Háttsemi olíufyrirtækjanna á Íslandi takmarkar eða hefur skaðleg áhrif á samkeppni á olíumarkaði „með alvarlegum hætti“ sem veldur alvarlegum samkeppnishömlum að mati Samkeppniseftirlitsins. Þetta er ekki bara skaðlegt samkeppni heldur einnig fyrir neytendur. Álagning á eldsneyti til einstaklinga er núna sambærileg eða jafnvel hærri en var á samráðstímabilinu, og það styrkir kenningar um að þessar skaðlegu aðstæður séu fyrir hendi.
Samkeppniseftirlitið sendi frá sér skýrslu í dag þar sem fyrsti hluti markaðsrannsóknar þess er kynntur. Það er svokallað frummat á rannsókninni. Talin er ástæða til þess að kanna frekar marga þætti á markaði með bensín til einstaklinga. Kallað hefur verið eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila í málinu og haldinn verður opinn fundur um málið.
Hegða sér öll á sama hátt
Samkeppniseftirlitið telur sjö atriði benda til þess að olíufélögin stundi samhæfða hegðun eða hafi aukið möguleika til samhæfðrar hegðunar þegar kemur að því að selja einstaklingum bensín.
Í fyrsta lagi skilar lægra innkaupaverð á bensíni sér ekki eins vel út í verðlagið og verðhækkanir gera. Næstum því öll hækkun á innkaupaverði fer út í verðlagið á fimm vikum, en aðeins 80% af verðlækkunum.
Þá eru í öðru lagi verðleiðtogar á markaðnum, það er, Olís, Skeljungur og N1 leiða öll verðhækkanir en N1 leiðir verðlækkanir. Verðleiðtogar á markaði eru vísbending um samhæfða hegðun. Í þriðja lagi eru litlar sveiflur á markaðshlutdeild og álagningu í bensínsölu. Hvert fyrirtæki fyrir sig er með mjög stöðugan hlut í markaðnum og ekki miklar sveiflur á álagningunni.
Í fjórða lagi er stöðugleiki í verðákvörðunum, eftir að olíufyrirtækin tóku upp þá stefnu að bjóða sama verðið um allt land. Þá komst á stöðugleiki við verðákvarðanir og óvissa fyrirtækjanna um hegðun hinna minnkaði talsvert. Það virðist líka ríkja friður um það á markaðnum að Orkan sé næstum alltaf með lægsta bensínverðið.
Fimmta atriðið sem bendir til
samhæfðrar hegðunar er það að á tímabilinu 2005 til 2014
hefur álagning á bensín aukist um 19% og á dísel um 50%.
Vísbendingar eru um það að fyrirtækin viðhaldi fyrirfram
ákveðinni álagningu. Með eins innkaupafyrirkomulagi og fáum
verðbreytingum er auðvelt fyrir keppinautana að átta sig á
álagningunni hjá hinum. Þá segir Samkeppniseftirlitið að
verðsamráðið milli olíufélaganna á árum áður hafi líka
þýðingu.
Í sjötta lagi kaupa öll fyrirtækin bensín af sama birgjanum, Statoil í Noregi, og það leiðir til einsleitari innkaupakjara. Í sjöunda og síðasta lagi er vanvirk samkeppni að mati Samkeppniseftirlitsins, sem birtist í því að þættir sem ættu að hafa áhrif á verð, eins og fjöldi keppinauta og mismikill kostnaður, gera það ekki. Einnig hafa olíufélögin ekki brugðist við minni sölu á bensíni með því að fækka bensínstöðvum, og það eru litlar vísbendingar um að samdrætti í sölu hafi verið mætt með lækkun álagningar til þess að laða að viðskiptavini.
Hafa öll hag af því að torvelda aðgang annarra að markaðnum
Félögin teljast líka öll vera lóðrétt samþætt því þau starfa á öllum stigum markaðarins. Þau eru í innflutningi, birgðahaldi, dreifingu, heildsölu og smásölu, og njóta svo markaðsstyrks ýmist hvert um sig eða í sameiningu. Þau hafa líka öll bæði hvata og getu til þess að útiloka nýja keppinauta með því að neita þeim um bensín í heildsölu eða um aðgang að birgðarými. Allt þetta verður til þess að hindra innkomu nýrra fyrirtækja á markaðinn, en tekið er fram í skýrslunni að bandríska fyrirtækið Costco ætlar sér að selja bensín við verslun sína sem á að opna í Garðabæ um mitt næsta ár.
Regluverkið hefur líka slæm áhrif - sérstaklega hjá borginni
Aðgerðir stjórnvalda hafa líka haft skaðleg áhrif á samkeppni á markaðnum. Skipulagslög tryggja ekki nægilega að tekið sé tillit til samkeppnissjónarmiða við skipulagsgerð hjá sveitarfélögum að mati eftirlitsins og það er ekki heldur tryggt að sveitarfélögin líti til samkeppnissjónarmiða við úthlutun lóða til nýrra eða smærri keppinauta. „Skaðlegu áhrif þessa fyrir eldsneytismarkaðinn endurspeglast hvað þyngst í núverandi stefnu Reykjavíkurborgarar sem snýr að því að takmarka fjölda lóða undir eldsneytisstöðvar í sveitarfélaginu en það torveldar aðgang nýrra keppinauta að markaðnum,“ segir orðrétt í skýrslunni.
Þá er miðlun Flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara til þess fallin að hafa skaðleg áhrif á samkeppni, en sjóðurinn miðlar nákvæmum upplýsingum um markaðshlutdeild til félaganna.
Veldur allt skaða fyrir neytendur
Það er almenningur sem ber tjónið af þessu öllu saman, vegna þess að bensínverðið er hærra en það væri ef virk samkeppni væri á markaðnum. Þetta hefur líka afleidd áhrif vegna þess að verðið hefur áhrif á verðlag annarra fyrirtækja á sinni vöru og þjónustu, og líka á vísitölu neysluverðs.
Samkvæmt útreikningum Samkeppniseftirlitsins er beint tjón þannig að álagning á bifreiðaeldsneyti hefur verið óeðlilega há, sem nemur allt að 18 krónum á lítrann af bensíni og 20 krónum af dísil. Þannig hafi neytendur hafi borgað 4 til 4,5 milljörðum of mikið fyrir eldsneytið í fyrra, og þegar litið er til tímabilsins frá 2005 til 2014 nemi þessi upphæð 21 tiil 34 milljörðum króna með virðisaukaskatti.
Álagning á bensíni hefur hækkað nánast stöðugt frá árinu 1996 til 2014, nema á árunum 2003 til 2005, þegar álagning lækkaði. Samkeppniseftirlitið vekur athygli á því að þau ár var samráðsmál olíufélaganna til meðferðar hjá samkeppnisyfirvöldum og mikil umræða var um verðlagningu, auk þess sem Atlantsolía hóf starfsemi.
N1 einu sem hafa brugðist við
N1, stærsta fyrirtækið á olíumarkaðnum, er það eina sem hefur brugðist við frummatsskýrslunni í dag. Það er kannski eðlilegt í ljósi þess að fyrirtækið er líka skráð á markað, og það hefur lækkað talsvert í viðskiptum dagsins í dag.
N1 tekur fram að hagsmunaaðilum hafi ekki verið gefinn kostur á að koma á framfæri sínum sjónarmiðum. Það geti haft áhrif á niðurstöðurnar. „Þá telur N1 einnig mikilvægt að áretta að ekki er um að ræða rannsókn á meintum brotum gegn samkeppnislögum enda kemur fram í frummatsskýrslunni að á þeim tæplega 30 mánuðum sem rannsóknin hefur staðið hafa engar vísbendingar komið fram um brot íslenskra olíufélaga á samkeppnisreglum,“ segir í athugasemdum Eggerts Þórs Kristóferssonar forstjóra fyrirtæksisins.
Hann segir einnig að fyrirtækið telji skýrsluna staðfesta að virk og heilbrigð samkeppni ríki á eldsneytismarkaði, og að forsendur Samkeppniseftirlitsins fyrir því að verðið sé óeðlilega hátt séu rangar. „Ef eldsneytisverð á Íslandi (án opinberra gjalda) væri 14-16 krónum lægra, líkt og Samkeppniseftirlitið virðist telja eðlilegt, væri það lægra eða svipað meðalverði bensíns í OECD löndum, til dæmis lægra en í Danmörku og á sama reki og í Svíþjóð. Það er því miður ekki raunhæft enda ljóst að landfræðileg staða Íslands, smæð markaðarins, hár hlutfallslegur flutnings- og dreifingarkostnaður og hár fjármagnskostnaður hefur óhjákvæmilega í för með sér að verð á eldsneyti sé nokkuð hærra hér á landi en í flestum OECD löndum.“ Fyrirtækið ætlar sér að koma á framfæri frekari sjónarmiðum á næstunni, og segist vilja hafa frumkvæði að úrbótum þar sem þeirra er þörf.