Fjöldi Íslendinga sem þiggja SU-styrk frá danska ríkinu hefur tvöfaldast á innan við tíu árum. Árið 2006 fengu 588 Íslendingar SU-styrk (Statens Uddannelsesstøtte) í einn til tólf mánuði. Á árinu 2014 fengu 1.084 Íslendingar slíkan styrk í einn til tólf mánuði og það sem af er árinu 2015 hafa 1.114 Íslendingar fengið styrkin í einn til níu mánuði. Þetta kemur fram í svari Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Ef allir íslensku námsmennirnir sem þiggja SU-styrk fá fullan slíkan styrk þá er danska ríkið að greiða um 1,5 milljarð króna í styrki til íslenskra námsmanna á ári.
109 þúsund krónur á mánuði
Morgunblaðið greindi frá því fyrir tveimur vikum síðan að LÍN hefði borist töluvert færri umsóknir um námslán fyrir skólaárið 2015-2016 en skólaárið á undan. Þar var haft eftir Hrafnhildi Ástu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra LÍN, að engin einhlít skýring væri á þessari fækkun. Ein væri sú að áhrif efnahagshrunsins væru að minnka, en í kjölfar þess voru atvinnulausir á Íslandi hvattir af stjórnvöldum til að fara frekar í nán en að vera á atvinnuleysisbótum. Auk þess væri íslenskum SU-styrkþegum í Danmörku að fjölga stöðugt, en þeir sem þiggja slíkan styrk geta ekki fengið námslán frá LÍN ofan á styrkin.
SU-styrkurinn er sem stendur allt að 5.753 danskar krónur á mánuði, eða um 109 þúsund íslenskar krónur á mánuði. Hann þarf ekki að endurgreiða.
Uppfylla þarf ákveðin skilyrði
SU er fjárhagsaðstoð frá danska ríkinu. Uppfylla þarf ákveðin skilyrði til að eiga rétt á SU-styrk. Námsmaður sem þiggur slíkan þarf til að mynda að vera á ákveðnum aldri, námið sem hann stundar þarf að vera viðurkennt sem styrkhæft, viðkomandi þarf að vera danskur ríkisborgari og virkur í námi.
Undantekningar eru frá þessum skilyrðum, og þær hafa fjölmargir Íslendingar nýtt sér í gegnum tíðina. Erlendir ríkisborgarar geta nefnilega átt rétt á SU-styrknum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Hægt er að lesa um þau hér, en á meðal þeirra eru að viðkomandi sé ríkisborgari lands sem tilheyrir Evrópska efnahagssvæðinu, starfi í Danmörku í 10-12 klukkustundir á viku, hafi búið þar í fimm ár hið minnsta, sé giftur eða í skráðri sambúð með dönskum ríkisborgara eða hafi flutt til Danmerkur með foreldrum sínum.
Það er hins vegar hægt að sækja um frekari framfærslu frá SU sem er í formi láns sem þarf að endurgreiða danska ríkinu.
Fjöldin hefur tvöfaldast
Kjarninn óskaði eftir yfirliti frá LÍN um þann fjölda íslenskra ríkisborgara sem hefur fengið SU á tímabilinu 2003 til 2015. Árið 2003 fengu 464 Íslendingar styrkin í einn til níu mánuði. Þremur árum síðar, árið 2006, fengu 588 Íslendingar hann í einn til tólf mánuði. Sá fjöldi hélst nokkuð stöðufgur fram á árið 2012 þegar styrkþegarnir voru orðnir 909. Árið 2013 fór fjöldi þeirra Íslendinga sem þáðu SU-styrk í einn til tólf mánuði í fyrsta sinn yfir eitt þúsund, þegar þeir voru 1.015. Sú þróun hélt síðan áfram árið 2014, þegar þeir voru 1.084, og það sem af er þessu ári þegar 1.114 Íslendingar hafa þegið SU-styrk í einn til níu mánuði.
Ef allir íslensku námsmennirnir sem þiggja SU-styrk eru að fá fullan styrk þá er danska ríkið að styrkja þá um 121,3 milljónir króna á mánuði, eða um 1,5 milljarða króna á ári. Vert er að taka fram að Kjarninn hefur ekki upplýsingar um hvort að allir íslensku styrkþegarnir fái fullan SU-styrk.