Ummæli Donald Trump um að loka bæri landamærum Bandaríkjanna fyrir öllum múslimum hafa eðlilega vakið mikla athygli, fordæmingu og viðbrögð um allan heim. Eðlilega, þar sem Trump leiðir sem stendur kapphlaupið um að vera tilnefndur sem forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum á næsta ári samkvæmt skoðanakönnunum.
Fréttasíðan FiveThirtyEight, sem sérhæfir sig í greiningu á tölfræði, og raunar fjölmargir aðrir, hafa ítrekað bent á að Trump muni að öllum líkindum ekki vinna. Samkvæmt fréttum hennar hafa frambjóðendur úr röðum repúblikana sem hafa mælst með mikið fylgi snemma í kapphlaupinu um útnefninguna, og talað í fyrirsögnum, aldrei náð að vinna útnefninguna. Má þar nefna fólk eins og Pat Robertsson (1988), Pat Buchanan (1996), Steve Forbes (2000), Mick Huckabee (2008), Ron Paul (2012) og Rick Santorum (2012).
En stærsta ástæðan fyrir því að Trump mun líkast til ekki vinna er sú að Repúblikanaflokkurinn vill ekki að hann vinni.
Hefur áður beitt svipuðum tólum
Það breytir því ekki að kastljósið beinist iðulega að Trump. Hann virðist móta umræðuna á meðal frambjóðenda. Ummæli Trump hafa enda skilað honum því sem hann sækist iðulega eftir, fyrirsögnum. Loftlagsráðstefnan í París, og þau mikilvægu málefni sem hún er að reyna að taka á, kemst ekki með tærnar þar sem Trump er með hælana þegar kemur að umfjöllun undanfarna daga. Þótt þjóðarleiðtogar, borgarstjórar, pólitískir andstæðingar, og ætlaðir samherjar Trump hafi sameinast í því að fordæma ummæli hans hefur það ekkert dregið úr honum.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Trump notar kynþáttahyggju eða menningarlegan rasisma til að koma sér á framfæri. Hann hóf kosningabaráttu sína með látum og lofaði því að byggja múr til að hindra flæði innflytjenda frá Mexíkó til Bandarikjanna og ásakað yfirvöld í Mexíkó um að senda glæpamenn og nauðgara til Bandaríkjanna . Trump sagðist lofa því að sekta Mexíkó um hundrað þúsund dollara fyrir hvern einstakling sem kæmi ólöglega til Bandaríkjanna. Í júlí sagði hann m.a. : „Það stafar mikil hætta frá ólöglegum innflytjendum, það stafar gríðarlega mikil hætta frá ólöglegum innflytjendum við landamærin.“
Flestar fullyrðingarnar sem Trump lét falla á þessum fyrstu stigum baráttu sinnar áttu sér ekki stoð í raunveruleikanum. Engin gögn styðja t.d. þá fullyrðingu að innflytjendur fremji fleiri glæpi en þeir sem fæðast í Bandaríkjunum.
Múslimar í Bandaríkjunum fáir en menntaðir
Hin róttæka yfirlýsing, þegar Trump kallaði eftir því að landamærum Bandaríkjanna yrði að öllu leyti lokað fyrir múslimum, var sett fram á mánudag. Trump rökstuddi kröfuna með því að það væri svo mikið hatur á meðal múslima alls staðar í heiminum í garð Bandaríkjamanna að það yrði að loka landamærunum fyrir þeim þangað til að það verður betur hægt að greina og skilja vandamálið. „Landið okkar getur ekki fórnarlamb hræðilegra árása fólks sem trúir einungis á Jihad." Trump sjálfur, og stuðningsmenn hans, hafa síðan ítrekað þessa kröfu.
En þarf Trump að hræðast múslima í Bandaríkjunum? Á ótti hans við rök að styðjast? Bandaríska fréttastöðin CNN hefur tekið saman ýmis gögn sem benda til að svo sé ekki. Raunar sé það fjarri lagi.
Í fyrsta lagi eru múslimar mjög lítið brot af þeim sem búa í Bandaríkjunum. Þeir eru undir eitt prósent fullorðina Bandaríkjamanna og spár gera ráð fyrir að þeir verði 2,1 prósent árið 2050. Af þessum hluta er gert ráð fyrir að 63 prósent verði innflytjendur, sem Trump vill banna að koma til Bandaríkjanna. Það er því ólíklegt að þetta litla þjóðarbrot muni taka yfir Bandaríkin og koma á Sjaría-lögum.
Í samantekt CNN kemur einnig fram að múslimar í Bandaríkjunum eru líklegri en flestir Bandaríkjamenn til að hafa lokið háskólaprófi. Raunar eru gyðingar eini trúarhópurinn sem mælast með hærra menntunarstig en múslimar.
Ekki meiri bókstafstrúarmenn en kristnir
Þá á mýtan um að konur séu ætið undirokaðar í múslimskum samfélögum ekki við um þá sem búa í Bandaríkjunum. Um 90 prósent bandarískra múslima eru þeirrar skoðunar að konur eigi að taka þátt á vinnumarkaði og bandarískar múslimakonur eru menntaðri en bandarískir múslimakarlar.
CNN bendir einnig á að múslimar hafi verið hluti af bandarísku þjóðinni frá því að hún varð þjóð. Allt að þriðjungur þeirra þræla sem fluttir voru til Bandaríkjanna frá Afríku voru múslimar.
Ein mýtan um múslima er þó dagsönn. Flestir bandarískra múslima eru mjög trúaðir. Um helmingur þeirra mætir til bænhalds vikulega. Hópurinn er þó ekki einsleitur og 57 prósent hans segja að það séu til fleiri leiðir en ein til að túlka ritningar trúarinnar.
Þeir skera sig samt ekki frá öðrum trúarhópum í Bandaríkjunum varðandi staðfestu í trúnni. Um 70 prósent þeirra Bandaríkjamanna sem aðhyllast kristni segja trúnna vera mikilvægan hluta af lífi þeirra og um 45 prósent þeirra fara vikulega trúarlega samkomu.
Það er líka rétt að bandarískir múslimar hafa framið hryðjuverk í landinu frá 11. september 2011 og til loka árs 2014. Alls hafa 50 manns látist í slíkum sem framin hafa verið af bandarískum múslimum á tímabilinu. Til samanburðar má nefna að á síðasta ári einu saman létust 136 manns í stórfelldum skotvopnaárásum í Bandaríkjunum, eða 86 fleiri en létust samtals vegna hryðjuverka bandarískra múslima á rúmlega 13 ára tímabili. Auk þess þá hafa múslimar í Bandaríkjunum fordæmt þau hryðjuverk sem framin hafa verið í nafni trúar þeirra í landinu og hjálpað til við að benda á aðila sem líklegir eru til að ætla að fremja slík hryðjuverk.
Það virðist því vera að fullyrðingar Trump séu, sem fyrr, í mikilli andstöðu við raunveruleikann.