Aðalmeðferð í svokölluðu CLN-máli Kaupþings hófst í héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Í málinu eru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings og Sigurður Einarsson, fyrrum starfandi stjórnarformaður bankans ákærðir fyrir fyrir stórfelld umboðssvik með því að lánað fjórum eignarhaldsfélögum 260 milljónir evra. Félögin fjögur lánuðu féð áfram til tveggja annarra félaga sem notuðu það til að kaupa lánshæfistengd skuldabréf (Credit Linked Notes, eða CLN) sem tengd voru skuldatryggingarálagi Kaupþings. Þegar þýski bankinn Deutsche Bank hóf veðköll vegna málsins fengu síðari félögin tvö 260 milljónir evra til viðbótar lánuð. Samtals nemur lánsupphæðin 510 milljónum evra, eða um 72 milljörðum króna á gengi dagsins í dag. Í ákæru sérstaks saksóknara kemur fram að talið sé að útlánin séu að öllu leyti töpuð. Þar segir einnig að mennirnir tveir hafi valdið Kaupþingi „stórfelldu tjóni“ með háttsemi sinni.
Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, er einnig ákærður í málinu fyrir hlutdeild í umboðssvikum.
CLN-málið, sem einnig er þekkt sem Chesterfield-málið, var þingfest sumarið 2014. Þá lýstu allir sakborningar yfir sakleysi sínu. Samkvæmt endursögn mbl.is sagði Hreiðar Már, þegar hann var spurður um afstöðu sína til ákærunnar: „Háttvirtur dómari. Ég get upplýst dóminn um það að ég starfaði í fimmtán ár hjá Kaupþingi, þar af tíu sem forstjóri eða aðstoðarforstjóri. Ég tók á þessum tíma aldrei ákvörðun gegn hagsmunum Kaupþings. Þessi ákæra er röng og ég er saklaus.“
Vildarviðskiptavinir gátu grætt en ekki tapað
En hvernig er forsaga þessa máls?
Í byrjun febrúar 2008 fékk Kaupþing þýska stórbankann Deutsche Bank sér til ráðgjafar um hvernig bankinn gæti haft áhrif á síhækkandi skuldatryggingarálag á sig. Sumarið eftir sendi starfsmaður Deutsche Bank hugmynd um viðskipti með lánshæfistengd skuldabréf sem hann taldi að gætu hjálpað til við þetta. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir að „í tölvubréfum sem gengu á milli Sigurðar Einarssonar og Hreiðars Más Sigurðssonar í framhaldinu komu þeir sér saman um að ekki þurfti að fá lífeyrissjóði með í planið en að þetta skuli þeir gera „ekki spurning“.
Alls var skuldatryggingin sem um ræðir 750 milljónir evra, sem á þeim tíma var á bilinu 80-90 milljarðar króna, en væri í dag um 106 milljarðar króna. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir:„Í upphafi var ætlunin að þrjú félög tækju þátt í þessu en þau voru í eigu sex einstaklinga sem voru í miklum viðskiptum við Kaupþing. Þessi þrjú félög áttu að kaupa lánshæfistengd skuldabréf að nafnvirði 125 milljónir evra hvert, með tryggingu upp á 250 milljónir hvert. Svo virðist þó sem viðskiptin hafi ekki átt sér stað við eitt félagið þegar á hólminn var komið. Eigendur tveggja félaga fengu 130 milljónir evra að láni frá Kaupþingi í Lúxemborg. 125 milljónir evra voru eiginfjárframlag til félaganna en 5 milljónir evra gengu til greiðslu þóknunar til Deutsche Bank. Þar sem samningurinn var 250 milljóna evra virði þá fengu félögin 125 milljónir evra að láni frá Deutsche Bank og var lánið með ákvæði um gjaldfellingu ef skuldatryggingarálag færi upp fyrir ákveðin mörk.“
Frá 29. ágúst til 8. október 2008 lánaði Kaupþing alls 510
milljónir evra, sem í dag eru 72 milljarðar króna, í þessi
skuldatryggingaviðskipti. Ekkert eigið fé var lagt í viðskiptin heldur voru þau
að fullu fjármögnuð af Kaupþingi. Félögin sem fengu lánin hétu Trenvis Limited,
Holly Beach S.A.,Charbon Capital Ltd. og Harlow Equities S.A. Þau félög lánuðu
250 milljónir evra til félaganna Chesterfield United Inc. og Partridge
Management Group til að þau gætu keypt skuldabréf tengd skuldatryggingarálagi
Kaupþings.
Auk þess lánaði Kaupþing 250 milljónir evra til Chesterfield og Partridge til að mæta veðköllum frá Deutsche Bank vegna kaupanna. Öllu umrædd félög voru eignarlaus og eigendur þeirra voru vildarviðskiptavinir Kaupþings, sem hefðu grætt ef viðskiptin hefðu skilað arði en gátu aldrei tapað krónu. Þeir voru Skúli Þorvaldsson, Ólafur Ólafsson, Kevin Stanford og Karen Millen og Antonious Yerolemou. Auk þess stóð til að hinn nú þekkti Sjeik Al Thani myndi líka taka þátt í samskonar viðskiptum. Ekkert varð að þeim viðskiptum annað en að félagið Brooks, í eigu Al-Thani, fékk 50 milljónir dala lánaðar.
Hreiðar Már Sigurðsson sagði við skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingis „að það hefði ekki verið neitt nema hagnaðarvon hjá viðskiptavinum bankans sem seldu þessar skuldatryggingar, það er ef bankinn færi í greiðsluþrot þá væri hagnaður núll en ef hann væri enn í rekstri í október 2013 þá myndu þessir viðskiptavinir hagnast. Því til viðbótar sagði Hreiðar: „Ja, þetta var, við töldum að þetta væri þess virði að gera þetta, eins og ég segi, við töldum að við værum að nota fjármuni bankans á ágætlegan hátt, fá ágætis tekjur af þeim fjármunum. Við töldum að það væri mikilvægt að athuga hvort þessi markaður væri raunverulegur eða ekki og við töldum að þetta væri gott fyrir þessa viðskiptavini, sem voru stórir viðskiptavinir og borguðu okkur fullar þóknanir og skulduðu okkur náttúrulega peninga, svo það að staða þeirra mundi batna væri gott fyrir bankann“.
Gríðarlegt og fáheyrt tjón
Í ákæru sérstaks saksóknara í málinu, sem var gefin út í apríl 2014, segir að lánsféð, 510 milljónir evra, sé Kaupþingi glatað og „ljóst að ákærðu hafa með háttsemi sinni valdið Kaupþingi hf. gríðarlegu og fáheyrðu tjóni. Umboðssvikabrot ákærðu eru því stórfellt, hvernig sem á það er litið og sakir ákærðu miklar.
Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Magnúsi Guðmundssyni, frá því í maí 2010, er einnig fjallað um málið. Þar sagði að „gríðarlega háar fjárhæðir hafi verið lánaðar eignarlausum félögum til afar áhættusamra viðskipta og hagsmunum hluthafa og kröfuhafa með því stefnt í stórfellda hættu. Síðustu lánveitingarnar hafi átt sér stað eftir gildistöku neyðarlaganna og veitingu Seðlabanka Íslands á 500.000.000 EUR neyðarláni til Kaupþings banka hf“.
Við rannsókn málsins hafi komið fram upplýsingar um að æðstu stjórnendur Kaupþings, þeir Sigurður Einarsson,Hreiðar Már og Magnús, hefðu tekið ákvarðanir um umræddar lánveitingar og viðskipti. Auk þess eru fleiri mál á hendur þeim enn í rannsókn.
Sigurður skrifar bréf til vina og samstarfsmanna
Sigurður Einarsson ritaði nánustu vinum sínum og samstarfsmönnum bréf 26. janúar 2009 þar sem hann bar hönd fyrir höfuð sér í þeim málum sem þá höfðu verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og tengdust Kaupþingi.
Eitt þeirra mála sem hann skrifar um í bréfinu eru viðskipta Kaupþings með lánshæfistengd skuldabréf, sem hann og félagar hans hafa nú verið ákærðir fyrir. Þar sagði m.a.: „Að tillögu Deutsche Bank var ákveðið að láta reyna á hvað myndi gerast ef bankinn myndi sjálfur fara að kaupa þessar tryggingar. Það var hins vegar ekki einfalt mál, þar sem bankinn gat ekki gefið út tryggingar á sjálfan sig. Því var gripið til þess ráðs að fá viðskiptavini okkar sem við treystum vel og höfðum átt langvarandi samskipti við sem byggðust á trausti og hollustu til að eiga þessi viðskipti fyrir hönd bankans. Vitanlega hefðum við aldrei átt þessi viðskipti nema vegna þessara sérstöku aðstæðna. Viðskiptin voru gerð með hagsmuni bankans að leiðarljósi og í fullu samræmi við lög og reglur.[...]
Þar sem að skuldabréfin, sem við í Kaupþingi ásamt viðskiptafélögum okkur höfðum keypt, voru skuldsett og höfðu nú lækkað í verði var aðeins um tvennt að ræða. Að reiða fram meiri tryggingar eða að gefast upp, láta selja skuldabréfin og tapa hluta eða allri upphaflegri fjárfestingunni. Seinni kosturinn var einfaldlega fráleitur í mínum huga. Lausafjárstaða Kaupþings var góð og ekkert sem benti til annars en að bankinn mundi standa þessa ágjöf af sér, rétt eins og bankinn hafði gert árið 2006 og á vordögum 2008. Ef hins vegar skuldabréfin hefðu verið seld hefði bankinn orðið fyrir tjóni og hætt við að aukið framboð skuldabréfa hefði enn frekar grafið undan bankanum og veikt aðgang að hans að lánalínum. Í fjölmiðlum er nú efast um skynsemi þess sem er kallað að færa fjármuni út úr bankanum vikurnar fyrir fall hans. Þetta er skýring þeirra fjármagnsflutninga. Tilgangur þeirra var að viðhalda Kaupþingi sem "going concern" og allt útlit var fyrir að það tækist í lok september. Nákvæmlega hvenær forsendur breytast er erfitt að segja til um. En ég fullyrði að með þessu var unnið að hagsmunum allra kröfuhafa sem og hluthafa Kaupþings, því um leið og banki hættir að vera "going concern" tapast gríðarlegir fjármunir þegar allar eignir bankans sem aðrir eiga að veði eru seldar eða notaðar til skuldajöfnunar".
Hægt er að lesa bréf Sigurðar í heild sinni hér.
Sakfelldur í þremur öðrum málum
Allir sakborningarnir þrír afplána sem stendur dóma á Kvíabryggju. Þeir hlutu allir dóma í Hæstarétti í Al Thani-málinu í febrúar síðastliðnum. Þar var Hreiðar Már dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður í fjögurra ára fangelsi og Magnús í fjögurra og hálfs árs fangelsi. Ólafur Ólafsson, sem var stór eigandi í Kaupþingi fyrir hrun, hlaut einnig fjögurra ára fangelsi. Voru fjórmenningarnir dæmdir fyrir markaðsmisnotkun á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti og umboðssvik samkvæmt hegningarlögum. Hæstiréttur kallaði brot mannanna alvarlegustu efnahagsbrot sem „nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot[…]Ákærðu[...]eiga sér engar málsbætur“.
Hreiðar Már, Sigurður og Magnús voru einnig allir ákærðir í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings sem héraðsdómur dæmdi í fyrr á þessu ári. Þar var Hreiðar Már dæmdur sekur en hlaut ekki viðbótarrefsingu. Sigurður var einnig dæmdur sekur og einu ári var bætt við afplánun hans. Tveimur ákæruliðum gegn Magnúsi var hins vegar vísað frá og hann sýknaður í málinu að öðru leyti. Niðurstöðunni hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.
Þá voru bæði Hreiðar Már og Magnús dæmdir sekir í héraðsdómi í október 2015 í svokölluðu Marple-máli. Hreiðar Már hlaut þá sex mánaða aukarefsingu en Magnús var dæmdur í 18 mánaða fangelsi. Skúli Þorvaldson var einnig dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar en Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, var sýknuð af ákæru í málinu. Hreiðar Már og Guðný Arna voru ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Magnús var ákærður fyrir hlutdeild í fjárdrætti og umboðssvikum og Skúli var ákærður fyrir hylmingu.