Moranbong er ein allra vinsælasta hljómsveitin í Norður-Kóreu, og hún skaust á ný í sviðsljós vestrænna fjölmiðla í gær þegar sagt var frá því að fyrirhugaðri tónleikaferð Moranbong í Kína hefði verið aflýst á síðustu stundu.
Hljómsveitin, sem er eingöngu skipuð konum, var mætt til Peking og hafði verið þar í nokkra daga, og meðal annars æft fyrir tónleikana. Með í för var ríkiskór N-Kóreu. Svo allt í einu sáust meðlimir hljómsveitarinnar stíga út úr rútu á flugvelli í Peking í gær, og flugu aftur til Pjongjang. Þetta var nokkrum klukkustundum áður en fyrstu tónleikar þeirra á erlendri grundu áttu að fara fram.
Áætlunin var að halda þrenna tónleika í Kína í því skyni að bæta tengslin á milli ríkjanna tveggja. Vináttutónleikar áttu þetta að vera. Þær voru kvaddar með formlegum hætti af háttsettum ráðamönnum og sendiherra Kína.
Breskir og bandarískir fjölmiðlar hafa kallað ferðalagið Spice Girls alþjóðasamskipti, með tilvísun í bresku stúlknasveitina frægu. Ríkisfjölmiðillinn í Norður-Kóreu, KCNA, greindi frá ferðalagi hljómsveitarinnar og kórsins og sagði heiminn nú einblína á heimsóknina til Kína. Það var kannski helst til sterkt til orða tekið, en það er alveg rétt að fjölmargir fjölmiðlar sýndu ferðalaginu áhuga.
Kína hefur löngum verið eini bandamaður Norður-Kóreu, en tengslin á milli hafa verið stirð undanfarin ár. Ekki síst hefur það átt við eftir kjarnorkutilraunir Norður-Kóreumanna undanfarin ár.
Þykja jafnvel vestrænar - og klæða sig á íhaldssaman, kynþokkafullan hátt
Sagan segir að Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hafi sjálfur handvalið meðlimi hljómsveitarinnar. Þær spila allar á hljóðfæri, venjulega er sveitin með 12 hljóðfæri, auk þess sem þær syngja.
Hljómsveitin þykir vestræn að sumu leyti, að minnsta kosti í samanburðinum. Hægt er að horfa á flesta slagara þeirra á Youtube, þær eru með Facebook-síðu, og þær hafa spilað vestræna tónlist í bland við hefðbundna kóreska tónlist og áróðurssöngva. Það er til að mynda frægt að þær spiluðu þemalagið úr Rocky á einum tónleikum, eins og sjá má hér að neðan.
Sögusagnir um hvarf
Eins og oft í Norður-Kóreu fóru á sveim háværar sögur þegar svo virtist sem að stúlknabandið hefði horfið af yfirborði jarðar í sumar. Því var velt upp hvort hljómsveitin, sem Kim Jong-un hafði haldið svo mikið upp á, hefði fallið úr náðinni. Í tvo mánuði var mikið rætt um það hvar þær væru, og hvort þær hefðu hreinlega verið hreinsaðar burt, teknar af lífi. Svo allt í einu, í byrjun september, komu þær á stórum tónleikum í Pjongjang. Og þær höfðu hreint ekki fallið úr náðinni hjá Kim, sem var mættur á tónleika með sendinefnd frá Kúbu með sér.
Og nú hurfu þær frá Kína
Engin skýring var gefin á þessum óvæntu breytingum. Telegraph segir að kínverskur blaðamaður hafi velt því upp að hljómsveitin hafi neitað að koma fram eftir að hafa verið beðin um að breyta söngtextum. Engin opinber skýring er þó komin fram. DPA fréttastofan segir að ein kenningin sé að stjórnvöld í Norður-Kóreu hafi móðgast yfir fréttum í fjölmiðlum um að aðalsprautan í bandinu, Hyon Song Wol, sé fyrrverandi kærasta leiðtogans Kim. NK News segir það ljóst að með þessu muni vantraust kínverskra stjórnvalda í garð kollega sinna í N-Kóreu aukast. En svo er auðvitað spurningin hversu miklu máli þessi „Spice Girls alþjóðasamskipti“ skiptu í raun.