og að þær séu í samkeppni á frjálsum markaði. Sem reyndar er ekki svo frjáls þegar græn orka á til dæmis að keppa við jarðefnaeldsneyti sem eru að öllu jöfnu niðurgreidd. En um fram allt þá verða aðgerðir að vera hluti af hagvaxtar heimssýn kapítalismans. Þær verða að leiða til vaxtar og aukinnar neyslu til dæmis með byggingu nýrra innviða eða endurnýjun á öllum bílaflota heimsins yfir í rafbíla.
Nú er svo komið að það er ekki hægt að taka á vandanum lengur aðeins með aðgerðum sem gefa gróðavon eða hvetja til hagvaxtar. Við getum ekki lengur takmarkað okkur við aðgerðir sem krefjast uppbyggingar. Við þurfum að horfast í augu við þann blákalda veruleika að til þess að koma í veg fyrir hamfarahlýnun og algerlega óvissa framtíð fyrir komandi kynslóðir þá þurfum við að skera niður líka. Nota minni orku, minka neyslu, og draga saman seglin á mörgum sviðum. Sú hlið aðgerða er nánast aldrei rædd á alþjóðlegum pólitískum vettvangi. Það má hvetja einstaklinga til að draga saman neyslu, en ef það yrði að pólitískri stefnu að valda samdrætti í hagkerfinu myndi það ógna grunnstoðum kapítalismans. Því er ekki talað um raunhæfa og mikilvæga möguleika í loftslagsmálum sem standa okkur til boða á þessari ögurstundu.
Ef svo fer sem horfir að frá COP26 komi samþykkt um ófullnægjandi og máttlausar aðgerðir sem taka aðeins á yfirborði vandans, þá er stór hluti ástæðunnar sá að við höfum leyft fyrirtækjum, stjórnmálastéttinni, og auðvaldselítunni að ramma inn umræðuna og alla okkar sýn á málefnið og mögulegar lausnir. Innan þess ramma er aðeins boðlegt að tala um lausnir sem hægt er að græða á, stuðla að uppbyggingu og vexti, eða eru drifnar af frjálsum markaði. Við verðum að brjóta upp þennan ramma og byrja að ræða um lausnir sem felast í samdrætti, minni neyslu, minni framleiðslu og stýringu á mörkuðum. Græn orka er góð og við þurfum að halda áfram að byggja hana upp á heimsvísu, en í millitíðinni þá þurfum við líka að einfaldlega nota minni orku.
Höfundur er heimspekingur og félagi í Umhverfisráði Sósíalistaflokks Íslands.