Vindorkuumræðan hefur eflst undanfarið. Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Bjarni Bjarnason, gagnrýndi nýlega þróun vindorku. Framkvæmdatjóri norsk-íslenska fyrirtækisins Zephyr Iceland, Ketill Sigurjónsson, svaraði í löngu máli í Kjarnanum (8.12) og kom fram í viðtali á Sprengisandi (11.12). Ég set hér fram, í tilefni af orðum Ketils, sjónarmið sem eru mikilvæg hvort sem beislun vinds verður hlutfallslega lítil eða veruleg.
Fjöldi vindmylla, sem kunna að snúast hér á landi eftir tvo til þrjá áratugi, er sannarlega óljós. Mestu máli skiptir hver afltalan verður. Samkvæmt þverpólitískri orkustefnu (til 2050) ber að byggja virkjanir í takt við orkuþörf samfélagsins. Stefnan opnar á þann skynsamlega skilning að framleiðsla raforku og orkueftirspurn haldist vel tengd í samhengi. Á því og framþróun öruggs flutningskerfis hefur orðið misbrestur undanfarin 5 til 10 ár. Orkustefnan kveður einnig á um að samfélagið njóti ávinningsins af orkuvinnslunni.
Framkvæmdaflýtir, verulegt offramboð á raforku og vindorka án tilheyrandi hliðarafls (vatns- eða varmaorku) þegar ekki blæs, er óboðleg þróun. Hvað myllufjölda á landi varðar má rýna í 30 til 40 verkefnahugmyndir á ólíkum stigum og margfalda með 20 (ágiskaður meðalfjöldi vindmylla í vindorkuveri) og fá út 600 til 800 mannvirki, vel vitandi að sum verða ekki byggð en önnur ný kunna að bætast við. Það er einmitt ótrúlegur og skyndilegur verkefnafjöldinn sem ber vitni um kapphlaup er verður á ná tökum á. Gæta verður jafnvægis á milli náttúrunytja, raunverulegrar orkuþarfar (-eftirspurnar) og náttúrverndar.
Háhitavirkjanir eru jafnan reistar til þess að framleiða heitt vatn og raforku. Orkustefnan kveður á um fjölnýtingu orkustrauma. Nýjar, brýnar varmavirkjanir fyrir höfuðborgarsvæðið og önnur þéttbýlissvæði munu skila okkur mikilli varmaorku og a.m.k. raforku sem nemur 50-150% varmaorkunnar. Virkjunin á Hellisheiði skilar um 300 MW af rafafli og ígildi 200 MW varmaafls. Nesjavallavirkjun framleiðir 120 MW af rafafli en 300 MW varmaafls. Engin háhitavirkjun framleiðir aðeins heitt vatn (ein þó bara rafafl, í Kröflu) enda orkusóun að nýta ekki stóran hluta virkjaðs varma.
Lög um verndar- og nýtingaráætlun (Rammaáætlun) eru skýr. Þau „ná til landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti til orkuvinnslu, jafnt innan eignarlanda sem þjóðlendna”. Einu gildir hver orkuuppsprettan er; fallvatn, jarðvarmi eða andrúmsloft á hreyfingu. Lögin taka til orkuvera sem ná yfir 10 MW, þ.e. allra vindorkuverkefna sem lögð hafa verið fyrir Orkustofnun til skoðunar og afgreiðslu. Minni orkuver lúta einnig lögum og reglum. Hvorki Zephyr né aðrir með áhuga á orkuverum á Íslandi eiga að geta komist Fjallabaksleið að byggingu þeirra. Sveitarfélög geta heldur ekki leitt hagaðila framhjá Rammaáætlun. Hún er enda eina grunntækið til reiðu ef gæta á jafnvægis orkunytja og sjálfbærni. Stefnt er að bætri löggjöf og reglugerðum um vindorku sem slíka. Hún er nýjabrum hjá okkur.
Heildrænt skipulag orkuvinnslu á samfélagsgrunni er jafn brýnt og víðtækt regluverk í sjávarútvegi (horfi framhjá göllum núverandi skipulags). Sem mest orkuöryggi er gildur þáttur í heildstæðu skipulagi orkumála. Það varðar m.a. eignarhald á virkjunum. Í mínum huga snýst góð staða í þeim efnum um yfirgæfandi eignarhlut samfélagsins í orkuinnviðum.
Við það ber að miða vinnuna á næstu áratugum.
Höfundur er fyrrum þingmaður Vinstri grænna.