Þróun vindmylla og kortlagning gjöfulla, vindbarinna svæða á Íslandi hefur, meðal annarra ástæðna, orðið til þess að upphafsfasi mikillar samkeppni um byggingu vindorkuvera af stærðargráðunni 50 til 250 MW er löngu hafinn. Samstarf erlendra og innlendra aðila hefur leitt til undirbúnings vindmyllugarða víða um land í samstarfi við sveitarfélög. Mörg hver virðast horfa framhjá stöðu vindorkunnar innan sk. rammaáætlunar þótt stefnt sé langt fram úr núverandi uppsettu rafafli virkjana og heildarsýn skorti.
Orkuverin verða fyrst og fremst í erlendri eigu, ef af þeim verður. Norska fyrirtækið Zephyr er með ein tíu landsvæði í skoðun. Heildarafl orkuveranna er sýnilega yfir 2.000 MW eða um 2/3 hlutar af núverandi rafafli. Vel yfir 30 vindorkuverkefni (um helmingur á undirbúningsstigi), sem borist hafa Orkustofnun, staðfesta að kapphlaupið um beislun vindsins yfir landi er orðið býsna hart.
Ótalin eru verkefni sem erlendir aðilar sjá fyrir sér í hafi við Ísland. Minna verður á að vindmyllur undan öldu- og straumþungum úthafsströndum landsins eru langsóttur og vanhugsaður kostur. Hyggi Norður-Evrópuríki á fljótandi úthafsorkuver, eða botnföst nær landi, er nægt rými fyrir þau, og vindar nógu stríðir, undan ströndum ríkjanna. Flutningsleiðir í heimaland eru þar margfalt styttri en úr hafinu við Ísland. Til innlendra nota hér eru slík orkuver ekki tæk vegna stærðar og stórfelldrar vöruframleiðslu sem þeim myndi fylgja og hentar ekki íslensku hagkerfi. Sæstreng úr landi viljum við ekki.
Erlent eignarhald á grunninnviðum á borð við raforkuver er ekki vænlegt í stórum stíl, þótt ekki væri nema fyrr sem mest orkuöryggi og eigin yfirráð samfélags yfir þróun orkumála. Íhugum hvort eignarhald og þróun íslenskra hitaveitna og vatnsorkuvera á vegum t.d. norrænna og breskra stofnana eða fyrirtækja hefðu skilað okkur núverandi stöðu, tæknistigi og öryggi? Reynslan kennir að samfélagseign mikils meginhluta raforkuvera er nauðsyn.
Hófleg vindorka, með göllum og kostum, virðist vænleg í bland við aðra orkukosti. Þeir eru nauðsynleg stoð vegna sveiflukennds vinds. Hlutfall ólíkra orkuvera verður að ákvarða og aðlaga safnið að nýtingunni. Vindorka er hagkvæm og bærilega vistvæn ef mannvirki eru endurnýtt og vindmylluver staðsett fjarri byggð með sem umhverfisvænustum hætti, skv. stefnu Íslands um sjálfbæra orkuvinnslu og vegna brýnna loftslagslausna. Ótækt er að vindorka lúti ekki svipuðu skipulagi, reglum og forsendum og önnur orkuver (50-200 MW). Það vantar svæðaskipulag vindorku og áætlun með miði af aflgetu og staðsetningu vindmylla hvað varðar vindafar, náttúruvernd, flutningskerfið, sýnileika og orkuþörf.
Óafgreitt þingmál umhverfisráðherra vorið 2021 var tilraun til að koma fyrstu böndum á vindorkukapphlaupið. Takast verður að ljúka því og tryggja heildrænt skipulag og skynsamlega staðsetningu vindorkuvera með sérstökum vindorkulögum á yfirstandandi kjörtímabili. Flýta verður vandaðri vinnu starfshópsins sem nú undirbyggir lagasetninguna.
Löngum hefur verið deilt um hvort vindorkuver falli undir rammaáætlun eða ekki. Orðið rammaáætlun er vinnuheiti fyrir Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, samanber lög nr. 48 frá 2011, með þremur síðari breytingum. Upphaflega tóku lögin til fallvatna og jarðvarma en gildissviðinu var breytt í orkunýtingu landsvæða. Í meðförum iðnaðarnefndar Alþingis 2011 var kveðið skýrt á um að í stað þess að lögin gildi aðeins um nýtingu fallvatna og háhitasvæða, gildi þau um „virkjunarkosti til orkuvinnslu jafnt innan eignarlanda sem þjóðlendna“ (þingskjal 1286 – 77.mál). Í 3. grein laganna stendur m.a.: „Verndar- og orkunýtingaráætlun tekur til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn skv. 8. gr. hefur fjallað um og hafa uppsett rafafl 10 MW…“.
Undir lögin falla bersýnilega allar raforkuuppsprettur, á landi og yfir landi, enda eru tvö vindorkuver Landsvirkjunar þegar í nýtingarflokki 3. áfanga áætlunarinnar.
Fernt varðar mestu um ákvarðanir um að beisla vind, eða nýta hann ekki: Orkuskipti, auðlindagjald, tímaþröng frammi fyrir loftslagsbreytingum og loks verndun vatnasviða og jarðvarmasvæða:
- Full orkuskipti í samgöngum, þ.e. að fasa út yfir einni milljón tonnum af jarðefnaeldsneyti, á innan við 20 árum þarfnast væntanlega meiri raforku en sparnaður, bætt nýting virkjana og nokkur ný (og sum umdeild) vatnsafls- og jarðvarmaver geta skilað. Að auki kemur stækkun samfélagsins, fjölbreytt nýsköpun og grænn iðnaður við sögu ásamt því að ekki er pólitískur vilji til, eða víðtækur áhugi á, að segja upp gildandi stóriðjusamningum.
- Auðlindagjald er sanngjarnt afgjald til samfélagsins þegar jafn stór og verðmæt en hvikul auðlind og vindurinn er annars vegar.
- Aðeins 20 ár eru til stefnu eigi íslensk orkuskipti að varða veröldina nægilega miklu. Einhverjir benda á minni orkunýtingu raforku við framleiðslu rafeldsneytis en við beina notkun rafmagns í rafknúnum tækjum. Rétt er það, en varla má treysta á nýja tækni til að réttlæta hægagang eða biðstöðu í útfösun jarðefnaeldsneytis í samgöngum og útgerð. Kosti orkuskiptin byggingu fleiri raforkuvera (allra gerða), án þess að óskanýtni raforku verði náð, má réttlæta það með því að virkjanirnar komi sér síðar vel til almennra þarfa, eins þótt afrennsli á landi breytist vegna minni jökla. Aðgerðir í loftslagmálum þola litla sem enga bið!
- Umdeildar vatnsafls- og varmaaflsvirkjanir eru bæði í nýtingar- og biðflokki rammaáætlunar. Með byggingu vindorkuvera má leysa umdeildustu orkukostina undan mögulegum framkvæmdum. Gallar vindorku eru staðreynd, t.d. ýmis umhverfisáhrif. Vindorkuver eru engu að síður sá orkukostur sem einna auðveldast er að afmá að mestu.
Endurheimt raforku úr orkufrekum málmiðnaði
Að lokum legg ég til að umræða um endurheimt raforku til orkuskipta úr orkufrekum málmiðnaði fari fram með víðtækum rökstuðningi þeirra sem eru með og á móti þeirri leið.
Sömuleiðis þarf að koma fram hvernig ítrasta sviðsmynd af sex (16 TWst viðbótarorka vegna útfösunar olíuvara) er fengin með orkuútreikningum. Annars vegar er um orkuinnihald rúmlega eins megatonns af jarðefnaeldsneyti að ræða og hins vegar raforku frá virkjunum er skila tilteknu rafafli sem þarf til útreiknaðar raforku við að framleiða vistvænna orkugjafa eða orkubera.
Höfundur er jarðvísindamaður og fyrrum þingmaður Vinstri grænna.