Það er orkuskortur á Íslandi og í heiminum. Landsvirkjun annar ekki eftirspurn og ábatasöm starfsemi er skert. Arðgreiðslur til ríkisins minnka. Móðir jörð og mannkynið allt kallar á orkuskipti, vistvænt rafafl. Evrópa svarar með meiri kjarnorku, vind- og sólarorku. Það dugar ekki „að snúa baki við sóun og ofgnótt; verða hófsöm og nægjusöm við lágstemmdari aðstæður en við njótum nú.“ Svíar þurfa að auka orkuframleiðslu sína meira en 100% á næstu 25 árum. Kjarnorka er aftur á dagskrá. Á Íslandi er vindorka ákjósanlegur kostur með vatnsafli og jarðvarma, þó enn í fjötrum lagalegrar óvissu.
Í fjórða sinn er þriðja rammaáætlun á dagskrá Alþingis. Umhverfisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson frá Sjálfstæðisflokki leggur fram sömu tillögu og forverar hans þrír; Svandís Svavarsdóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson úr Vinstri grænum árin 2011 og 2018 og Björt Ólafsdóttur úr Bjartri framtíð 2013. Tillagan gerir m.a. ráð fyrir því að vindorkukostirnir Blöndulundur og Búrfellslundur, falli undir lög um verndar- og orkunýtingaráætlun landsvæða, rammaáætlun. Það er röng túlkun ráðherranna fjögurra á lögunum, að virtum ákvæðum stjórnarskrárinnar og til þess fallin að fresta enn um árabil öllum virkjunarkostum í vindi hér á landi.
Þessi misskilningur og ætluð vanþekking á lögum hefur hindrað nýtingu vindorku á Íslandi. Mikilvæg tækifæri hafa glatast, síðast skerðing á raforku Landsvirkjunar til stóriðju. Svo er loðnubræðsla keyrð með olíu vegna skorts á rafafli. Á það má benda að samþætting vindorku og vatnsorku er sennilega einn umhverfisvænasti orkukostur sem um getur. Sparar vatn í lónum þegar vindur er mikill en nýtist þegar vindur er hægur sem varaafl. Ísland og heimurinn þarf þannig rafafl og við getum lagt okkar af mörkum.
Allir umtalsverðir virkjunarkostir í vatnsafli og jarðvarma eru í þjóðlendum eða á jörðum í eigu ríkisins. Vindorka er hins vegar á öllu landinu. Slík svæði eru bæði í opinberri eign og einkaeigu á landi og í sjó innan netlaga. Vilji Alþingi flokka hagkvæm landsvæði í einkaeign fyrir vindorkuver í verndarflokk rammaáætlunar vegna umhverfis- og almannahagsmuna er um bótaskylda takmörkun á eignarétti að ræða. Sé slíkur kostur hins vegar settur í nýtingarflokk, má meta þá flokkun til opinberrar úthlutunar takmarkaðra fjárhagslegra gæða, (gjafakvóta). Gæta verður jafnræðis, annað hvort allir eða enginn.
Ef takmarka á virkjunarkosti í vindorku með rammaáætlun þarf Alþingi að ákveða með lögum, að slík landsvæði yrðu skilgreind fyrirfram af þar til bæru stjórnvaldi og eftir atvikum tekin með eignarnámi séu þau í einkaeign en ekki í þjóðlendu eða á ríkisjörð. Þessi svæði yrði svo að bjóða út til að gæta jafnræðis og samkeppnissjónarmiða á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt skuldbindingum EES-samningsins. Skilyrði raforkulaga um tengingu við flutningskerfið, mat á umhverfisáhrifum og skipulag viðkomandi sveitarfélags verður að liggja fyrir í útboðinu ásamt vilyrði um virkjunarleyfi. Engu slíku er til að dreifa. Verði Blöndulundur samþykktur í nýtingarflokk rammaáætlunar, verður að bjóða virkjunarkostinn út. Þar hefði Landsvirkjun engan forgang.
Vindorkuver í gildandi lagaumhverfi utan við lög um rammaáætlun, þ.e. raforkulög, skipulagslög og lög um mat á umhverfisáhrifum tryggja vel þau markmið raforkulaga; að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi, efla atvinnulíf og byggð í landinu og stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa eins og vindorku með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar eru vegna almannahagsmuna og umhverfissjónarmiða, þ.m.t. loftlagsmála á lands- og heimsvísu. Þó tillaga umhverfisráðherra og afstaða boði ekki gott um vindorkuna, fyrir land og þjóð, má enn vona að nýlega kosinn þingheimur fangi skynsemi sína í þessum efnum.
Höfundur er lögfræðingur.