Eitt af loforðum danska Venstre flokksins fyrir þingkosningarnar sl. sumar var að opinber störf (iðulega talað um nokkur þúsund) yrðu flutt frá Kaupmannahöfn til staða í dreifbýlinu. Í Danmörku hefur íbúum í dreifbýli fækkað mjög á undanförnum árum en að sama skapi fjölgað í þéttbýli, einkum í Kaupmannahöfn. Þangað flytjast um eitt þúsund manns í hverjum mánuði, stærstur hluti þess hóps frá fámennari svæðum í landinu. Þótt stjórnmálamenn hafi árum saman lýst áhyggjum vegna þessa og ýmislegt verið gert til að stemma stigu við straumnum í þéttbýlið hefur það litlu breytt.
Baráttumál Danska þjóðarflokksins
Forystumenn Danska Þjóðarflokksins hafa lengi talað fyrir því að flytja opinberar stofnanir frá Kaupmannahöfn. Fyrir þingkosningarnar í júní sl. var þetta eitt helsta baráttumál flokksins án þess að tilteknar stofnanir væru nefndar né tölur um fjölda starfa sem æskilegt væri að flytja frá höfuðborginni. Nokkrir af forystumönnum flokksins nefndu þá að réttast væri að stofna nefnd til að koma með tillögur, um fjölda stofnana og starfsmanna sem æskilegt væri að flytja og líka hvert þær stofnanir færu.
Í ágúst hafði Danski Þjóðarflokkurinn hinsvegar skipt um skoðun, sagði með því að setja „flutningamálið“ í einhverja nefnd myndi allt dragast og jafnvel koðna niður. Flokkurinn kynnti jafnframt tillögur um 12 stofnanir sem hægt væri að flytja, talan 4000 starfsmenn var nefnd í þessum tillögum. Einn af þingmönnum Danska Þjóðarflokksins sagði að tillögurnar væru settar fram til að ýta á ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen.
Stjórnin vill flytja 20 stofnanir og 3900 störf
Í byrjun október tilkynnti ríkisstjórnin að 20 ríkisstofnanir, allar eða að hluta, yrðu fluttar frá Kaupmannahöfn og um það bil 3900 störf. Störfin og stofnanirnar sem flutt verða dreifast á 38 staði, af einstökum stöðum flytjast flest störf til Næstved (395) en fæst (5) til Borgundarhólms. Meðal þeirra stofnana sem flytjast að hluta eða öllu leyti eru Danska skattstofan, Rekstrarstofnun járnbrautanna, Vinnueftirlitið, Umhverfisstofnun, Útlendingastofnun og Siglingamálastofnun svo fátt eitt sé nefnt.
Enginn veit kostnaðinn
Þegar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um flutning stofnananna var kynnt var jafnframt greint frá því að áætlaður kostnaður vegna flutninganna myndi nema 400 milljónum króna (u.þ.b. 7,6 milljarðar íslenskir). Flestum er ljóst að sú upphæð er fjarri lagi. Útreikningar og upplýsingar um kostnað vegna flutninga stofnana á síðustu árum sýna að 3 milljarðar (57 milljarðar íslenskir) gætu verið nær lagi og hugsanlega mun hærri. Mörgum þeirra stofnana sem ákveðið hefur verið að flytja fylgir mikill og flókinn búnaður, sem taka þarf niður og flytja á nýja staðinn og koma þar fyrir. Víða þarf að breyta húsnæði, ef það er á annað borð fyrir hendi, áður en flutningarnir fara fram. Samkvæmt áætlun stjórnarinnar á flutningum stofnananna að ljúka fyrir árslok 2017.
Starfsfólkið vill ekki flytja
Langflestir starfsmenn þeirra stofnana sem fluttar verða ætla sér ekki að fylgja með á nýja staðinn. Óformlegar kannanir tveggja danskra dagblaða sýna að 5 til 15 prósent starfsmanna viðkomandi stofnana ætla að halda áfram á nýja staðnum, nokkur hópur er óákveðinn. Verði raunin sú að svo fáir velji að flytja má reikna með að langur tími líði þangað til starfsemin verður komin í samt lag. Að þjálfa nýtt starfsfólk tekur, í sumum tilvikum, langan tíma og kostar sitt. Vegna atvinnuástandsins má búast við að margir sæki um störf sem auglýst verða, framboð á vinnuafli er mikið.
Til hvers og hvað vinnst
Ráðherrar í ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen hafa, þegar spurt hefur verið um tilganginn, svarað því til að flutningur stofnana sé pólitísk ákvörðun sem stjórnin hafi fullt leyfi til að taka. Og tilgangurinn sé að styrkja atvinnulífið á landsbyggðinni. Kaupmannahöfn hafi á undanförnum árum sogað að sér óeðlilega stóran hlut opinberrar starfsemi og þar séu mörg ríkisfyrirtæki og stofnanir sem geti sem best verið annars staðar í landinu. Þessu er út af fyrir sig erfitt að mótmæla segja efasemdarmenn en spyrja hvort staðsetning ríkisstofnana víðsvegar um land kalli ekki á mikil og kostnaðarsöm ferðalög milli landshluta. Miðstöð stjórnsýslunnar sé í Kaupmannahöfn og tilfæringar eins og þær sem nú hafi verið ákveðnar breyti þar engu um.
Eins og að reka mörg heimili
Ein þeirra stofnana sem að hluta til verða fluttar frá Kaupmannahöfn er Matvæla-og landbúnaðarstofnunin. Af rúmlega 1200 störfum verða 392 flutt til tveggja staða á Suður-Jótlandi, Tönder og Augustenborg. Stofnunin er sú fyrsta sem lagt hefur mikla vinnu í að meta kostnaðinn við flutninginn og þeir útreikningar sýna að kostnaðurinn muni nema 184 milljónum króna. Það er tæplega helmingur þeirrar upphæðar sem ríkisstjórnin hefur áætlað að flutningur 3900 starfa frá höfuðborginni muni kosta. Stærstur hluti kostnaðarins við flutning Matvæla-og landbúnaðarstofnunarinnar er vegna viðgerða og endurbóta á gömlu geðsjúkrahúsi, Augustenborg.
Forstjóri stofnunarinnar sagði í viðtali við dagblaðið Berlingske augljóst að rekstrarkostnaðurinn myndi aukast. „Það þekkja margir hvað það kostar að reka tvö heimili, ég tala nú ekki um þrjú eins og okkur er ætlað“. Samkvæmt innanhússkönnun ætla 15 prósent starfsfólksins að flytja með stofnuninni til Suður-Jótlands.
Menningarmálaráðherrann tvístígandi
Ein þeirra stofnana sem ákveðið hefur verið að flytja er Listamannavinnustofur ríkisins. Hún er í gömlu pakkhúsi við Strandgötuna á Kristjánshöfn, starfsmenn eru átta talsins. Þessi stofnun á að flytjast til Helsingjaeyrar, nánar tiltekið í Krónborgarkastalann og gömlu skipasmíðastöðina þar skammt frá. Listamannavinnustofur ríkisins hafa nokkra sérstöðu í hópi þeirra stofnana sem ætlunin er að flytja: fátt starfsfólk en mjög plássfrek og sérhæfð vinnuaðstaða. Vinnustofurnar eru tíu talsins, misstórar. Þeim er úthlutað til ákveðins tíma, iðulega tveggja til þriggja mánaða í senn. Þar geta listamenn undirbúið sýningar, unnið plássfrek verk og haft aðgang að fullkomnum tækjum. Stofnunin ræður einnig yfir nokkrum íbúðum sem listamenn, danskir og erlendir, geta búið í samtímis því sem þeir vinna á verkstæðunum. Listamenn hafa bent á að þetta geri listamönnum, t.d af landsbyggðinni, kleift að kynnast stefnum og straumum í höfuðborginni samtímis sem þeir vinni að list sinni.
Að flytja verkstæðin er talið kosta um 125 milljónir króna. Bertel Haarder menningarmálaráðherra hefur sagt að í ljósi þess hve fá störf sé um að ræða, en jafnframt mikinn kostnað vilji hann skoða sérstaklega hvort rétt sé að hætta við flutninginn. „Skynsemin verður að ráða“ sagði ráðherrann. Hann ætlar, fljótlega eftir áramót, að hitta forsvarsmenn vinnustofunnar og fara með þeim yfir málið. „Við bruðlum ekki með fjármuni til menningarinnar“ sagði Bertel Haarder.