Við höfum skapað okkur hliðstæðan heim á stafrænu formi. Heim sem safnar endalausum gögnum (e. data) um okkur. En við söfnum gögnunum líka sjálf. Með þessari tækniþróun hefur mannkynið skapað fleiri heimildir um sjálft sig síðustu fimm ár en árin 5000 þar á undan. Allt það merkilega. Allt það ómerkilega. Þessi gögn eyðast ekki nema kannski með einbeittum brotavilja, þau veðrast ekki eða skemmast, upplitast ekki í sólinni, rifna eða beyglast. Þau haldast óbreytt og frosin í stað og jafnvel þegar við deyjum sjálf, holdi og blóði, verðum við ennþá til á Facebook. Það er reiknað með því að árið 2050 verði fleiri dánir notendur á Facebook en lifandi.
Við sjáum þessi gögn fyrir okkur í skýi. Skýi sem er ekki til. Skýið er gagnaver og gagnaver eru risastór húsnæði uppfull af tölvubúnaði sem hýsa internetið. Knúin áfram af beisluðum náttúruöflum og blásandi út gróðurhúsalofttegundum. Þar geymist allt ruslið og kuskið, þetta sem þú myndir vanalega þurrka af hillunum heima hjá þér eða flokka í viðeigandi tunnur. Notaðir tónleikamiðar, gamlir tölvupóstar, myndir af meltum mat og liðnum sólsetrum. Öll þessi gögn krefjast orku til þess eins að vera til. Þau þvælast um í sæstrengjum, í rafmagnslínum, í fossum og vindmyllum. Gögnin virðast þyngdarlaus, ósýnileg nema í gegnum þar til gerða skjái.
Gögn í gagnaverum
Gögn eru orðin að verðmætustu eign jarðarinnar, en árið 2017 voru slík gögn fyrst talin verðmætari en olía. Gagnasöfnunin er stöðug, frá hverju skrefi sem við tökum, hverjum hlut sem við verslum, hverri vefsíðu sem við heimsækjum. Þessum upplýsingum er safnað í formi gagnapunkta (e. data point) og allir þessir gagnapunktar þarfnast hýsingar.
Allt sem við gerum á netinu hefur í för með sér losun koltvíoxíðs einhvers staðar í heiminum. Gagnaver hýsa internetið, hýsa vefsíður, gagnagrunna, gagnagnóttina, forrit, niðurhöl og svo framvegis sem gera nútímann mögulegan. Til þess að knýja þessi gagnaver þarf mikla raforku – bæði fyrir tölvurnar sjálfar og í kælibúnað sem kemur í veg fyrir að þær ofhitni.
Víða í heiminum er þessi raforka búin til með bruna jarðefnaeldsneytis eins og hráolíu og kola. Þá er talið að gagnaver séu ábyrg fyrir 0.25% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum eða því sem nemur 250.000.000 tonnum af koltvíoxíði á ári. Það jafngildir þeirri losun sem yrði til við daglegar flugferðir frá London til Hong Kong og til baka í 150 ár.
Við kaldara loftslag er minni þörf á kælingu í gagnaverum, sem leiðir til verulegs orkusparnaðar og lægri útgjalda vegna þessa. Því eru gagnaver að leita á norðlægari slóðir, meðal annars til Íslands. Orkuþörf gagnavera hérlendis vex hratt og virðist sem svo að ný gagnaver séu stöðugt í byggingu. Nú fyrir stuttu bárust til að mynda fréttir af því að bæjarstjórn Akureyrar hafi veitt vilyrði fyrir byggingu nýs gagnavers í bænum þrátt fyrir háværar umræður um yfirvofandi orkuskort í landinu.
Það sem laðar gagnaver enn fremur að Íslandi er umhverfisvæna orkan, sem virðist gjarnan aðeins hugsuð út frá hagsmunasjónarmiðum mannsins, það er orka sem losar lítið af gróðurhúsalofttegundum. Þó að endurnýjanleg orka á Íslandi sé nokkuð loftslagsvæn með tilliti til losunar, fylgja henni þó neikvæð umhverfisáhrif og því mættum við spyrja okkur: Telst orka enn þá til grænnar orku ef til þess að beisla hana þarf að virkja raunverulega náttúru og jafnvel drekkja vistkerfum í kjölfarið?
Foss fyrir foss
Raforkunotkun gagnavera á Íslandi er nú orðin meiri en raforkunotkun allra heimili landsins. Reiknað er með að í ár verði orkuþörf gagnavera 1260 gígavattstundir, en til samanburðar myndi fyrirhuguð virkjun Hvalár í Ófeigsfirði framleiða um 340 gígavattstundir á ári og má því sjá að til að knýja gagnaver landsins þyrfti tæplega fjórar Hvalárvirkjanir.
Eitt af helstu verkefnum gagnavera hérlendis er að grafa eftir rafmyntum líkt og Bitcoin. Rafmyntin er framleidd á raforku einni saman, raforku sem er nýtt í flókna útreikninga, framkvæmda af tölvum, sem mynda myntina. Tölvurnar sem framkvæma þessa vinnu hljóta í staðinn umbun í formi Bitcoin sem getur í framhaldinu skapað töluverð verðmæti, séu þessir útreikningar framkvæmdir á stórum skala, til dæmis í þar til gerðum gagnaverum.
Orkusóun er eitt af stærstu vandamálunum sem mannkynið stendur fyrir nú á tímum hamfarahlýnunar og því er ljóst að við þurfum að vera gagnrýnin á það í hvað orkan er nýtt, hvort sem það er geymsla á notuðum tónleikamiðum, gömlum tölvupóstum, myndum af hundinum okkar, áralöngum samskiptum við þau sem okkur þykir vænt um, þessari grein eða framleiðsla á rafmyntum. Hafa það í huga að plássið er ekki endalaust, óhaldbært ský heldur gagnaver knúin áfram af raunverulegri náttúru eða eins og Andri Snær Magnason komst svo vel að orði í greininni Mun Bitcoin éta alvöru íkorna í framtíðinni?: „Þegar við spyrjum okkur til hvers þau eru öll þessi gagnaver. Viltu fórna fossunum til að geyma fullt af myndum af fossum? Hvort elskarðu meira, ímyndaða peninga eða alvöru náttúruverðmæti?“
Stafrænt sorp
Það er ekki hægt að mynda orku né eyða henni, aðeins breyta mynd hennar. Þetta lögmál um orkuna er eitthvað sem ég lærði í framhaldsskóla, eða kannski grunnskóla. Það er ótrúlegt að hugsa sér að öll orka sem til er í heiminum hafi alltaf verið til, að frá upphafi heimsins hafi aldrei verið til minni orka né meiri og sennilega mun það ekki breytast. Allar gjörðir eru bundnar í orsakasamhengi við eitthvað annað. Raforka kemur, enn sem komið er, á kostnað náttúrunnar og geymsla á stafrænum gögnum, gröftur eftir Bitcoin og póstar á Instagram koma á kostnað raforku.
Ósýnilegi framkvæmdastjórinn, milligönguaðilinn milli okkar og vörunnar, hvort sem hún er haldbær hlutur eða stafrænt efni er raunveruleg náttúra, heilu vistkerfin, berg, tré, fossar og ár sem maðurinn hefur lært að beygja undir vilja sinn. Á tímum hamfarahlýnunar virðist mannkynið keppast við að greina áhrif einstakra þátta á loftslagið. Rusl hefur verið sérstaklega mikið í umræðunni, það hversu miklu við erum að henda og hvort við séum að henda því í viðeigandi tunnur. Á þessum tímum er vissulega mikilvægt að vera gagnrýnin og meðvituð um ruslið okkar, hvenær hlutir hafa gegnt sínum tilgangi og hvar þeir enda. Sama gildir um stafrænt sorp, því rusl leynist víðar en í hlutlægum veruleika. Stafrænt sorp hefur raunverulega staðsetningu og krefst sífelldrar orku til þess að vera það sem það er: sorp.
Viljum við fórna vistkerfum til að framleiða orku sem knýr risastórar stafrænar ruslatunnur? Og hversu miklum náttúruverðmætum erum við tilbúin að fórna fyrir framleiðslu á orkufrekum rafmyntum?
Kynntu þér hvað er í húfi á Íslandi. Náttúrukortið er lifandi vefsjá sem sýnir staði sem fyrirhugað er að nýta til orkuframleiðslu eða raska á annan hátt.
Höfundur er vöruhönnuður.