Mörg hundruð flugáhugamenn fylgdust með þegar Airbus A380 farþegaþota lenti á Kastrup flugvelli við Kaupmannahöfn sl. þriðjudag. Undirbúningur þess að risaþotan gæti lent á Kastrup hefur staðið árum saman en vélar af þessari gerð munu framvegis fljúga daglega milli Kaupmannahafnar og Dubai.
Það var ekki að undra þótt flugáhugamenn væru spenntir þegar þriðjudagurinn 1. desember rann upp. Þá var risastálfuglinn, eins og Airbus A380 er stundum kölluð, á leiðinni til Danmerkur. Nokkrum klukkustundum áður en vélin var væntanleg var stór hópur fólks mættur á svæðið við Flyvergrillen, skyndibitastað fast við aðalflugbrautina á Kastrup. Þessi staður er sá eini þar sem flugvéladellufólk kemst í námunda við áhugamálið en einungis girðing skilur að svæðið við Flyvergrillen og flugbrautina. Þennan þriðjudagsmorgun var óvenjulega margt fólk á „útsýnispallinum“ enda í fyrsta skipti sem þessi risaþota lenti á vellinum ef frá er talin ein reynslulending, án farþega, fyrir þremur árum.
„Hvað er svona merkilegt við þessa flugvél?“ spurði lítill snáði sem beið með pabba sínum eftir að vélin kæmi. „Þetta er stærsta farþegaflugvél í heimi“ svaraði pabbinn. „Stærri en sú sem við fórum með til Spánar í fyrra?“ spurði sá stutti. „Miklu stærri“ var svarið. „Vá“sagði snáðinn. Þegar hann sá vélina steinþagði hann, en sagði svo „þetta er alveg satt pabbi, hún er miklu stærri“.
Um hádegisbilið sást hvar ferlíkið birtist á himninum og lenti svo á Kastrup, hjólin snertu völlinn nákvæmlega á þeirri mínútu sem tilkynnt hafði verið fyrirfram. Eftir að flugáhugafólk hafði séð nægju sína af risavélinni hélt það á brott, myndum og minningum ríkara.
Búast við í það minnsta 80 prósenta sætanýtingu
Emirates flugfélagið sem á Airbus vélina hefur flogið daglega milli Kaupmannahafnar og Dubai í rúm fjögur ár. Þar á bæ töldu menn sig því ekki renna blint í sjóinn þegar ákveðið var að nota risavélina á þessari flugleið. Talsmaður flugfélagsins sagði í viðtali að gert væri ráð fyrir að minnsta kosti 80 prósenta sætanýtingu, sem væri vel viðunandi en í vélinni sem flýgur á þessari leið eru 615 sæti. Þegar spurt var um farþegana sagði talsmaðurinn að margir þeirra væru ferðamenn. Sumir hefðu millilent í Dubai, á leið sinni til Kaupmannahafnar, þaðan færu sumir áfram til annarra áfangastaða og sömu leið til baka. Einnig væru margir sem flygju um Kaupmannahöfn á leið sinni til Dubai en þar hefur ferðafólki fjölgað mjög á síðustu árum. Bæði ferðafólki og ekki síður þeim sem væru á ferðinni vegna vinnu sinnar þætti það mikill kostur að geta flogið þessa leið án þess að millilenda. Flugið tekur um það bil sjö klukkustundir frá Dubai en hálftíma skemur til baka. Emirates félagið á 67 Airbus A380 vélar og hefur pantað 140 til viðbótar hjá Airbus verksmiðjunum.
Undirbúningurinn hófst 1988
Um mitt ár 1988 hittist hópur verkfræðinga Airbus verksmiðjanna til að ræða smíði stórrar farþegaþotu. Mikil leynd hvíldi yfir fundinum en í framhaldi af honum hófst undirbúningur að smíði þotunnar sem gekk í fyrstu undir nafninu A3XX. Ætlunin var að smíða þotu sem keppt gæti við Boeing 747 „Jumbo“. Sú vél fór fyrst í loftið 1970 og var um 37 ára skeið stærsta farþegavél heims, til notkunar í áætlunarflugi. Jumboinn getur mest tekið 660 farþega en til samanburðar getur Airbus A380 (fékk það heiti árið 2000) rúmað 853 farþega og 3 þúsund ferðatöskur!
Orðasambandið „Róm var ekki byggð á einum degi“ er iðulega notað um eitthvað sem ekki er hespað af í einum grænum. Þetta á sannarlega við um A380 en sautján ár liðu frá því að undirbúningur smíðinnar hófst og þangað til fyrsta tilraunaflugið fór fram, í apríl 2005. Eftir það var ekki eftir neinu að bíða og framleiðslan sett í fullan gang enda margir áhugasamir kaupendur. Stærstu hlutar vélarinnar eru framleiddir í Frakklandi, Þýskalandi, Spáni og Bretlandi en aðrir hlutar vélarinnar eru framleiddir víða um heim.
Langur biðlisti
Fyrsta áætlunarflug A380 var á vegum Singapore Airlines, í október 2007. Síðan þá hafa Airbus verksmiðjurnar afhent 173 þotur af þessari gerð en alls fengið 317 pantanir.
Kölluð hvalurinn
Flugáhugafólk hefur gefið A380 viðurnefnið „hvalurinn“. Sú nafngift kemur til af tvennu. Annars vegar stærðinni, og hins vegar þykir framendinn minna á tilteknar hvalategundir, til dæmis grindhval. Þegar svokallaðar magntölur eru skoðaðar kemur margt áhugavert í ljós. Vélin er 72.7 metrar á lengd (Hallgrímskirkja u.þ.b. 75 metrar) og heildarbreiddin er rétt tæpir 80 metrar. Fullhlaðin vegur vélin tæplega 600 tonn. Eldsneytisgeymarnir rúma 320 þúsund lítra og vélin getur flogið allt að 15 þúsund kílómetra í einni lotu, hámarkshraði 1020 kílómetrar á klukkustund. Hreyflarnir (mótorar) eru fjórir og þeir eru engin smásmíði, hver um sig tæpir þrír metrar í þvermál, samsettir úr 20 þúsund hlutum. Framleiðendur þeirra eru tveir: Rolls Royce (Trent 900) og General Electric- Pratt og Whitney (GP-7200 turbofan). Þotan er samsett úr 4 milljónum hluta, sem 1500 verksmiðjur í 30 löndum framleiða. 200 gluggar eru á vélinni og 18 útgönguleiðir. Þegar til stendur að mála vélina að utan duga ekki nokkrar 10 lítra fötur, það þarf heila 3600 lítra.
Hljóðlát og sparneytin
Meðal þess sem hönnuðir A380 lögðu sérstaka áherslu á var að hún skyldi vera hljóðlát og sparneytin. Það hefur tekist, hávaðinn frá þotunni er allt að 50% minni en frá Boeing 747. Miðað við aðrar stórar farþegaþotur er eldsneytiseyðslan 17% minni per farþega.
Það eina sem kannski telst nokkurn veginn venjulegt við þessa risaþotu er það að í flugstjórnarklefanum eru tveir, flugstjóri og flugmaður. Það gildir þó bara á styttri flugleiðum, á lengri leiðum eru flugmenn fjórir, en alls eru að jafnaði 22 í áhöfninni.