Alterra Power, sem áður hét Magma Energy, hefur boðið 5.350 milljónir króna í skuldabréf sem útgefið var af sænsku dótturfélagi sínu þegar félagið keypti hlut í HS Orku. Verðið sem Magma hefur boðið í skuldabréfið tekur mið af síðustu þekktu viðskiptum sem gerð voru með bréf í HS Orku, en þau fóru fram á genginu 5,35 krónur á hlut.
Um síðustu áramót var framreiknað virði bréfsins á bilinu 6,7 til 7,7 milljarðar króna, eftir því hvort miðað sé við álverðsþróun eða ekki, samkvæmt ársreikningi Reykjanesbæjar. Miðað við það verð er ljóst að Alterra er að bjóða mun lægra verð en framreiknað virði skuldabréfsins er.
Skuldabréfið er nú í eigu Fagfjárfestasjóðsins ORK sem er rekinn af Rekstrarfélagi Virðingar og er fjármagnaður af lífeyrissjóðum og fagfjárfestum. ORK keypti skuldabréfið árið 2012 af Reykjanesbæ árið 2012 og var söluverðið þá sagt 6,3 milljarða króna.
Alterra Power mun greiða fyrir skuldabréfið með nýju skuldabréfi til tólf ára að verðmæti 5.350 milljónir króna. Skuldabréfið verður í bandaríkjadölum. Vextir skuldabréfsins verða 5,5 prósent og það verður tryggt með veði í 21,7 prósent hlut í HS Orku. Alls á Alterra 66,6 prósent hlut í orkufyrirtækinu á móti félaginu Jarðvarma slhf., sem er í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða.
ORK-sjóðurinn þarf hins vegar að óska eftir afstöðu Reykjanesbæjar til tilboðsins áður en því er tekið. Ástæðan er sú að skuldabréfið var upphaflega notað sem gjald fyrir hlut í HS Orku sem rann til Reykjanesbæjar þegar hlutur sveitafélagsins var seldur til Geysis Green Energy og síðar Magma Energy (nú Alterra Power). Reykjanesbær seldi síðan skuldabréfið til ORK í ágúst 2012.
Í frétt á vef sveitarfélagsins vegna þessa var sagt að söluverðið, 6,3 milljarða króna, myndi skiptast þannig að ORK greiddi strax 3,5 milljarða króna í peningum og um 500 milljónir króna í markaðsskuldabréfum. Auk þess kom fram í samkomulagi milli kaupanda og seljanda að lokagreiðsla ætti að fara fram í október 2017, þegar skuldabréfið væri á gjalddaga.
Virði þessarrar kröfu, sem er ein helsta eign Reykjanesbæjar, hefur hríðlækkað síðan að þetta samkomulag var gert.
Skelfileg skuldastaða Reykjanesbæjar
Reykjanesbær er eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins og rekstur þess undanfarin ár hefur verið afleitur. Á tímabilinu 2003 til 2014 var A-hluti Reykjanesbæjar rekinn í tapi öll árin utan eins, það var árið 2010.
Í lok síðasta árs skuldaði það 41 milljarð króna og skuldirnar voru
rúmlega 250 prósent af reglulegum tekjum sveitarfélagsins en samkvæmt
sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2012 þá er leyfilegt skuldahlutfall að
hámarki 150 prósent. Skuldastaða Reykjanesbæjar er því beinlínis í andstöðu
við lög.
Í október síðastliðnum sendi sveitarfélagið tilkynningu til Kauphallar Íslands þar sem sagði að nauðsynlegt væri að það næði samkomulagi við „helstu kröfuhafa um verulega niðurfellingu skulda[...]Náist ekki samningar við kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu bæjarfélagsins og stofnana þess verður samkvæmt sveitastjórnarlögum óskað eftir því að bæjarfélaginu verði skipuð fjárhagsstjórn“.
Reykjanesbær seldi frá sér flestar eignir sínar á síðasta rúma áratug. Á meðal þeirra eigna sem sveitarfélagið hefur selt er eignarhlutur í HS Orka og HS veitum auk þess sem fasteignir þess voru seldar inn í Eignarhaldsfélagið Fasteign. Samhliða gekkst Reykjanesbær í ábyrg fyrir milljarða króna uppbyggingu hafnar í Helguvík. Höfnin hefur aldrei skilað þeim tekjum sem hún átti að gera og hvorki Reykjaneshöfn né Reykjanesbær ráða við afborganir af lánum vegna hennar.
Virði kröfunar lækkað mikið
Ein helsta eign Reykjanesbæjar er krafa á Fagfjárfestasjóðinn ORK vegna Magma-skuldabréfsins, sem selt var til hans árið 2012. Í ársreikningi sveitarfélagsins vegna ársins 2014 vekur endurskoðandi þess athygli á að óvissa sé um virði þeirrar langtímakröfu. Í skýringum reikningsins segir að áætlaðar eftirstöðvar stöluverðsins hafi verið 1.970 milljónir króna um síðustu áramót. Þar kemur hins vegar fram að mikil óvissa ríki um hvert endanlegt virði kröfunnar sé, m.a. vegna álverðsþróunar. Því var krafan færð niður um 637 milljónir króna og eftirstöðvar hennar bókfærðar á 1.333 milljónir króna. Í langtímaáætlun Reykjanesbæjar er gert ráð fyrir að bókfært virði kröfunnar fáist greitt á gjalddaga þann 1. október 2017
Í greiningu sem KPMG gerði fyrir um ári á fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar sagði að líklega væri erfitt að selja kröfuna nema með miklum afföllum „vegna þeirrar óvissu sem er um verðmæti þess, enda hefur skuldabréfið sjálft verði selt til ORK og eftir stendur krafa sem tekur mið af endanlegu uppgjöri skuldabréfsins“.