Óveðursskýin hrannast upp á vinnumarkaði þessa dagana. Þó svo kjaraviðræður séu ekki hafnar eru strax komnar fram hótanir um verkfallsátök og kröfur um viðamiklar aðgerðir ríkisstjórnar til að forða átökum. Engu að síður er að baki eitt lengsta samfellda skeið kaupmáttaraukningar frá fullveldi þjóðarinnar. Kaupmáttur hefur aukist samfellt í rúman áratug og aldrei mælst hærri. Kaupmáttur lægstu launa hefur hækkað meira en kaupmáttur meðaltekna og launastefna undanfarinna tveggja kjarasamningalota því náð fram að ganga. Hvernig má það vera að við slíkar aðstæður stefni enn eina ferðina í harðar kjaradeilur?
Formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, hefur í greinarskrifum sínum á þessum miðli, Kjarnanum, ráðist að tveimur fyrrum forsetum ASÍ og ótal öðrum samherjum sínum í verkalýðshreyfingunni fyrir svik við kjarabaráttuna. Hún, ásamt formanni VR og formanni Verkalýðsfélags Akraness, séu boðberar nýrra tíma í íslenskri verkalýðsbaráttu. Allar tilraunir til umbóta í anda hinna Norðurlandanna séu ekkert annað en svik við íslenskt launafólk.
Norðurlandameistarar – í átakahefð og óstöðugleika
Þegar horft er til síðustu áratuga eigum við Íslendingar óskorað Norðurlandamet í launahækkunum. Á sama tíma eigum við líka Norðurlandamet í verkfallsátökum, verðbólgu og gengisóstöðugleika. Við eigum endalausa hillumetra af skýrslum frá sérfræðingum, innlendum sem erlendum, í vinnumarkaðsmálum, sem ítrekað segja okkur að þessi Norðurlandamet okkar séu nátengd. Launahækkanir umfram efnahagslegt svigrúm leiði slíkan óstöðugleika af sér. Tilraunir til umbóta, svo sem SALEK, hafa þrátt fyrir þetta mistekist og núverandi forysta verkalýðshreyfingarinnar hafnar raunar alfarið þessu orsakasamhengi.
Af hverju gera hin Norðurlöndin ekki eins og við?
Hin Norðurlöndin eiga það sameiginlegt að vera hálfdrættingar á við okkur í launahækkunum síðastliðna þrjá áratugi. Þau eiga það reyndar líka sameiginlegt að hafa búið við helmingi lægri verðbólgu en við, umtalsvert lægri vexti og mun stöðugra gengi gjaldmiðla sinna á sama tíma. Engu að síður hafa tilraunir til að taka upp norrænt vinnumarkaðslíkan hér á landi beðið skipbrot hér á landi. Ný forysta verkalýðshreyfingarinnar telur norræna líkaninu allt til foráttu.
Þegar fíflunum fjölgar…
Það er raunar athyglisvert að sjá það viðhorf til íslenskrar verkalýðsbaráttu sem fram kemur í greinum Sólveigar Önnu. Tveir síðustu forsetar ASÍ eru að hennar mati ekki burðugir, enda uppaldir í verkalýðshreyfingunni. Ekki aðkomufólk líkt og hin nýja forysta. Raunar virðist öll sú mikla reynsla og þekking sem saman er komin innan Alþýðusambandsins einskis virði ef marka má greinar hennar. Reynsla starfsfólks hennar eigins stéttarfélags hlaut sama dóm og í fyrsta sinn í sögu íslenskrar stéttabaráttu greip íslenskt stéttarfélag til hópuppsagnar á eigin starfsfólki.
Stjórnvöldum virðist í engu treystandi heldur. Vinna við Grænbók um vinnumarkaðinn sem stýrt hefur verið úr forsætisráðuneytinu er litin hornauga og þátttaka ASÍ í þeirri vinnu talin svik við verkalýðshreyfinguna. Samtökum atvinnurekenda sé heldur ekki treystandi. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA hafi innleitt „mikla óbilsgirnis- og harðlínustefnu þar sem öll heiðursmannasamkomulög séu virt að vettugi“. Nú höfum við Halldór Benjamín oft á tíðum ólíkar skoðanir í pólitík en ég get ekki séð að stefna SA hafi tekið neinum stórkostlegum breytingum undir hans stjórn frá minni tíð þar eða forvera míns, Vilhjálms Egilssonar. Þegar fíflunum fjölgar um of í kringum okkur er stundum gott að líta í spegil.
Það þarf samkomulag um vinnubrögð
Ein megin ástæða þess að meiri óstöðugleiki ríkir á íslenskum vinnumarkaði í samanburði við hin Norðurlöndin er hin einfalda staðreynd að við höfum, ólíkt Noregi, Svíþjóð og Danmörku, aldrei náð samkomulagi um þau vinnubrögð sem við viljum að þar gildi. Aðilar vinnumarkaðar hafa þar samið um hinar almennu leikreglur. Hvernig skuli samið. Hvernig er svigrúm til launahækkana skilgreint. Mikilvægi þess að aðrir hópar vinnumarkaðar fylgi fordæmi þeirra hópa sem fyrstir semja, svo koma megi í veg fyrir viðvarandi víxlhækkanir launa einstakra stétta eða höfrungahlaup eins og það er gjarnan nefnt.
Nú þegar verðbólgan er í hæstu hæðum er nauðsynlegt að vinnumarkaðurinn slíðri sverðin og finni leiðir til lausnar á komandi kjarasamningum sem ekki festi verðbólguna í sessi, líkt og gerðist á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Það kostaði miklar fórnir af hálfu launafólks og atvinnulífs að vinna bug á þeirri verðbólgu með Þjóðarsáttinni og fjölmörgum sársaukafullum aðgerðum í kjölfar hennar.
Það er því sorglegt að sjá nýja forystu verkalýðshreyfingarinnar gera hverja þá tilraun sem gerð er til umbóta á vinnumarkaði að sérstöku skotmarki sínu. Orðræða minnir því miður mun meira á gamla tíma en nýja. Við þær aðstæður er ekki líklegt að við látum Norðurlandameistaratitil i óstöðugleika af hendi í bráð.
Höfundur er forstjóri í íslensku atvinnulífi, fyrrum félagsmálaráðherra og þingmaður og fyrrum framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.