Þótt rúmlega fjögur hundruð ár séu síðan ein af persónum Williams Shakespeare í leikritinu um Hamlet Danaprins mælti ofangreind orð hafa danskir fjölmiðlar oft rifjað þau upp að undanförnu. Sú upprifjun tengist þó hvorki Krónborgarkastala (sögusviði leikritsins) né fjölskyldu Margrétar Þórhildar. Danskir stjórnmálamenn eru ástæðan. Fréttir af alls kyns klúðri þeirra hafa nánast verið daglegt brauð í dönskum fjölmiðlum um nokkurra ára skeið og virðast engan enda ætla að taka.
Danskir fjölmiðlar eru yfirleitt mjög aðgangsharðir og gagnrýnir í garð stjórnmálamanna sem þeir tala iðulega um sem þjóna fólksins. Pólitíkusarnir eru dregnir yfir naglabrettið dag eftir dag ef fjölmiðlar komast á snoðir um að þeir hafi misnotað sjóði flokksins, sveitarfélagsins eða ríkisins, í eigin þágu eða vina og fjölskyldu. Frásagnir af bjókollu á barnum og hvort hinn eða þessi stjórnmálamaðurinn hafi sést í slagtogi með þessum eða hinum að kvöldlagi er fyrst og fremst umfjöllunarefni Se og Hör og skyldra blaða, dagblöðin og fréttamiðlarnir hafa minni áhuga fyrir slíku.
Lars Lökke er skandalakóngurinn
Núverandi forsætisráðherra Dana, Lars Lökke Rasmussen hefur margoft hlotið þann vafasama heiður að vera útnefndur skandalakonungur Danmerkur.
Árið 2008 var það dregið fram í dagsljósið að bókhaldið hjá Lars Lökke Rasmussen var losaralegt í meira lagi og hann hafði sem framámaður í sveitastjórnamálum og síðar sem innanríkis- og heilbrigðisráðherra látið ríki og sveitarfélög borga fyrir sig reikninga á veitingastöðum og hótelgistingu sem ekki tengdist störfum hans og ennfremur sígarettur. Upphæðin sem um var að ræða nam um 20 þúsundum danskra króna, um það bil 380 þúsundum íslenskum.
Þetta var hinsvegar bara byrjunin.
Eru nærbuxur vinnufatnaður?
Þetta var fyrirsögn í Ekstra Bladet í byrjun maí 2014. Þá hafði blaðið komist yfir reikninga sem sýndu að Venstre, flokkur Lars Lökke hafði borgað föt fyrir formanninn. Upphæðin á þessum fatareikningum samsvaraði rúmum þremur milljónum íslenskra króna. Níu jakkafatasett, 28 skyrtur, átta nærbuxur (vandaðar, sagði blaðið) og fleira. Flokkurinn hafði ennfremur pungað út stórfé vegna hreingerninga á reykmettuðum hótelherbergjum. Lars Lökke hafði ekki tekið mark á því að reykingar væru bannaðar á herbergjum þar sem hann gisti. Það var spaugilegt að heyra útskýringar nokkurra forystumanna flokksins á þessum málum. Sérstakur vinnufatnaður, útigallar og þess háttar er ekki skattskyldur en öðru máli gegnir um annan fatnað. Sören Pind, einum dyggasta stuðningsmanni Lökke og núverandi dómsmálaráðherra, vafðist tunga um tönn þegar hann var spurður að því í beinni sjónvarpsútsendinguu hvort nærbuxur teldust vinnufatnaður. Danska þjóðin fylgdist með þessu öllu saman og grínistar kunnu sannarlega að gera sér mat úr þessu fatakaupamáli.
Reykingaklefinn
Ekki vakti það síður athygli þegar fram kom að eftir að Lars Lökke varð forsætisráðherra árið 2009 lét hann innrétta svokallaðan reykingaklefa í forsætisráðuneytinu fyrir jafngildi 3.5. milljóna íslenskra. Sem ráðuneytið borgaði. Þegar það mál komst í hámæli ákvað Lars Lökke sjálfur að borga klefann en svo var það á endanum Venstre flokkurinn sem borgaði. Grín var að því gert þegar einn af forystumönnum flokksins býsnaðist yfir græðginni í þeim sem seldi umræddan klefa.
Stóra flugmiðamálið
Árið 2013 var mikið fjölmiðlafár vegna þess að samtök um loftslagsmál sem Lars Lökke var í formennsku fyrir (kölluð GGGI) höfðu greitt flugfar fyrir dóttur hans frá New York til Rio de Janero en þangað fór hún með föður sínum á ráðstefnu. Á lengsta fréttamannafundi sem haldinn hefur verið í Danmörku og stóð í nær fjóra klukkutíma reyndi Lars Lökke að útskýra og afsaka ástæður þessara farmiðakaupa en niðurstaða fjölmiðla eftir þann fund var að menn væru engu nær.
Carl Holst teygir sig í kökudósina
Meðal þeirra sem kjörnir voru á þing fyrir Venstre flokkinn í kosningunum sl. sumar var Carl Holst 45 ára Suður-Jóti. Hann hafði þá um sjö ára skeið verið formaður Sambands sveitarfélaga í Suður-Danmörku og gegndi því starfi þegar hann var kjörinn á þing. Carl Holst var í miklu uppáhaldi hjá Lars Lökke sem skipaði hann varnarmálaráðherra og jafnframt samstarfsráðherra Norðurlanda. En ráðherraferillinn fór ekki vel af stað og var skammvinnur. Strax eftir kosningar kom fram að Carl Holst ætlaði sér að halda launum sínum sem formaður sveitastjórnasambandsins í einhverja mánuði eftir að hann varð ráðherra, sagði það einfaldlega rétt sinn. Vegna þrýstings neyddist hann þó til að afsala sér þessum launum. Í september vaknaði svo grunur um að aðstoðarmaður Carls Holst, launaður af sveitarfélögunum hefði aðstoðað hann í kosningabaráttunni sl. vor. Slíkt er lögbrot. Samband sveitarfélaga hafði ennfremur borgað enskukennslu og ýmislegt fleira fyrir formanninn. Carl Holst flækti sjálfan sig í alls kyns mótsögnum og því sem fréttamenn hafa kallað lygaþvælu. Borgari á Suður-Jótlandi kærði svo Carl Holst til lögreglu, fyrir að ”teygja sig í kökudósina” og þá sagði hann af sér sem ráðherra. Fyrir skömmu óskaði svo stjórn sambands sveitarfélaganna eftir lögreglurannsókn vegna starfa Carls Holst. Nokkrum dögum eftir að sú beiðni kom fram óskaði Carl Holst eftir leyfi frá þingstörfum. Margir af þingmönnum Venstre eru sagðir anda léttar þótt þeir segi slíkt ekki opinberlega.
Morten Messerschmidt og skútusiglingin
Um síðastliðin mánaðamót birtu fjölmargir danskir fjölmiðlar fréttir af því að Evrópusambandið hefði krafið Danska þjóðarflokkinn um 120 þúsund krónur (tæpar 2. 4 milljónir íslenskar). Ástæðan var að þingmenn Danska þjóðarflokksins höfðu árið 2013, skömmu fyrir sveitastjórnarkosningar, siglt meðfram ströndum Danmerkur á skútu og komið víða við. Til þessarar siglingar hafði flokkurinn fengið styrk frá Evrópusambandinu, gegnum sérstakan sjóð. Ekki er heimilt að nota slíka peninga í þágu einstakra flokka en það var álit Evrópusambandsins að svo hefði verið gert í þessu tilviki. Morten Messerschmidt, sem er fulltrúi Danska Þjóðarflokksins á Evrópuþinginu, og helsta ungstirni flokksins, var þessu algjörlega ósammála. Var dag eftir dag í fjölmiðlum og fór mikinn. Sagðist ekki hafa heimild til að birta reikninga sjóðsins sem siglingingin var greidd úr. Sagði fréttamenn ekkert vita um hvað þeir væru að tala og annað í þeim dúr. Siglingin hefði verið í þágu ESB. Hann myndi útskýra málið fyrir Evrópusambandinu og menn skyldu bara bíða og sjá. Eftir að málið hafði verið skoðað aftur hjá Evróusambandinu var niðurstaðan, sem tilkynnt var fyrir nokkrum dögum sú sama og í upphafi. Hann átti að borga til baka.
Er doktorsritgerðin fengin að láni?
Nýjasta vandræðamálið tengt stjórnmálamönnunum snýst um doktorsritgerð menntunar-og rannsóknaráðherrans Esben Lunde Larsen. Ráðuneyti hans fer með málefni menntunar sem tekur við að loknu stúdents- eða framhaldsskólaprófi.
Esben Lunde Larsen (fæddur 1978) lauk kandidatsprófi í guðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2008. Hann var kjörinn á þing fyrir Venstre árið 2011, endurkjörinn í kosningunum sl. sumar og tók í kjölfarið sæti í ríkisstjórn. Hann varði doktorsritgerð sína, um Grundtvig, árið 2012, en kandidatsritgerð hans hafði líka fjallað um Grundtvig. Fyrir stuttu komu fram í einu dönsku blaðanna efasemdir varðandi menntun ráðherrans. Í doktorsritgerðinni notar hann meðal annars sem heimildir sína eigin kandidatsritgerð. Þegar Danska sjónvarpið, sem fjallað hefur ítarlega um þetta mál keyrði doktorsverkefnið gegnum tölvuforritið PlagScan sem þýskir háskólar nota iðulega kom í ljós að víða í ritgerðinni birtist orðalag sem er nákvæmlega eins og í mörgum öðrum gögnum. Ráðherrann hefur nú beðið Kaupmannahafnarháskóla um að rannsaka ritgerðina og ganga úr skugga um að hún standist allar kröfur sem gerðar eru til slíkra fræðiverkefna. Þingmenn sem Danska sjónvarpið ræddi við vegna málsins voru gætnir í orðavali og vildu bíða niðurstöðu rannsóknar Kaupmannahafnarháskóla. Sumir þeirra sögðu að hver sem útkoman yrði væri þetta allt hálf vandræðalegt fyrir ráðherrann. Nokkrir fræðimenn sem Danska sjónvarpið bar málið undir sögðu að ýmislegt varðandi vinnubrögðin við ritgerðarskrifin vekti grunsemdir um að reglum hefði ekki verið fylgt. Eitt dönsku dagblaðanna vitnaði í þessi ummæli og sagði þau afar kurteisleg. Lars Lökke Rasmussen forsætisráðherra hefur ekkert vilja segja um málið annað en nú sé að bíða og sjá. Espen Lunde Larsen væri dugnaðarforkur.