Rússar munu að óbreyttu ekki fá að taka þátt í frjálsum íþróttum á ólympíuleikunum í Rio de Janeiro á næsta ári. Ung hjón hafa komið fram með innanbúðarupplýsingar um víðtæka lyfjanotkun og yfirhylmingu. Er loksins verið að skera upp herör gegn þessum mikla vágest sem hefur hrjáð íþróttagreinina um áratuga skeið?
Uppljóstrunin
Þann 26. febrúar árið 2013 fann Alþjóða frjálsíþróttasambandið (IAAF) hlaupakonuna Yuliyu Stepanov seka um lyfjamisnotkun og dæmdi hana í keppnisbann. Yuliya og eiginmaður hennar Vitaliy leituðu þá til Alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunarinnar (WADA) þar sem þau lýstu víðtæku samsæri innan rússneska frjálsíþróttasambandsins. Vitaliy vann einmitt hjá rússnesku lyfjaeftirlitsstofnuninni. Þau voru ekki tekin alvarlega hjá WADA þannig að þau höfðu samband við þýska fjölmiðlamanninn Hajo Seppelt sem hefur sérhæft sig í umfjöllun um lyfjamisferli í íþróttum.
Hann hitti þau í Rússlandi og tók þar upp heimildarmyndina Geheimsache Doping: Wie Russland seine Sieger macht (Leyndarmál dópsins: Hvernig Rússland býr til meistara) sem sýnd var á þýsku sjónvarpsstöðinni ARD í desember árið 2014. Í myndinni er því lýst hvernig íþróttafólkið notar lyf að ráði þjálfara sinna sem ásamt embættismönnum og öðrum starfsmönnum hylma yfir athæfið. Keppendur neyðast hálfpartinn til þess að nota lyf því að annars fá þeir ekki aðgang að bestu þjálfurunum og bestu aðstöðunni. Mútur og spilling koma einnig við sögu.
Myndin fékk mikla athygli og þá tóku ráðamenn WADA loks við sér. Nefnd var stofnuð, leidd af norska sérfræðingnum Rune Anderson, og rannsókn hafin á athæfinu. Skýrsla þeirrar nefndar var kynnt 9. nóvember síðastliðinn þar sem tekið var undir ásakanir Stepanov-hjónanna. Lyfjamisferli og yfirhylming hefur átt sér stað um áraraðir og það gæti vel hafa haft áhrif á úrslit ólympíuleikanna í London 2012. Í kjölfarið kallaði Sebastien Coe forseti IAAF til atkvæðagreiðslu og það var samþykkt með 22 atkvæði gegn 1 að banna Rússa frá öllum alþjóðlegum keppnum þangað til þeir hefðu tekið til hjá sér. Fimm manna nefnd var svo komið á fót til þess að fylgjast með og meta hvenær Rússar fá aftur að taka þátt á mótum.
Þetta þýðir að alls er óvíst hvort Rússar fái að taka þátt á næstu ólympíuleikum. Nánast öruggt þykir að Rússar missi heimsmeistaramót unglinga, sem halda átti í borginni Kazan á næsta ári.
Viðbrögðin
Viðbrögð stjórnvalda í Rússlandi voru að venju snörp og hvöss og það flugu ásakanir um pólitískt samsæri Vesturveldanna. Það heyrðust meira að segja raddir um að Rússar myndu alfarið sniðganga ólympíuleikana í Ríó. Síðan hafa öldurnar aðeins lægt. Vitaly Mutko, íþróttamálaráðherra Rússlands, kvartar yfir brottrekstrinum sem hann kallar virkilega ósanngjarnan en segir jafnframt að Rússar muni gera hvað sem er til að fá að taka þátt á ólympíuleikunum. Hann segir að þær skipanir komi að ofan frá sjálfum Vladimír Pútín um að Rússar muni vinna með IAAF og WADA. Viðbrögðin hafa verið enn harðari frá rússnesku frjálsíþróttafólki. Hlaupakonurnar Kristina Ugarova og Tatyana Myazina hyggjast kæra bæði Stepanov hjónin og ARD sjónvarpsstöðina fyrir rógburð.
Ugarova og Myazina eru meðal þeirra íþróttamanna sem fjallað er um í skýrslu Andersens þar sem lagt er til að þær fái lífstíðarbann frá íþróttinni. Raddupptökur sem Yuliya Stepanov tók og voru notaðar í mynd Seppelts voru meðal annars af þeim. Þær segjast þó ekki hafa verið að tala um ólögleg efni heldur vítamín, amínósýrur o.fl. Ugarova ýjar einnig að því að ásakanirnar séu pólitískt samsæri. „Stepanov á vini í Ameríku, og okkur grunar að þau [hjónin] hafi verið ráðin sem útsendarar. Þau bjuggu þar lengi. Af hverju fer stúlka allt í einu að ásaka þjóð sína?“
Ein frægasta frjálsíþróttakona heims, stangastökkvarinn Yelena Isinbayeva, er einnig myrk í máli. Hún segir bannið ósanngjarnt og biðlar til IAAF að banna einungis þá sem hafa svindlað en ekki allt liðið. Stepanov hjónin gerðu sér fullkomlega grein fyrir því að líf þeirra yrði óbærilegt í Rússlandi í kjölfar sjónvarpsútsendingarinnar. Þau hafa nú flúið til Kanada og beðið um pólitískt hæli þar í landi.
Gamalt vandamál
Lyfjamisnotkun hefur verið vandamál í frjálsum íþróttum um áratuga skeið. Frjálsar eru líkt og t.d. hjólreiðar, lyftingar o.fl. einföld grein þar sem notkun lyfja getur haft mikil áhrif á úrslit. Lyfjamisnotkun hefur verið síður áberandi í flóknari íþróttagreinum þar sem færni og tækni skipta meira máli. Í sumum íþróttagreinum eins og körfuknattleik, fimleikum, badminton o.fl., getur lyfjanotkun meira að segja verið hamlandi fyrir keppendur vegna þyngdaraukningar. Frjálsar íþróttir eiga því meira undir því að eftirlit sé gott.
Mörg tilfelli hafa komið upp á seinustu árum, meira að segja hjá heimsfrægum og margverðlaunuðum keppendum. Marion Jones, sem vann þrjú gullverðlaun og tvö brons, í hlaupagreinum og langstökki á ólympíuleikunum í Sydney árið 2000, var dæmd fyrir steranotkun árið 2007. Hún missti öll verðlaunin og var einnig dæmd til fangelsisvistar fyrir meinsæri. Tyson Gay, fyrrum heimsmeistari í spretthlaupi féll á lyfjaprófi árið 2013 og var dæmdur í eins árs keppnisbann. Asafa Powell fyrrum heimsmethafi í 100 metra hlaupi féll einnig á lyfjaprófi á sama tíma. Við erum að horfa upp á afturhvarf til áttunda og níunda áratugar seinustu aldar þegar lyfjanotkun í frjálsum íþróttum var geigvænleg.
Þekktasta dæmið eru úrslit 100 metra hlaupsins á ólympíuleikunum 1988 í Seoul, sem kallað hefur verið óhreina hlaupið. Sigurvegarinn Ben Johnson var sviptur gullinu fyrir steranotkun en í raun voru aðeins tveir keppendur, Calvin Smith og Robson da Silva, sem ekki féllu á lyfjaprófi einhvern tímann á ferli sínum. Meðal keppenda voru stórsjörnurnar Carl Lewis og Linford Christie. Árið 1928 varð IAAF fyrst allra íþróttasambanda til þess að banna notkun getuaukandi lyfja. Meðvitundin hefur því verið lengi til staðar innan greinarinnar. Engu að síður hafa hin ýmsu frjálsíþróttasambönd og aðrir eftirlitsaðilar oft kosið að líta framhjá þessum vanda, bæði vegna spillingar og til að vernda ímynd sína.
Hreinsun
Vandamálin sem fylgja lyfjanotkuninni eru gríðarleg og þau má alls ekki vanmeta.
Í fyrsta lagi eru það heilsufarslegu vandamálin sem hljótast af því að sprauta sig með efnum sem mörg hver eru ólögleg og lítið rannsökuð. Alvarlegustu dæmin koma frá Austur-Þýskalandi þar sem íþróttafólk sem keppti fyrir landið á áttunda og níunda áratugnum hefur mátt þola miklar líkamlegar afleiðingar af kerfisbundinni steranotkun sem fór að miklu leyti fram án þeirrar vitundar. Kúluvarparinn Heidi Krieger neyddist til að breyta um kyn eftir miklar hormónaraskanir.
Börn íþróttafólksins hafa mörg hver fæðst andvana eða þá líkamlega eða andlega fötluð. Lyfjanotkunin getur einnig valdið dauða og t.a.m. liggur grunur á því að bandaríska spretthlaupastjarnan Florence Griffith Joyner sem vann þrenn gullverðlaun á ólympíuleikum hafi látist vegna steranotkunar.
Í öðru lagi eru það menningin. Ef það viðgengst að íþróttafólk noti lyf og eftirlitsaðilar líti framhjá því þá verður það að sjálfsögðum hlut. Ef börn alast upp við það að hetjurnar þeirra noti lyf sjá þau að það sé eina leiðin til að ná árangri í íþróttum og geta sjálf leiðst inn á þá braut.
Í þriðja lagi er það svo heilindi íþróttarinnar sem er sennilega mikilvægasti punkturinn. Íþróttahugsjónin byggir á heilbrigði og sanngirni. Ef fólk getur ekki treyst úrslitum er sú hugsjón algerlega fyrir bý. Margt er hægt að segja um aðgerðir IAAF og WADA nú og að einhverju leyti er gagnrýni Rússa skiljanleg.
Lyfjanotkun
hefur verið landlægt vandamál hjá flestum þjóðum í langan tíma og hin ýmsu
frjálsíþróttasambönd og jafnvel IAAF hafa oft gerst sek. Sebastian Coe er
nýtekinn við forsæti IAAF og ákvörðunin er fordæmalaus. Þjóðir hafa verið
bannaðar áður en Rússland er fyrsta þjóðin sem bönnuð er fyrir lyfjamisferli. Í
skýrslunni er einnig tekið fram að vandamálið sé ekki eingöngu bundið við
Rússland og ekki eingöngu við frjálsar íþróttir. Hér er því verið að skapa ákveðið fordæmi. Hvert framhaldið verður mun koma í
ljós en hinn nýji forseti IAAF virðist vera að draga línu í sandinn gegn þessari
miklu meinsemd eftir þessa að eigin sögn „skammarlegu uppvöknun“.