Vinnum samkvæmt vistvænni orkustefnu

Hægt er að auka afl um að minnsta kosti 500–600 MW í núverandi raforkukerfi án þess að byggja nýjar meðalstórar virkjanir frá grunni við áður óvirkjuð jökulvötn, skrifar Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG.

Auglýsing

Í nýrri orkustefnu sem ríkisstjórnin lét semja í vinnuhópi sérfræðinga og fulltrúa flokkanna á Alþingi er lögð megináhersla á þessa þætti:

- Orkuþörf samfélags er ávallt uppfyllt

- Gætt er að náttúruvernd við orkunýtingu

- Innviðir eru traustir og áfallaþolnir

- Umhverfisáhrif eru lágmörkuð

- Orkukerfið er fjölbreyttara

- Nýting orkuauðlinda er sjálfbær

- Þjóðin nýtur ávinnings af orkuauðlindunum

- Ísland er óháð jarðefnaeldsneyti

- Orkuskipti eru á landi, á hafi og í lofti

- Orkunýtni er bætt og sóun lágmörkuð

- Orkumarkaður er virkur og samkeppnishæfur

- Auðlindastraumar eru fjölnýttir

- Jafnt aðgengi að orku er um allt landið

Auglýsing

Að mínu mati eru lykilatriðin fjögur: Virkjað er í takt við orkuþörf, orkuvinnslan er sjálfbær, innviðir orkukerfisins öflugir og álfallaþolnir, og aðgengi að öruggri raforku jafnt um allt land. Stefnan setur okkur margvísleg verkefni. Þau eru skilgreind samkvæmt staðreyndum og umhverfisvænum stefnumiðum og lausnir hafðar innan þolmarka náttúru, samfélags og hagkerfisins. Miðað er við samfélagslegt eignarhald á innviðum raforkukerfisins, auk eins hagkvæmrar orkusölu til almennings og lítilla eða meðalstórra fyrirtækja og unnt er. Orkustefnan er um margt málamiðlun en vel nothæf frá sjónarhóli grænna vinstrisinna og styður við stefnumörkun um að Ísland verði kolefnishlutlaust 2040 eða fyrr.

Viðbætur án mikils rasks

Um þessar mundir er aflgeta raforkuvera nálægt 2.700 MW. Hægt er að bæta við hana einum 200–300 MW með bættu flutningskerfi og tæknilegum endurbótum á vélabúnaði vatnsaflsvirkjana. Auk þess er hægt að bæta við álíka afli með því að nýta frárennsli frá virkjunum, t.d. í Blöndu og, ásamt auknu en tímabundnu rennsli jökulvatna vegna loftslagsbreytinga og þá með viðbótarbúnaði. Það er sem sagt hægt að auka afl um a.m.k. 500–600 MW í núverandi raforkukerfi án þess að byggja nýjar meðalstórar virkjanir frá grunni við áður óvirkjuð jökulvötn.

Í varmaaflsvirkjunum er líka unnt að bæta við rafafli með tæknilegum aðferðum og stækkunum sem rúmast innan þessara afltalna, og gott betur. Stækkun jarðvarmavirkjana á Reykjanesi og við Grindavík er kleif enda eykst eftirspurn á Suðurnesjum vegna nýrra íbúa, aukinnar ferðaþjónustu, nýsköpunar og matvælaframleiðslu. Meira af heitu vatni til höfuðborgarsvæðisins, og til nota í Ölfusi og Hveragerði, mun svo fyrr en síðar, af sömu ástæðum, kalla á frekari virkjun jarðvarma innan margskipts háhitasvæðis Hengilskerfisins og lághitasvæða austan þess. Hitaveitu frá háhitasvæðum fylgir raforkuframleiðsla vegna þess að nýta ber varmauðlindina varlega og nýta sem næst alla orku og hrakstrauma til starfsemi auðlindagarða.

Tveir óvissuþættir til að taka á

Inn í þessa mynd bætast tveir nýir drættir: Möguleg virkjun djúpstæðra háhitasvæða innan núverandi virkjanasvæða á landinu (djúpborun og virkjun ofurheitra háþrýstihola) og virkjun vindafls. Á næstu árum kemur í ljós að hve miklu marki unnt er að nýta almennt djúpholur á borð við þá einu á Reykjanesi sem er “starfhæf” en höfð til rannsókna í bili. Takist það, fæst a.m.k. fimmfalt meiri orka úr hverri slíkri borholu miðað við hefðbundnar háhitaborholur. Þarna er verðugt verkefni að vinna í alþjóðlegri samvinnu.

Vindaflið er bundið sk. Rammaáætlun, ef virkjað er umfram 10 MW. Innan hennar eru tvær vindorkustöðvar Landsvirkjunar (heildarafl 300 MW). Sú staða sem nú eru uppi, þ.e. fjölmörg verkefni á borðum sveitarfélaga (flest með erlendum bakhjarli og hver aflstöð 100 til 250 MW), er fjarri öllu lagi. Norskt fyrirtæki hefur t.d. augastað á tíu svæðum á landinu. Ef svo færi að þeir væru allir nýttir undir vindaflsver bættust sennilega um 2.000 MW við rafaflið. Staðan er í engu samræmi við orkustefnuna eða nauðsynlegt heildarskipulag og utanumhald raforkuframleiðslu í landinu. Þess vegna lá í vor frammi á Alþingi, að frumkvæði VG, fyrsta skref til endurbóta: Þingsályktun og lög um svæðaskiptingu fyrir vindorku og um stýriferli verkefna. Gafst ekki tími til að ljúka vinnu við það framfaraspor. Afar brýnt er að ná utan um framvindu vindaflsvirkjana og einnig svokallaðra smávirkjana sem margar eru vatnsaflsvirkjanir, 5 til 10 MW. Flestar hafa töluverð eða veruleg umhverfisáhrif.

Orkuþörf er raunveruleg

Ágreiningur er um orkuþörfina til 2040 eða 2050. Til eru býsna áreiðanlegar spár eða mat á framvindunni. Orkuskipti í samgöngum snúast um bíla og vinnuvélar, flugvélar, báta og stærri skip og hafnirnar sjálfar, þ.e. heildarrafvæðingu, einkum stærstu hafnanna. Orkuskipti í heimilishaldi og við vöruframleiðslu og þjónustu vegast á. Sparað er með LED-lýsingu og orkuléttari tækjum þar og í framleiðsluferlum. Á móti vega fólksfjölgun í landinu og fjölgun fyrirtækja, m.a. í vaxandi matvælaframleiðslu, þjónustu, nýsköpunarverkefnum og rekstri gagnavera (þar á að forgangsraða verkefnum andstæðum bitcoin-æðinu). Við mun bætast innlend og umhverfisvæn eldsneytisframleiðsla, ýmist til brunavéla (t.d.lífdísill, metan og alkóhól) eða orkubera á borð við vetni eða ammoníak til rafvéla. Vetni mun knýja rafknúin farartæki svo sem ýmsar flugvélar, sum ökutæki og báta- eða skip. Augljóst er að hér verður unnt að framleiða vetni eða ammoníak í verulegum mæli, þó ekki væri nema fyrir innlendan markað en líka til útflutnings að vissu marki. Viljum við það?

Í orkuspá, sem unnin er á vegum Orkustofnunar, er viðbótaraflsþörf vegna íbúaþróunar og almennrar fyrirtækjastarfsemi metin til ársins 2050. Telst hún ekki fjarri 500 MW og eru orkuskipti ekki meðtalin. Orkuspáin er umdeild. Telja forsvarsmenn í atvinnugeiranum hana of lága en aðrir gagnrýna hana fyrir að vera of háa.

Hver er orkuþörfin miðað við orkuspá og orkuskipti, til 2040 eða 2050? Tölur á bilinu 1.000 til 2.000 MW eru algengar en til eru þeir sem verja hærri og lægri tölur. Brýnt er að ná fram lendingu, með samvinnu hagaðila og sérfræðinga, einfalds talnasafns sem lýtur að ólíkum sviðsmyndum og er öllum skiljanlegt. Á móti vega fyrrgreind megawött sem eru tiltölulega auðfengin án helstu nýrra virkjanaáforma og þau lækka heildartöluna.

Þriðji óvissuþátturinn er raunverulegur

Enn einn þátturinn í orkujöfnunni er óvissa um hvort og þá hvenær einhver af orkufreku málmiðjunum hættir framleiðslu. Við lokun einnar þeirra losnar um nokkur hundruð megawatta afl. Erfitt er að meta líkur á að t.d. eitthvert álveranna eða eina hrákísilver landsins, sem nýta eftirsótta græna orku, kynni að hætta framleiðslu á næstu örfáum áratugum í heimi harðnandi samkeppni um verjanlega álframleiðslu eða vegna nýrra aðferða við kísilvinnslu. Ný mengunarlítil rafskaut og niðurdæling koldíoxíðs eru líka letjandi þess að orkufreku iðjuverunum verði lokað.

Auglýsing

Fersk matvælastefna ríkisstjórnar og Alþingis og nýsköpunarstefna hennar eru afar mikilvæg leiðarljós við þróun atvinnuvega og atvinnuþátttöku í landinu, hvort sem menn aðhyllast kapítalismann eða and-kapítalískt hringrásar- og hægvaxtarhagkerfi með samfélagslegri dreifingu mjög hóflegs hagnaðar. Umræða er hafin um nýja stóriðju, einmitt á vegum VG. Útflutningsframleiðsla matvæla er ekki draumsýn, heldur veruleiki í heimi fólksfjölgunar og alvarlegra loftslagsbreytinga. Þróist samfélagið og grunnframleiðslan í þessa átt verður að afla raforku til hennar.

Forgangsröðun

Þegar orkuþörf landsins til 2040 eða 2050 er metin má fullyrða að staðhæfingar sem kalla má mýtu eða goðsögn, um að ekki sé þörf á frekari raforkuframleiðslu um (mis)langt árabil, verða að teljast vafasamar. Ljóst er, hvernig sem á er litið, að framtíðin kallar á aukna raforkuframleiðslu á næstu áratugum. Hvort sem okkur líkar betur eða verr verðum við að horfast í augu við þróunina og gera viðeigandi ráðstafanir, byggðar á staðreyndum en líka pólitískri afstöðu.

Við leysum verkefnin, að mínu mati, á hagkvæman, sjálfbæran og varkáran hátt, í takt við orkuþörfina á hverju fimm ára tímabili. Notum vind, fallvötn og jarðvarma í bland, svo unnt verði að stýra raforkukerfinu, treysta á ólíkar auðlindir og aflétta óásættanlegu álagi á ár og byggðalög, t.d. við Þjórsá og fleiri vatnsföll. Orkuöflun er tiltölulega tímafrek í undirbúningi, þ.e. bygging orkuvera og flutningskerfis, þannig að við þurfum að vera spöl á undan breyttri orkuþörf. Hún er og verður töluverð eða veruleg eftir því hvaða lýsingarorð menn vilja nota í ljósi staðreynda og stjórnmála. Þar kemur svo orkuöryggi eindregið til álita. Öruggt kerfi orkuinnviða er ákaflega mikilvægt í landi fjölþættrar náttúruvár. Flutningskerfið þarf að styrkja og gera sem öruggast, líkt og búið er að ákveða.

Slík eru verkefnin og við vinnum þau í nafni sjálfbærni sem verður að tákna að við finnum jafnvægi á milli orkuframleiðslu, orkunotkunar og umhverfisverndar. Vegna hraðra loftslagsbreytinga verðum við að setja orkuskiptin í forgang á verkefnalistanum, í a.m.k. 5 til 10 ár, án þess að missa tökin á öllu því sem þróa þarf samhliða.

Höfundur er þingmaður VG.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Steinar Frímannsson
Góð, en stundum þokukennd stefna – Umhverfisstefna Viðreisnar
Kjarninn 19. september 2021
Tugir innherjasvikamála órannsökuð þegar Fjármálaeftirlitið hætti rannsóknum
Fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins eftir hrun bankakerfisins segir sögu sína í bók sem brátt kemur út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir stór mál enn hafa verið órannsökuð þegar FME slaufaði rannsóknarteymum sínum.
Kjarninn 19. september 2021
Þegar Pia Kjærsgaard var forseti danska þingsins á árunum 2015-2019 lét hún hengja upp stóran danskan fána í þingsalnum.
Uppgjör
Árlegt flokksþing Danska þjóðarflokksins fer fram nú um helgina. Það er haldið í skugga deilna um forystu flokksins og hrapandi fylgi. Háværar raddir hafa heyrst um nauðsyn þess að skipta um formann og eitt kunnuglegt nafn heyrst æ oftar: Pia Kjærsgaard.
Kjarninn 19. september 2021
Loðfílar hafa veirð útdauðir í um tíu þúsund ár.
Ætla sér að koma loðfílum á legg innan sex ára
Fyrirtækið Colossal segir loðfíla geta reynst vel í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og ætla sér að búa þá til með því að blanda erfðaefni þeirra við frumur Asíufíls. Aðrir vísindamenn efast um ágæti verkefnisins.
Kjarninn 18. september 2021
Árni Jensson
Viðhorfskönnun Gallup – Trúmál
Kjarninn 18. september 2021
Jón Baldvin Hannibalsson
Land tækifæranna
Kjarninn 18. september 2021
Svona mun Sigurboginn líta út fram til 3. október
Sigurboginn klæddur í 25 þúsund fermetra plastklæði
Fyrsta stóra verkefni Christo og Jeanne-Claude hefur litið dagsins ljós eftir andlát Christo. Það hefur verið lengi í undirbúningi en um þúsund manns koma að uppsetningunni og kostnaður nemur rúmum tveimur milljörðum króna.
Kjarninn 18. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar