Þótt margir Danir vilji kannski helst af öllu gleyma landsleik Dana og Svía sl. þriðjudag sem fyrst markaði leikurinn, eða betur sagt úrslit hans, tímamót í danskri knattspyrnusögu. Úrslitin (2-2) þýddu að Svíar taka þátt í Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu sem fram fer í Frakklandi á næsta ári en Danir sitja heima. Að leik loknum tilkynnti Morten Olsen landsliðsþjálfari Dana að hann væri hættur störfum, en samningur hans var annars í gildi fram yfir Evrópumeistaramótið. Þótt það þyki iðulega ekki sérlega fréttnæmt, enda nánast daglegt brauð, að knattspyrnuþjálfari taki pokann sinn gegnir öðru máli þegar Morten Olsen á í hlut. Nafn hans hefur verið samofið danskri knattspyrnusögu um áratugaskeið.
Byrjaði kornungur í boltanum
Morten Olsen er fæddur í smábænum Vordingborg á Sjálandi 14. ágúst 1949. Í þessum smábæ var á þeim tíma eitt knattspyrnufélag, Vordingborg IF, stofnað 1904. Vordingborg IF var í upphafi alhliða íþróttafélag en klofnaði síðar upp í ýmis sérfélög, knattspyrnudeildin varð sjálfstætt félag árið 1946. Morten Olsen var átta ára þegar hann fór að mæta á fótboltaæfingar hjá liðinu. Fljótlega kom í ljós að strákurinn hafði „þetta í sér“ eins og einn af þjálfurum drengjaflokkanna komst að orði. Morten Olsen spilaði með Vordingborg IF til ársins 1969. Félagið var hreinræktað áhugamannafélag, leikmenn sem flestir voru ungir og óreyndir stunduðu nám eða vinnu á daginn en reimuðu á sig skóna á kvöldin. Morten Olsen hefur í viðtölum sagt að hann hafi ekki verið nein „háskólatýpa“, en hann lærði að verða málningarkaupmaður, sem á þeim tíma var tveggja til þriggja ára nám, bóklegt að hluta en að mestu leyti starfsnám. Morten Olsen þótti á þessum árum efnilegur fimleikamaður, og tók þátt í mótum, en valdi að lokum knattspyrnuna.
B 1901- Cercle Brugge - Racing White – Anderlecht – FC Köln
Árið 1970 gekk Morten Olsen til liðs við knattspyrnufélagið B 1901 (Nyköbing Falster Boldklub af 1901). Þarna kynntist Morten Olsen í fyrsta skipti, að eigin sögn, alvöruþjálfara. Sá var Kurt „Nikkelaj“ Nielsen sem seinna varð þjálfari danska landsliðsins. Þetta sama ár lék Morten Olsen sinn fyrsta landsleik, liðið var skipað leikmönnum 21 árs og yngri.
Árið 1972 bauðst Morten Olsen samningur hjá belgíska knattspyrnuliðinu Cercle Brugge. Þetta lið sem var stofnað 1899 hafði átt misjöfnu gengi að fagna, meðal annars lent í mútumáli. Árið 1965 hafði Belginn Urbain Braems tekið við liðinu og sett sér það markmið að koma liðinu í fremstu röð í Belgíu, sem honum tókst. Eitt af síðustu verkum hans hjá Cercle Brugge var að ráða ljóshærða Danann, eins og Belgar kölluðu Morten Olsen, til liðsins. En þeir voru fleiri sem fylgdust með Dananum sem allan sinn feril spilaði stöðu sóknartengiliðs. Belgíska félagið Racing White í Molenbeek bauð honum samning árið 1976, en þetta lið var þá í hópi þeirra bestu í Belgíu.
Eftir fjögur ár þar (1980) lá leiðin til Anderlecht og á þeim sex árum sem Morten Olsen lék með liðinu varð það þrisvar sinnum belgíumeistari. Loks lá leiðin til Þýskalands, til Kölnar. Hjá FC Köln var Morten Olsen í þrjú ár og lauk leikmannsferlinum þar árið 1989 þá orðinn fertugur. Hann hafði þá jafnframt leikið 102 landsleiki fyrir Danmörku og 5 til viðbótar fyrir landsliðið 21 árs og yngri. Hann var í tvígang kjörinn knattspyrnumaður ársins í Danmörku, 1983 og 1986. Í rökstuðningi fyrir vali hans í bæði skiptin var tekið fram að styrkur hans væri hlutverk varnarstjórnandans og jafnframt það að byggja upp sóknarleikinn.
Hann var jafnframt fyrirliði danska landsliðsins árum saman og hægri hönd þjálfarans þau ellefu ár (1979 -1990) sem Sepp Piontek stjórnaði landsliðinu og kom því á kortið, eins og það er kallað. Piontek hafði byggt upp liðið sem vann Evrópumeistaratitilinn árið 1992, þótt hann væri þá hættur sem þjálfari liðsins og Richard Møller Nielsen tekinn við.
Takkaskórnir á hilluna og þjálfaraskórnir dregnir fram
Árið 1989 var ferill Mortens Olsens sem knattspyrnumanns á enda en það þýddi ekki að afskiptum hans af íþróttinni væri lokið. Öðru nær. Sama árið og atvinnumannsferlinum lauk var Morten Olsen ráðinn þjálfari danska knattspyrnuliðsins Bröndby IF. Þar var hann í þrjú ár en fór þá til FC Köln, þar sem hann þekkti vel til. Á árunum 1997 og 1998 var hann þjálfari hollenska liðsins Ajax.
Fimmtán ár með landsliðið
Árið 2000 var Morten Olsen ráðinn landsliðsþjálfari Danmerkur. Hann hefur í viðtölum sagt að öll árin sem leikmaður og síðar þjálfari hafi í raun verið undirbúningur þess að taka að sér starf landsliðsþjálfara. Reyndar hafði hann ekki ætlað sér að vera svona lengi í þessu starfi, 8. nóvember 2010 tilkynnti hann að hann myndi láta af störfum eftir Evrópumeistaramótið 2012. Ári síðar, þegar danska liðið hafði áunnið sér rétt til þáttöku í Evrópumeistaramótinu var samningur hans framlengdur til 2014, fram yfir heimsmeistaramótið það ár. Dönum tókst ekki að vinna sér sæti í lokakeppninni en samið var um að Morten Olsen yrði þjálfari landsliðsins fram yfir Evrópumeistaramótið árið 2016. Síðastliðið þriðjudagskvöld, þegar fyrir lá að Danir yrðu ekki með á því móti tilkynnti Morten Olsen að hann væri hættur, leikurinn gegn Svíum, sem lauk með jafntefli, hefði verið sá síðasti undir sinni stjórn.
Alls urðu landsleikir Dana undir hans stjórn 166 talsins og sem leikmaður urðu landsleikirnir 102 eins og áður er getið. Hann mun vera eini maðurinn í heiminum sem hefur náð 100 leikjum, annars vegar sem leikmaður og hins vegar sem þjálfari. Morten Olsen er einn þriggja þjálfara sem tekist hefur að koma danska landsliðinu í lokakeppni heimsmeistarakeppninnar, það var árið 2010. Hinir eru þeir Sepp Piontek árið 1986 og Bo Johansson árið 1998.
Þrátt fyrir að á þessum fimmtán árum sem Morten Olsen hefur stjórnað landsliðinu hafi ekki alltaf allt gengið að óskum hefur nær allan tímann ríkt sátt um störf hans. Stjórn danska knattspyrnusambandsins hefur ætíð stutt hann í einu og öllu enda hefur Morten Olsen ætíð sagt að hann myndi hætta samstundis ef henn teldi sig ekki hafa stuðning allra stjórnarmanna. Hann hefur líka alla tíð notið virðingar leikmannanna og undanfarna daga hafa bæði eldri og yngri landsliðsmenn tjáð sig um þjálfarann og persónuna Morten Olsen. Nær allir hrósa honum í hástert. Einn af blaðamönnum Politiken sagði í umfjöllun sinni um þjálfarann að einhverjir „sófasérfræðingar“ teldu ugglaust að Morten Olsen hefði átt að vera hættur fyrir löngu. „Þeir vita nú alltaf best“ bætti blaðamaðurinn við.
Og hvað nú?
Þessari spurningu varpaði einn fréttamaður fram á fundinum þegar Morten Olsen tilkynnti afsögn sína. „Ætlarðu að halda áfram að þjálfa?“ Morten Olsen svaraði þessu ekki beint en sagði að eiginkonan Mireille, sem er belgísk, hefði neitunarvald í öllum málum.
Þau Mireille og Morten búa í Beersel, skammt frá Brussel. Með hænsn í garðinum en Morten Olsen veit fátt skemmtilegra, fyrir utan fótboltann, en snúast í kringum púturnar og fylgjast með þeirra daglega amstri, sem að mestu snýst um að finna eitthvað gott í gogginn. Hirtir og endur leggja líka leið sína í garðinn hjónunum til mikillar ánægju.
Þau eiga líka íbúðarhús í Vordingborg á Sjálandi, fæðingarbæ Mortens, og dvelja þar oft á tíðum.
Morten Olsen er 66 ára. Á þeim aldri horfa margir til rólegri daga og minni vinnu. Hvað þjálfarinn fyrrverandi tekur sér fyrir hendur veit enginn. Hann fær örugglega mörg atvinnutilboð en eins og hann sagði, frúin ræður. Ef hún hristir höfuðið þegar bóndinn minnist á slíkt nær það ekki lengra og hann getur ótruflaður áfram fylgst með fiðurfénu í garðinum.
Til viðbótar:
- Morten Olsen talar fimm tungumál: dönsku, þýsku, ensku, flæmsku og frönsku.
- Hann er mikill áhugamaður um fugla.
- Hann er heiðursborgari Vordingborgar og gatan sem liggur að íþróttavelli bæjarins ber nafn hans: Morten Olsens Allé.
- Hann er heyrnardaufur (sem getur að hans sögn stundum komið sér vel) og er „heiðursendiherra“ danska heyrnartækjaframleiðandans Widex.
- Unnusta hans, Marianne Kristien Egeberg, hvarf sumarið 1978 þegar hún var farþegi á ferjunni sem siglir milli Gedser og Travemünde. Hún hefur ekki fundist.