Oft er með naumindum að mér takist að greina á milli fávisku og útúrsnúninga af ásetningi þegar ég les eftir öðrum það sem ég veit að er rangt.
Þingkratinn Oddný Harðardóttir setur ofan í við mig á Kjarnanum í gær (18.11.´21) fyrir grein sem ég birti þar út frá buslugangi hennar á mörgum miðlum vegna fyrirhugaðrar sölu á Mílu. 15. þessa mánaðar hélt hún því fram í visi.is að ef selja ætti „útlendingum” Mílu þyrfti að minnsta kosti að tryggja það að kaupsýslumenn af ákveðnu þjóðerni yrðu ekki eigendur að fyrirtækinu. Lesandinn taki eftir því; menn af ákveðnu þjóðerni. Þessu viðhorfi hennar líkti ég við þjóðernispopúlisma og hægt að renna undir þá líkingu mörgum stoðum.
Nema hvað. Þingkonunni misbauð. Og hún svarar fyrir sig, meðal annars með þessum orðum: „Frá vinstri hef ég verið gagnrýnd af einum áhrifamanni í VG, Úlfari Þormóðssyni sem kallar mig þjóðernispopúlista og rasista hvorki meira né minna. Svo mikilvægt virðist honum finnast að salan gangi snurðulaust fyrir sig að hann veður með gífuryrðum inn á völlinn og reynir að taka þingmann niður eins harkalega og hægt er í þeirri von að fólkið taki ekki mark á varnaðarorðunum. Vonandi sér fólk í gegnum þann auma málflutning.”
En hér er leiðrétting á orðum Oddnýjar þingkrata, örlítið stytt, upp úr greininni sem hún skammast yfir:
„... ríkið á ekki Mílu. Því miður." Því miður merkir hvort tveggja að ég var andvígur sölunni á Símanum á sínum tíma og harma hana enn í dag.
Þetta segir líka í greininni.
„Nú vilja peningamennirnir selja fyrirtæki sitt, Mílu. En það er enginn íslenskur nógu viljugur til þess að borga það fullu verði." Í orðunum enginn íslenskur nógu viljugur felst að Ríkið er ekki undanskilið og skiptir engu þótt sjálfum finnist mér að hið opinbera ætti að yfirtaka Mílu og eiga hana til frambúðar. En vegna þess að það gerir það ekki lendir það í höndum útlendinga.
Léttvægri villa í grein Oddnýjar er að nefna mig áhrifamann í VG og líka að ég hafi kallað hana rasista, en það gerði ég ekki; Má vera að þar hafi sök bitið saka.
Loks skal þetta sagt; ávallt er betra að vita um hvað maður er að tala, skrifa, hjala áður en orðin eru látin laus.
Höfundur er rithöfundur.