EM í fótbolta er á næsta leiti. Það ríkir mikil eftirvænting en óveðurskýin hrannast upp hjá gestgjöfunum, Frökkum. Það eru vandræði í landsliðinu. Og ekki í fyrsta sinn. Það virðist vera einhver sérstök frönsk hefð að landsliðsmenn skapi sér vandræði, rugli öllu, komi sér út úr liðinu með stælum og leiðindum. Eric Cantona, David Ginola, Franck Ribery – dæmin eru mýmörg. Bestu leikmenn Frakklands spila ekki með landsliðinu. Vegna vandræða. Hvað er þetta eiginlega? Merde. Nú er það Benzema.
Fjárkúgun og kynlífsmyndband
Einn helsti máttarstólpi franska liðins, Karim Benzema, er sakaður um að hafa tekið þátt í fjárkúgunarmáli gegn liðsfélaga sínum og vini, Mathieu Valbuena. Lögreglan rannsakar málið og líklegt þykir að ákæra verði gefin út á næstu dögum. Þetta mál er næstum því jafn skrítið og dramatískt og fjárkúgunarmálið gegn forsætisráðherra vorum.
En hér er það kynlífsmynband sem á að vera til af hinum lipra og smávaxna Vabuena. Benzema hefur játað aðild að málinu, að hafa komið þeim skilaboðum til félaga síns að ef hann greiddi ekki tiltekna upphæð yrði myndbandið gert opinbert. Ekki fylgir sögunni hvað sé að gerast í þessu forvitnilega myndbandi (það er hið ósagða sem er ávallt mest spennandi í fréttum) en Valbuena brást við eins og Sigmundur Davíð og fór með málið beint til lögreglunnar.
Benzema hefur játað að hafa farið til félaga síns og rabbað við hann um þetta meinta kynlífsmyndband á landsliðsæfingu í síðasta mánuði. Ekki er ljóst hvað beinlínis fór fram á milli þeirra; hvort þarna hafi átt sér stað hótun, kúgun, ráðgjöf. En Benzema segist hafa farið til hans í umboði gamals æskufélaga – sem vildi kúga fé úr Valbuena.
Þetta er allt saman skrítið – því þeir eru sagðir miklir vinir. Þann 17. nóvember 2010 skoruðu þeir mörkin í 2-0 sigri gegn Englandi. Í þar næstu viku mætast þessar þjóðir á ný – enginn sem lék með Frökkum í þessum leik er lengur í liðinu. Nú eru þeir báðir út úr liðinu. Benzema og Valbuena.
Það er nafni, nágranni og gamall vinur Benzema, Karim Zenati, sem virðist vera aðalsökudólgurinn í þessu fjárkúgunarmáli. Hann er margdæmdur glæpamaður og virðist hafa flækt vin sinn í þetta furðulega mál; Benzema virðist vera í vondum félagsskap - hann er sendiboðinn, kemur skilaboðum og hótunum áleiðis.
Og Valbuena fór beint í lögregluna og nú talast þeir ekki við og hata hvorn annan – tveir lykilmenn franska landsliðsins. Það er ekki víst að Benzema verði með á EM næsta sumar. Hann gæti jafnvel misst af því að horfa á keppnina því hann gæti átt yfir höfði sér fimm ára fangelsi.
Vandræðagaurinn Karim Benzema
Hvað vakir fyrir Benzema? Lykilmaður í Real Madrid, einn launahæsti leikmaður heims með tugi milljóna á mánuði. Hvers vegna er hann að blanda sér í ómerkilegt fjárkúgunarmál fyrir nokkra tíkalla – korter í stórmót? Það er eins og sagt var um annan mann:
„Þú getur tekið strákinn úr skítahverfinu en þú tekur aldrei skítahverfið úr stráknum.“
Benzema er götustrákur. Og virðist, þrátt fyrir frægð og frama, enn vera undir hælnum og líta upp til gangsteranna í gamla hverfinu. Hann er einn óvinsælasti íþróttamaður Frakklands – raunar einn óvinsælasti maður landsins. Þykir hrokafullur maður með endalausa stjörnustæla. Eftir verkfallið fræga á HM 2010 urðu franskir landsliðsmenn jafnvel óvinsælli en óvinsælustu stjórnmálamenn landins. Það sló svo botninn úr sama ár þegar Benzema ásamt þeim Franck Ribery, Sidney Govou og Hatem Ben voru ákærðir fyrir samræði við vændiskonu undir lögaldri. Ákæran var felld niður 2011 vegna þess að ekki þótti sannað að þeir hafi vitað að vændiskonan væri undir lögaldri. Þrátt fyrir það eru þessir menn enn andstyggilegir í augum marga. Skítapésar.
Eins og ríflega helmingur franska landsliðins er Benzema fæddur og uppalinn í Lyon sem virðist vera einskonar uppeldisstöð franska fótboltaheimsins. Eins og Zidane er hann af alsírsku bergi broti. Hann er innflytjandi, alinn upp í stórri fjölskyldu. Þótti undrabarn í fótbolta og var boðinn samningur við stórliðið Lyon, einungis 9 ára gömlum. Aðeins tvítugur varð hann meistari með liðinu, markahæsti maður Frakklands með 30 mörk og valinn leikmaður ársins. Þaðan gekk hann til liðs við Real Madrid á Spáni þar sem hann leikur enn. Hann var ekki með á HM 2010 en hefur verið lykilleikmaður liðsins síðan Laurent Blanc, tók við liðinu. Allt franska liðið hefur verið byggt upp í kringum Benzema.
En Benzema er ekki vinsæll. Hann er enginn Zidane. Þátt fyrir að brillera með einu besta félagsliði heims gerði hann í raun fátt eftirminnilegt á síðasta HM og nú virðist hann vera endanlega út úr hópnum. Hann hefur ekki leikið með í flestum af síðustu æfinga- og vináttulandsleikjum, verður heldur ekki með á móti Þýskalandi og Englandi í þessum mánuði.
Vandræðahefðin í franska landsliðinu
Hvað er það eiginlega með þessa vandræðagaura í franska landsliðinu? Uppreisnir og byltingar eru sannarlega stór partur af franskri sögu – en sömuleiðis franska knattspyrnuheiminum.
Frakkar urðu heimsmeistarar í knattspyrnu 1998. Þegar liðið fagnaði titlinum á Stade de France í París var þetta um leið sigur fjölmenningarinnar. Sigurinn kom beint í andlitið á Þjóðfylkingunni og rasistum sem höfðu gagnrýnt innflytjendastrákana í liðinu. Um helmingur liðins var þá með tvöfalt ríkisfang. Sigurinn sýndi því kraft fjölmenningarinnar – hið nýja Frakkland.
Liðið komst svo aftur í úrslit á HM 2006 sem endaði með einu dramatískasta atviki knattspyrnusögunnar þegar Zidane skallaði Materazzi og fékk að líta rauða spjaldið. Þetta margslungna atvik, sem á vissan hátt útskýrir spennu fjölmenningarsamfélagsins (Zidane tekur heiður fjölskyldunnar fram yfir Frakkland) og er í raun upphaf óheillasögu franska liðins. Það er eins og skalli Zidane hafi kallað bölvun yfir franska landsliðið. Liðið hefur varla náð sér á strik síðan þá.
Karim Benzema er samt ekki fyrsti vandræðagaurinn í sögu franska landsliðins. Eric Cantona, David Ginola, Franck Ribery og fleiri skipa þennan vafasama flokk. Og það er jafnan hefð að vísa þeim frá – þeir eru ekki velkomnir, sama hversu góðir þeir eru. Menn fá reisupassann fyrir vont viðmót, kjaft og stæla.
Það er t.d. sérstakt að Cantona og Ginola skuli ekki hafa verið í liðinu þegar Frakkar urðu heimsmeistarar 1998.
Eric Cantona fékk ekki að vera með á HM 1998 vegna skapofsa síns. Útslagið var svo karate-sparkið fræga á Crystal-Palace áhanganda þar sem hann fékk átta mánaða leikbann í kjölfarið. Zidane tók sæti hans í franska liðinu. Stundum virðist virka vel að reka besta manninn – þá reynir meira á allt liðið. Besti maðurinn skyggir á hina, liðið fer að treysta á hann fremur en sjálft sig. Þetta er sömuleiðis alþekkt á vinnustöðum. Reka þann besta.
David Ginola var án efa einn besti fótboltamaður Frakklands, lykilmaður í unglingalandsliðum, en fékk fá tækifæri í stóra liðinu. Hvers vegna? Margir benda á mistök hans í leik gegn Búlgörum 1993. Í þessum leik var keppt um sæti á HM 1994, Frakkar töpuðu leiknum og komust ekki á HM. Ginola gerði ævintýraleg mistök í þessum leik, brenndi af dauðafærum. Hann var kallaður morðingi franska fótboltans. Eftir það flúði hann til Englands, lék sinn síðasta leik með franska liðinu 1995. Þrátt fyrir að vera einn markahæsti og valinn besti maður ensku deildarinnar var hann ekki valinn í landsliðið sama ár. Hversu sturlað er það? Hann þótti hégómafullur, of mikil stjarna, of „enskur“ – allir eru fótgönguliðar í franska landsliðinu, allir eru jafnir. Frelsi, jafnrétti og bræðralag. Ef þú tileinkar þér ekki þessi helstu gildi lýðveldisins ertu úti.
Rétt fyrir HM 2014 var Ribery sparkað úr liðinu. Þrátt fyrir að vera langbesti leikmaðurinn. Opinbera sagan er sú að hann hafi hætt sjálfur en allir vissu að hann var rekinn fyrir stæla og leiðindi.
Æskan sem erfa mun landið
Landsliðsþjálfari Frakka, Laurent Blanc, virðist því ætla að treysta á ungu kynslóðina næsta sumar. Hann losaði sig við Ribery í fyrra. Hvorki Benzema né Valbuena verða með í vináttulandsleikjum gegn Þýskalandi og Englandi í lok þessa mánaðar og óvíst um alla framtíð þeirra. Margir telja fyrir víst að dagar Benzema með franska landsliðinu séu taldir. Yngri leikmenn eru að taka yfir. Gamlir refir hafa verið skornir.
Alexandre Lacazette, sem leikur með Lyon og var markahæsti og valinn besti maður frönsku deildarinnar á síðasta leiktímabili (skaut sjálfum Zlatan ref fyrir rass) með 27 mörk, þykir vera framtíðarmaður.
Sömuleiðis hinn 19 ára gamli liðsfélagi hans Samuel Umtiti. Nicolas Isimat-Mirin hjá Monaco er að vekja töluverða athygli, enda eins og herforingi á vellinum einungis 21 árs gamall.
En allra augu beinast nú að Antony Martial, 19 ára gömlum leikmanni Manchester United, sem oft er borinn saman við Thierry Henry og þykir nú einn efnilegasti leikmaður heims. Oliver Giroud virðist hafa tekið við stöðu Benzema og skorar í hverjum leik.
Þetta verða ef til vill lykilleikmenn franska liðsins næsta sumar. Ef ekki verða frekari vandræði og byltingar.