Nú er útlit fyrir enn eitt verkfallið á vinnumarkaði, en sjúkraliðar munu á morgun greiða atkvæði um verkfallsaðgerðir.
Sjúkraliðafélag Íslands, SFR-stéttarfélag í almannaþjónustu og Landssamband lögreglumanna hafa átt í sameiginlegum kjaraviðræðum við ríkið síðustu mánuði. Lítið hefur þokast í samkomulagsátt en deilan hefur verið á borði ríkissáttasemjara frá því í júní. Bæði Sjúkraliðafélag Íslands og SFR hafa ákveðið að efna til atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls félaganna. Lögreglumenn hafa hins vegar ekki verkfallsrétt og geta því ekki boðað til verkfalls.
Þetta er í takt við stöðu mála sem hefur verið á þessu kjörtímabili, þar sem viðvarandi ófriður á vinnumarkaði og nær fordæmalausar launadeilur hafa sett sitt mark á gang mála. Allt frá því að samið var við lækna í janúar á þessu ári, og frekari verkfallsaðgerðum var aflýst, hafa samningaviðræður við aðrar stéttir hins opinbera einkennst af hörðum deilum sem hafa komið inn á borð ríkissáttasemjara, dómstóla og gerðardóms.
Það versta við stöðuna er að niðurstöður að lokum hafa ekki orðið til þess að skapa frið, þar sem sumir hópar hafa fengið meira en aðrir. Það staðfestir að stjórnvöld hafa haldið illa á spilunum á vinnumarkaði og ýtt undir deilur með lélegri samningatækni. Ekki vantaði samt áformin um að friður ætti að ríkja, þegar stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar var kynnt. Í henni segir orðrétt: „Unnið verður að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar.“ Svo mörg voru þau orð.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í pistli á vef SA að staða sé ekki sérstaklega álitleg, sé litið til sögunnar. „Á níunda áratugnum voru laun tuttugufölduð en kaupmáttur jókst á tíu árum um innan við eitt prósent. Við erum að leggja upp í sambærilegan leiðangur þar sem allir munu tapa, skuldir fólks og fyrirtækja stökkbreytast og atvinnutækifæri glatast.“ Viðbrögðin við kjarasamningunum af hagstjórnarborðinu hjá stjórnvöldum og atvinnulífinu hafa verið kunnugleg. Ýta fastar á bensíngjöfina, gefa í, byggja meira, fjárfesta meira. Það kann að vera að þetta sé svartsýnt mat hjá Þorsteini, en það er ekki hægt að segja annað en að sporin hræði.