Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði á þingi á mánudag að henni þætti árangur ríkisstjórnarinnar mjög lélegur þegar kæmi að framlagningu þingmála. Aðeins hefðu verið lögð fram 45 frumvörp og 11 þingsályktunartillögur, sem væru sláandi tölur. „Ég hlýt að spyrja hvort ráðherrar í þessari ríkisstjórn séu starfi sínu vaxnir og hvort hæstvirtur forsætisráðherra sem á að stýra ríkisstjórninni sé nógu góður verkstjóri.“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra svaraði því til að tölurnar ættu nú ekki að vera sláandi „ef háttvirtur þingmaður hefur fylgst með sambærilegum tölum undanfarin ár, ef ekki áratugi.“ Hann sagði jafnframt að ríkisstjórnin einsetti sér að vinna hlutina vel og gera færri en betri breytingar. Hann sagði ríkisstjórnina kynna „lista yfir öll þau mál sem við sjáum fyrir okkur að gætu komið fram“ og átti þar við þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Slík skrá er alltaf lögð fram yfir mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á hverju þingi. Á þingmálaskránni fyrir þetta þing eru 184 mál.
Brynhildur spurði þá til hvers þingmálaskráin væri og hvort hún væri óskalisti yfir mál sem gaman væri að leggja fram ef hugsanlega væri tími til þess. Hún sagði árangurinn mjög lélegan. „Ég held að ég fari rétt með að þetta er sögulega lélegt,“ sagði Brynhildur í óundirbúnum fyrirspurnatíma í þinginu.
Hvernig er samanburðurinn?
Brynhildur er ekki sú fyrsta til þess að vekja athygli á því að fá mál hafi komið inn til Alþingis. Eins og Kjarninn greindi frá í síðasta mánuði höfðu bæði stjórnarandstæðingar og stjórnarliðar vakið máls á því að málin væru fá. Þetta var í lok nóvember og þá hafði stjórnin aðeins lagt fram 25 frumvörp. Þar af voru 15 endurflutt, þrjú voru EES frumvörp og 2 voru vegna alþjóðlegra sáttmála.
En í tilefni þessara orðaskipta Brynhildar og Sigmundar ákvað Kjarninn að kanna málið á ný. Er árangur ríkisstjórnarinnar sögulega lélegur eða eru tölurnar ekkert sláandi ef litið er til undanfarinna ára eða áratuga?
Meðaltal stjórnarfrumvarpa frá upphafi þings og til 9. desember hvert ár er 58,85 frumvörp. Ríkisstjórnin er því vel undir meðaltali síðustu 20 ára.
Þegar frumvörp og þingsályktunartillögur ríkisstjórna eru tekin saman kemur í ljós að fjórum sinnum á síðustu 20 árum hefur ríkisstjórn lagt fram færri mál til og með 9. desember. Árið 2008 voru 49 mál lögð fram á þessum tíma, 50 árið 2004 og 51 árið 2003. 53 mál höfðu verið lögð fram af ríkisstjórn árið 2001. Í ár hafa verið lögð fram 56 mál.