Athygli mín hefur verið vakin á því að Ásgeir Daníelsson telur vera villur í skýrslu Daða Más Kristóferssonar um fyrningar aflahlutdeilda sem hann ritaði árið 2010. Daði er auðvitað fullfær um að svara fyrir sína skýrslu, en þar sem Ásgeir reynir að setja greinargerð sem ég tók nýlega saman undir sama hatt tel ég rétt að leiðrétta stærstu missagnir hans.
Söguskýring Ásgeirs um upphaf kvótakerfis í botnfiskveiðum árið 1984 er fjarri sanni. Í fyrsta lagi höfðu stjórnvöld ekki forgöngu um upptöku þess. Í öðru lagi þurfti ekki að lofa útgerðamönnum að kerfið væri til skamms tíma. Þeir höfðu þegar góða reynslu af hliðstæðum kvótakerfum í síldveiðunum (frá 1975) og loðnuveiðum (1982) og mikill meirihluti þeirra aðhylltist því slíkt kerfi í botnfiskveiðunum. Í þriðja lagi var afkoma sjávarútvegsins árið 1984 miklu betri en árin 1982 og 1983. Þessar sögulegu staðreyndir eru hins vegar aukaatriði í gagnrýni Ásgeirs og óþarfi að fara fleirum orðum um þær.
Villa sú (ekki villur í fleirtölu) sem Ásgeir þykist hafa séð í skýrslu Daða Más og minni er að verðmæti aflahlutdeilda sé aðeins að hluta fært í efnahagsreikning sjávarútvegsins og hrein eign hans sé því að sama skapi hærri. Þetta er hins vegar engin villa, því að í báðum skýrslunum er skýrt tekið fram að miðað sé við bókfært eigið fé útvegsins en ekki það sem það kann raunverulega að vera.
Í málflutningi sínum leiðir Ásgeir hins vegar lesendur afvega (eða gerir villu svo notað sé orðalag hans) með öðrum og alvarlegri hætti. Hann gleymir því að eignaskerðing sú sem í fyrningu aflaheimilda felst á sér ekki aðeins stað í upphafi þegar markaðsvirði þeirra fellur í samræmi við fyrningarhlutfallið. Eignaskerðingin heldur áfram með fyrningu hvers árs þar til ekkert er eftir. Sama gildir um hagnað fyrirtækjanna. Hann dvínar eftir því sem á fyrninguna líður uns ekkert er eftir. Það skiptir því litlu þótt raunverulegt eigið fé fyrirtækjanna sé í upphafi eitthvað hærra en bókfært virði. Sé eigið fé sjávarútvegsfyrirtækjanna ekki umfram markaðsvirði aflahlutdeildanna mun fyrning þeirra þurrka þetta eigið fé út. Eina spurningin er hvort það gerist þegar í upphafi eða einhverjum árum síðar. Það er því villandi, svo ekki sé meira sagt, að halda því fram, eins og Ásgeir gerir í tölulegu dæmi sínu, að tiltekin fyrning muni skilja eftir talsvert eigið fé hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum.
Höfundur er prófessor emeritus í hagfræði.