Ósóngatið ekki stærra síðan 1991
Ósonlagið er enn götótt og á hverju hausti stækkar gatið yfir Suðurskautinu. Í haust stækkaði það meira en það hefur gert í 20 ár.
Árleg þynning ósonlagsins yfir Suðurskautinu var sú mesta síðan 1991. Gatið í ósonlaginu varð jafnframt til síðar á árinu en venjulega og var opið tveimur vikum lengur. Ósoneyðandi efni í andrúmsloftinu eiga enn sök í máli en náttúrulegir þættir eins og óvanalegir vindar í heiðhvolfinu höfðu einnig áhrif.
Í ár hvarf ósonlagið yfir Suðurskautinu nær alveg. „Í september ár hvert sjáum við venjulega mikla eyðingu ósóns, sem nær hámarki í um það bil 95 prósent eyðingu um mánaðarmótin september-október,“ er haft eftir Bryan Johnson, vísindamanni hjá Earth System Research Laboratory, á Climate Central. „Í ár hélt eyðing ósons áfram tveimur vikum lengur sem varð til þess að nær allt óson var horfið yfir suðurpólnum 15. október.“
Ósonlagið er lag ósons (O3) í heiðhvolfinu sem verður fyrir áhrifum háloftaveðurs. Ósonið hefur mikilvægu hlutverki að gegna í heiðhvolfinu því það hindrar óholla geisla sólarinnar frá því að lenda á yfirborði jarðarinnar. Í gegnum gatið sleppa því geislar sólar sem hafa til dæmis bein áhrif á stærð ísbreiðunnar á suðurskautinu.
Hvenær uppgvötuðum við gatið?
Ósongatið varð frægt um miðjan níunda áratug síðustu aldar þegar vísindamenn á suðurpólnum voru að gera rannsóknir á lofthjúpi jarðar. Fyrsta mælingin sýndi svo lítið magn ósons yfir hausunum á þeim að þeir töldu mælitækin biluð. Nokkrum mánuðum síðar bárust ný mælitæki og sýndu sömu niðurstöður: Magn ósons yfir heimskautinu var svo lítið að af því hlyti að steðja vá.
Svona segja áhugamenn um gatið á ósonlaginu söguna um hvernig þetta vandamál varð fyrst viðurkennt í fræðasamfélaginu. Aukin þynning ósonlagsins hafði verið til umræðu í um áratug áður, en aldrei höfðu fengist eins dramatískar mælingar og árið 1985.
Um svipað leyti var að verða mikil vitundarvakning um umgengni mannfólks á jörðinni. Ári eftir að sannað var að ósonlagið var götótt sprakk heill kjarnaofn í Úkraínu og mengaði gríðarstórt landsvæði svo að þar verður ekki hægt að búa næstu 600 árin. Þremur árum síðar kom í ljós að gríðarstór ruslaeyja flýtur með hafstraumum Kyrrahafsins og nú, rúmum 20 árum síðar, erum við búin að hita andrúmsloftið svo mikið að sífrerinn í norðanverðu Rússlandi er farinn að bráðna og auka á gróðurhúsaáhrifin.
Ósonlagið þynnist enn
Ljóst var að ekki væri hægt að leyfa ósoninu í heiðhvolfinu, einhverjum 15 til 30 kílómetrum yfir jörðinni, að eyðast frekar og mikil umræða spratt upp umræðu í um „ósongatið“ meðal almennings og í fjölmiðlum á tíunda áratugnum. Börnum var kennt um áhrif nútímamannsins á umhverfið í skólum og ýmis skaðleg efni voru hreinlega bönnuð með tímamótasamningi allra ríkja Sameinuðu þjóðanna árið 1989.
Lesendur Kjarnans ættu einnig að muna eftir umræðunni sem náði hámarki á tíunda áratugnum um aukna hættu á krabbameini vegna útfjólublárrar geislunar og áhrifa ósongatsins á uppistöðufæðu í sjónum. En síðan er eins og gatið á ósonlaginu, þarna yfir Suðurskautslandinu, hafi bara gufað upp. Því er kannski mál að spyrja hvað hafi eiginlega orðið um það.
Skemmst er frá því að segja að gatið er þarna enn. Undanfarin 15 ár eða svo hafa orðið gríðarlega framfarir í mælingum á ósoni í lofthjúpi jarðar. Geimferðastofnun Bandaríkjanna rannsakar gatið yfir suðurskautslandinu sérstaklega og Finnar eru orðnir leiðandi meðal Evrópuþjóða í rannsóknum á ósoni á norðurhveli jarðar. Eiga Geislavarnir íslenska ríkisins í samstarfi með Finnunum.
Ósonlagið er þó ekki jafngötótt og tætt allan ársins hring. Raunar hefur alltaf verið vitað að magn ósons er minnst við miðbaug og verður svo meira þegar nær dregur heim skautunum. Því er magn ósons yfir Íslandi yfirleitt mun meira en yfir Saharaeyðimörkinni, til dæmis.
Klórflúorkolefnum um að kenna
Gatið yfir suðurpólnum er ekki stöðugt heldur birtist það og breytist árstíðabundið. Á vordögum á suðurhveli jarðar eyðist óson mun hraðar en eðlilegt er. Alltaf þegar fyrstu haustlægðirnar ná ströndum Íslands í september fer óson lagið yfir Suðurskautslandinu að þynnast gríðarlega hratt.
Ástæða þessa er í raun einföld en til að skilja eyðingu ósons er gott að vita hvernig það verður til. Óson er nefni lega bara þrjár súrefnisfrumeindir (O3) og verður til þegar tvíatóma súrefni (O2, efnið sem við öndum að okkur og köllum alla jafna súrefni) flýtur upp í heiðhvolfið þar sem sólar geislarnir eru sterkari og ná að kljúfa atómin. Stöku atómin tengjast svo tvíatóma súrefnissameindum og mynda óson.
Kynnum þá til leiks klórflúorkolefni. Það eru efnin sem bönnuð voru í Montréalbókuninni árið 1989 og finna mátti í hárúða og ísskápum. Mikið af klórflúorkolefni flýtur enn um í lofthjúpi jarðar og safnast það jafnan saman á vetrum í kalda og dimma loftinu yfir suðurskautinu. Um leið og vorar og geislar sólar verða sterkari á suðurhvelinu kljúfa geislarnir klórflúorkolefnin. Verða þá til klórfrumeindir sem síðan stela tvíatóma súrefni sem ekki hefur klofnað. Því verður einfaldlega ekki til nýtt óson yfir suðurskautinu á vorin.
Þetta á í raun ekki aðeins við um suður hveli jarðar því hér á norðurhvelinu gætir þessara áhrifa líka. Á vetrum verður til hringstraumur í heiðhvolfinu yfir norðurskautinu vegna gróðurhúsaáhrifa og þegar heiðhvolfið kólnar niður fyrir 80°C myndast glitský, sem eru í raun ský úr ískristöllum. Klórsameindir í loftinu komast þá í snertingu við ískristallana og mynda hvarfgjarnar sameindir sem eyða að lokum ósoninu. Því kaldara sem er í heiðhvolfinu, þeim mun meira eyðist af ósoni.
Talið er að þetta ástand sé viðvarandi vegna þess að hin skaðlegu klórflúorkolefni sem sleppt var út í andrúmsloftið í miklu magni á síðari hluta 20. aldar eru enn í loftinu. Mun það taka þessi efni nokkra áratugi að brotna niður í heiðhvolfinu. Náttúran mun því á endanum laga ósonlagið fyrir okkur, sem hefði hugsanlega ekki verið hægt hefðu klórflúorkolefnin ekki verið bönnuð. Sumir vísindamenn segja að árið 2080 verði magn ósons í heiminum orðið jafn mikið og það var árið 1950.
Þessi grein er byggð á grein úr Kjarnanum í júlí 2014 sem birtist undir fyrirsögninni „Hvað varð um Ósongatið?“.