Fréttamenn
Danska ríkisútvarpsins sem rekur stærstu og öflugustu fréttastofu landsins
telja hryðjuverkin í Kaupmannahöfn í febrúar lang stærstu frétt ársins í
konungsríkinu. Kosningar og málefni flóttamanna eru líka meðal helstu
fréttamála ársins.
Í árslok rifja fjölmiðlar iðulega upp helstu viðburði ársins, á innlendum og erlendum vettvangi. Dönsku fjölmiðlarnir eru á einu máli um að hryðjuverkin í Kaupmannahöfn séu fréttamál ársins en flestir þeirra segja jafnframt að Danir hefðu helst viljað vera án þeirra voðaverka.
Um kaffileytið laugardaginn 14. febrúar kom ungur maður, Omar Abdel Hamid El-Hussein gangandi að samkomuhúsinu Krudttönden á Austurbrú í Kaupmannahöfn. Þar stóð þá yfir fundur um tjáningarfrelsi og meðal ræðumanna var sænski teiknarinn Lars Vilks. Hann hafði gert umdeilda teikningu af spámanninum Múhameð í hundslíki, teikningin birtist í sænska blaðinu Nerikes Allehanda í ágúst árið 2007. Hún olli reiði margra múslima sem hótuðu teiknaranum lífláti. Omar El-Hussein var ekki kominn til þess að hlýða á umræður um tjáningarfrelsi, hafði annað í huga.
Enginn er til frásagnar um hvað hann ætlaðist fyrir en öryggisverðir voru við inngang samkomuhússins. Þar var líka kvikmyndagerðarmaðurinn Finn Nörgaard. Þegar Omar El-Hussein var kominn að húsinu dró hann upp byssu, þegar Finn Nörgaard sá hvað verða vildi reyndi hann að yfirbuga Omar El-Hussein en galt fyrir með lífi sínu. Omar El-Hussein tókst ekki að komast inn í samkomusalinn en lagði á flótta og þrátt fyrir að mikil leit hæfist strax fannst hann ekki. Ótti við að ungi maðurinn, sem lögreglan fann fljótlega út hver var, myndi láta aftur til skarar skríða reyndist á rökum reistur.
Í kjölfar þessara atburða fylgdu miklar umræður um öryggismál og óttann við hryðjuverk en ekki síður hvað fær unga menn eins og Omar El-Hussein til að vinna slík voðaverk. Sú umræða stendur enn.
Eins og getið var í upphafi er þetta lang stærsta fréttamál ársins í Danmörku, að mati fréttamanna danskra fjölmiðla.
Aðrir stóratburðir í dönsku þjóðlífi voru að mati fréttamanna þingkosningarnar 18. júní, kosningar um fyrirvara Dana við ESB samninginn 3. desember, flóttamannastraumurinn og mál honum tengd voru líka nefnd, endalaust klúður hjá dönsku skattstofunni komst líka á blað og svo nefndu fréttamenn tvö mál sem aðrir en Danir myndu líklega ekki telja mikil fréttamál. Annars vegar 75 ára afmæli Margrétar Þórhildar drottningar og að fyrsti danski geimfarinn Andreas Mogensen þaut út í geiminn í september. Þegar fréttamenn voru beðnir um að raða þessum málum eftir mikilvægi (án þess að það væri nánar skilgreint) nefndu þeir allir flóttamannamálin.